Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Tekið á móti börnum í birtu hvenær sólarhringsins sem er

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Lilongwe og þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar GiZ/Energising Development afhentu formlega í síðustu viku sólarknúin rafmagnskerfi sem sjá fjórum skólum og fjórum heilsugæslum í Mangochi héraði fyrir hreinni, ódýrri og endurnýjanlegri orku.

Athöfnin fór fram á heilsugæslunni í Kadango-þorpi. Þar fjármagnaði Ísland byggingu fæðingardeildar og biðskýlis fyrir verðandi mæður. Nú á heilsugæslan sólarknúið rafmagnskerfi sem veitir lýsingu innan- og utandyra og inni á heimilum starfsfólks rétt hjá, auk þess að tryggja rafmagn fyrir heilbrigðistæki og tól sem eru notuð þar.

„Við vorum vön að biðja barnshafandi konur og aðstandendur þeirra að koma með vasaljós eða lampa á fæðingardeildina svo við gætum annast þær í myrkrinu. Í dag get ég stolt sagt þeim að við getum tekið á móti þeim og börnunum þeirra í birtu hér í Kadango, hvenær sem er sólarhringsins og engin þörf fyrir þær sjálfar að koma með ljós,“ segir Emma Godwe forstöðukona heilsugæslunnar.

Sólarknúnu rafmagnskerfin anna orkuþörf það vel að heilsugælslan hefur nær ekkert þurft að reiða sig á rafveitukerfið í landinu sem er bæði dýrt og óstöðugt. í Malaví hafa tæplega 12 prósent þjóðarinnar aðgang að rafmagni sem er mjög óstöðugt og oft bara í fáeinar klukkustundir á dag. Því hefur sólarorkan sparað rekstrarkostnað auk þess að bæta heilbrigðisþjónustu og aðstöðu starfsfólks. Afhendingin á rafmagnskerfunum var lokaáfangi á verkefni GiZ/Energising Development (EnDev) sem fjármagnað var af Íslandi í þrjú ár. Meginmarkmið verkefnisins var að veita skólum og heilsugæslum aðgang að sólarknúnu rafmagni og orkusparandi eldhlóðum til að draga úr eldiviðarnotkun við eldamennsku. Þessi aðstoð er hluti af heildstæðum stuðningu Íslands við Mangochi héraði.

„Ísland hefur fjárfest mikið í að mæðra- og ungbarnavernd og menntun barna í sveitum Mangochi sem eru afskekktar en fjölmennar. Í dag fögnum þessari mikilvægu viðbót og við sjáum strax ávinningin: heilbrigðisþjónusta er tryggð dag sem nótt, starfsfólk er ánægðara í starfi þegar það fær aðgang að stöðugu rafmagni fyrir tæki og heimili sín. Og að orkan sé græn og sjálfbær ef viðhaldið á réttan hátt, er gríðarlega mikilvægt fyrir Malaví og okkur sem framlagsríki. Samstarfið við GiZ/EnDev hefur verið einkar ánægjulegt og gengið vel en þau hafa enn fremur þjálfað héraðsyfirvöld sem eiga að viðhalda og gera við kerfin og þannig stuðla að sjálfbærni þeirra til lengri tíma,“ segir Kristjana Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri við sendiráð Íslands í Lilongve.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta