Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 432/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 1. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 462/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18100043 og KNU18100044

 

Beiðni […],

[…] og barns þeirra um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði nr. 204/2018 uppkveðnum þann 24. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25., 29. og 31. janúar 2018, um að taka umsóknir […], fd. […] (hér eftir K), […], fd. […] (hér eftir M), og barns þeirra, […], fd. […] (hér eftir A), öll ríkisborgarar Íraks, um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Frakklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 30. apríl 2018. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. maí 2018. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 22. maí 2018. Þann 22. júlí 2018 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kærenda. Beiðni kærenda um endurupptöku var hafnað þann 9. ágúst sl. Þann 22. október 2018 óskuðu kærendur á ný eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Þann 26. október 2018 barst kærunefnd greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn og skýringar frá kærendum 31. október og 1. nóvember 2018.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar, hagsmuna A og þess að kærunefnd fjallaði um kærur kærenda á ákvörðunum Útlendingastofnunar, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd, í einum úrskurði kærunefndar nr. 204/2018 mun mál þeirra er varðar beiðni um endurupptöku haldast í hendur í úrskurði þessum.

Krafa kærenda um endurupptöku máls þeirra er aðallega byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Þá krefjast kærendur þess til vara að kærunefnd fresti réttaráhrifum ákvarðana Útlendingastofnunar, dags. 25., 29. og 31. janúar 2018, með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þar sem kærendur hyggjast bera mál sitt undir dómstóla.

Að lokum krefjast kærendur þess að í báðum tilfellum fresti kærunefnd framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar þar til endanleg niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir vegna beiðni þeirra um endurupptöku mála sinna og frestun á réttaráhrifum.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur krefjast þess að mál þeirra verði endurupptekin hjá kærunefnd þar sem aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvarðanir hafi verið teknar og að ákvarðanir hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í sameiginlegri greinargerð kærenda er m.a. vísað til þess að kærendur byggi beiðni sína um endurupptöku málsins á því að beita skuli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli þeirra þar sem annars vegar hafi þau sterkari tengsl við Ísland en við viðtökuríkið og hins vegar þar sem sérstakar aðstæður séu uppi í málinu. Þá kemur fram sú afstaða kærenda að málin hafi ekki verið nægjanlega upplýst enda hafi ekki legið fyrir upplýsingar um andlega heilsu A þegar ákvarðanir hafi verið teknar. Jafnframt telji kærendur að ekki hafi verið heimilt að beita ákvæðum 32. gr. a og b reglugerðar nr. 276/2018 við töku ákvarðana í málum þeirra vegna sjónarmiða um afturvirkni laga og auk þess telji þau að reglugerðina skorti lagastoð.

