Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja verði leiðarljós í skólastarfi
„Saman munum við gera allt hvað við getum til að tryggja áfram skólastarf þar sem menntun, vellíðan og öryggi nemenda og starfsfólks er í forgangi. Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja verða leiðarljós þeirrar samvinnu,“ segir m.a. í yfirlýsingunni. Þá segir að aðilar búi að dýrmætri reynslu frá liðnu vori og hafi einsett sér að bregðast hratt við þróun mála, nýjum upplýsingum og aðstæðum hverju sinni. Hugsa í lausnum og tryggja að nemendur hafi viðeigandi aðstöðu og stuðning til að stunda nám sitt. Undirritaðir hvetja samfélagið allt til að leggjast á sveif með skólum landsins og standa vörð um skólastarf, enda sé menntun sé ein af grunnstoðum samfélagsins og eitt brýnasta velferðarmál þjóðarinnar til framtíðar.
„Í vor einkenndist skólastarfið af samstöðu skólafólks, sem náði góðum árangri við fordæmalausar aðstæður. Ég fagna mjög þeim samhug sem er áberandi í upphafi nýs skólaárs og er bjartsýn á farsælt skólastarf, bæði í byrjun skólaársins og í allan vetur. Ég er sannfærð um að samhugur skólafólks mun tryggja menntun og vellíðan barna í skólanum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í aðdraganda skólaársins hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið með sóttvarnaryfirvöldum og framkvæmdaaðilum skóla- og frístundastarfs að útfærslum á gildandi sóttvarnarráðstöfunum fyrir mismunandi skólastig. Þær verða sendar út og birtar á vef ráðuneytisins í vikunni.