Í greinargerð kærenda kemur fram sú afstaða þeirra að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvarðanir hafi verið teknar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. október 2017 og hafi verið frá þeim tíma með mál til meðferðar hjá stjórnvöldum og þau dvelji enn hér á landi í samræmi við 33. gr. laga um útlendinga og bíði nú flutnings til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærendur hafi nú óskað eftir endurupptöku mála sinna í samræmi við 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en þar komi m.a. fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Kærendur byggja á því í greinargerð sinni að þau hafi ekki á nokkurn hátt haft áhrif á málsmeðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum þannig að lengd málsmeðferðarinnar gæti hafa tafist af þeirra völdum. Þá mótmæli kærendur harðlega afstöðu Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, um að þau hafi tafið málsmeðferð í skilningi áðurnefnds ákvæðis. Í lögskýringargögnum sé ekki að finna leiðbeiningar um hvenær tafir hafi orðið á afgreiðslu máls sem umsækjandi beri sjálfur ábyrgð á. Kærendur byggja á því að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að þau beri ábyrgð á töfum á málsmeðferðinni eða framkvæmd á flutningi þeirra til Frakklands. Þvert á móti bendi gögnin til þess að þau hafi virt alla fresti sem þeim hafi verið veittir, hvort sem þeir hafi verið veittir samkvæmt lögum eða heimildum stjórnvalda og vísa kærendur til 18. gr. stjórnsýslulaga og lögskýringargagna með ákvæðinu máli sínu til stuðnings. Að mati kærenda standi stjórnvöldum nær að gæta þess að málsmeðferð drægist ekki umfram þær dagsetningar og haga málsmeðferð sem og veitingu viðbótarfresta í samræmi við það. Kærendur telji áðurnefnda umsögn Útlendingastofnunar byggða á ómálefnalegum sjónarmiðum og kærunefnd sé óheimilt að styðjast við hana við mat á því hvort beita skuli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Jafnframt telji kærendur það vera brot á andmæla-, lögmætis- og jafnræðisreglum ásamt góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum styðjist kærunefnd við afstöðu Útlendingastofnunar um að tafir á málsmeðferðinni séu á þeirra ábyrgð í skilningi ákvæðisins. Meðan á málsmeðferð kærenda hafi staðið og þegar óskað hafi verið eftir fresti, hvort sem það hafi verið nýting á lögbundnum fresti eða viðbótarfresti sem hafi verið veittur af stjórnvöldum, verði hvergi séð að kærendum hafi verið gert viðvart, hvorki af hálfu Útlendingastofnunar né kærunefndar að slíkt kynni að hafa áhrif á rétt þeirra, dragist afgreiðsla máls umfram þann tíma sem áskilinn sé í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur telji það óhjákvæmilegt að skilja afstöðu Útlendingastofnunar öðruvísi en svo að nýting kærenda á réttindum sínum samkvæmt lögum leiði til réttindamissis samkvæmt öðrum lögum. Þá vísa kærendur máli sínu til stuðnings m.a. til úrskurða kærunefndar í máli nr. 143/2017 frá 9. mars 2017 og í máli nr. 72/2017 frá 14. febrúar 2017 þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi verið felldar úr gildi og stofnuninni gert að taka umsóknir aðila til efnismeðferðar. Að mati kærenda hafi í úrskurðunum ekki komið að sök við mat á því hvort beita skyldi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að umsækjendur nýttu sér alla lögbundna fresti, lögðu fram beiðni um frestun réttaráhrifa og tekin hafi verið til meðferðar umsókn um dvalarleyfi hér á landi.

Þá byggja kærendur einnig á því að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvarðanir hafi verið teknar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem K sé barnshafandi og hafi glímt við veikindi á meðgöngu. Kærendur hafa lagt fram læknisfræðileg gögn máli sínu til stuðnings.

Kærendur óska sérstaklega eftir því að ákvörðunum Útlendingastofnunar verði frestað vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar þeirra með vísan til 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kærendur óski eftir því að flutningi þeirra til Frakklands verði frestað þar til kærunefnd hafi tekið afstöðu til beiðni þeirra um endurupptöku máls. Til standi að flytja kærendur til Frakklands þann 2. nóvember nk. og telji kærendur því nauðsynlegt að óska sérstaklega eftir því að kærunefnd beini formlegu erindi til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra og óski eftir því að mál þeirra verði tekin úr framkvæmd.

Með tölvupósti, dags. 31. október 2018, lögðu kærendur jafnframt fram bréf frá sálfræðingi varðandi andlega heilsu A. Þar er m.a. lýst einkennum andlegrar vanlíðunar sem foreldrar A greindu sálfræðingi frá. Þá kemur fram það álit sálfræðings að barn á aldri við A sem sýni slík einkenni hafi mikla þörf fyrir öryggi, fyrirsjáanleika og rútínu. Líðan gæti versnað við óvissar aðstæður sem gæti haft áhrif á þroskaferli. Í athugasemdum frá kærendum sem fylgdu bréfi sálfræðings kemur fram sú afstaða þeirra að stjórnvöldum hafi borið að afla upplýsinga um andlega heilsu A áður en umsóknum þeirra var synjað um efnismeðferð. Ekki hafi verið lagt mat á aðstæður sem bíði kæranda A, sem barns í sérstaklega viðkvæmri stöðu sökum andlegrar heilsu, í Frakklandi. Kærunefndinni beri því að ógilda fyrri ákvörðun Útlendingastofnunar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum litið svo á að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til ákvörðun um synjun efnismeðferðar hefur verið framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis.

Þann 28. júní 2018 lagði M fram umsókn hjá Útlendingastofnun um dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Útlendingastofnun synjaði umsókn M með ákvörðun dags. 9. júlí 2018 þar sem M væri ekki undanþeginn þeirri skyldu að sækja um dvalarleyfi áður en hann kæmi til landsins. Kærði M ákvörðunina til kærunefndar þann 12. júlí 2018 og óskaði eftir því að réttaráhrifum ákvörðunar um synjun dvalarleyfis yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd. Þann 22. ágúst 2018 féllst kærunefnd á kröfu M. Þann 11. október 2018 staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júlí 2018, um að synja umsókn M um dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

Þann 23. október sl. óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra varðandi flutning á kærendum og hvort kærendur hefðu tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þann 24. október sl. barst svar frá Útlendingastofnun þar sem gerð er m.a. grein fyrir þeim tíma sem hafi liðið frá því að niðurstaða kærunefndar er birt fyrir kærendum þann 30. apríl sl. Í svari Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að M lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann 28. júní sl. en M hafi þá verið ljóst að til stæði að flytja fjölskylduna til Frakklands. Þá hafi kærunefnd frestað réttaráhrifum á meðan umsókn M um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá kærunefnd þann 22. ágúst sl. og hafi Útlendingastofnun verið gert að taka mál kærenda úr framkvæmd vegna þess. Að mati Útlendingastofnunar hafi málsmeðferð verið úr höndum stofnunarinnar og stoðdeildar og því alfarið á ábyrgð kæranda M, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þann 17. október sl. hafi borist tölvupóstur frá dómsmálaráðuneytinu um að synjun um dvalarleyfi hafi verið staðfest og hafi mál kærenda þá verið sett í framkvæmd hjá stoðdeildinni þann sama dag en frestur skv. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hafi þá verið liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. október 2017 og var umsókn þeirra synjað af Útlendingastofnun 25. janúar 2018. Í ákvörðuninni var jafnframt tekið fram að kærendum skyldi vísað frá landinu eins fljótt og verða mætti og í ákvörðunarorði kom fram að þau skyldu flutt til Frakklands eigi síðar en 12. júní 2018 nema réttaráhrif ákvörðunarinnar myndu frestast. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest af kærunefnd útlendingamála þann 24. apríl 2018. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála var synjað af kærunefnd þann 22. maí 2018.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn. Þótt fyrir liggi að kærandi M hafi, eftir að niðurstaða fékkst í umsókn hans um alþjóðlega vernd, sótt um dvalarleyfi á öðrum grundvelli haggaði sú umsókn ekki fyrir úrskurði kærunefndar þar sem staðfest var ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun kærenda. Í því sambandi áréttar kærunefnd sérstaklega að með bréfi kærunefndar, dags. 22. ágúst 2018, laut eingöngu að réttaráhrifum ákvörðunar um synjun á dvalarleyfi og var bundin við kærumeðferð þess máls. Kærunefnd telur að sú athöfn, sem lýst er í bréfi Útlendingastofnunar til kærunefndar, að mál kæranda hafi verið tekið úr framkvæmd vegna málsmeðferðar umsóknar kæranda um dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku hjá kærunefnd, geti ekki talist tafir sem hafi verið á ábyrgð umsækjanda í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að öðru leyti hefur kærunefnd farið yfir meðferð málsins, þ.m.t. upplýsingar frá Útlendingastofnun, og er það niðurstaða nefndarinnar að ekki hafi orðið slíkar tafir á afgreiðslu umsókna kærenda sem þau verði talin bera ábyrgð á, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki tilefni til að fjalla um aðrar málsástæður kærenda.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

 

The decision‘s of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s applications for international protection in Iceland.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta