Hoppa yfir valmynd
25. mars 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Lögskipuðum hæfnisnefndum fækkað um þrjár

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra - mynd
Frumvarp Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra um fækkun hæfnisnefnda varð að lögum frá Alþingi í gær. Með því verða lagðar niður þrjár fastar, lögbundnar hæfnisnefndir sem hafa haft það hlutverk að meta hæfni umsækjenda um stöður stjórnenda og millistjórnenda á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins. Með þessu er stefnt að aukinni skilvirkni og hagræðingu innan heilbrigðiskerfisins. 

Aukið sjálfstæði forstöðumanna heilbrigðisstofnana

Lagðar verða niður stöðunefnd lækna og stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar sem skipaðar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Sú fyrri metur faglega hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra lækninga og annarra stjórnenda lækninga á heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur. Í nefndinni eiga sæti þrír læknar sem tilnefndir eru af Læknafélags Íslands, Háskóla Íslands og landlæknis en ráðherra skipar nefndina. Sú síðari metur faglega hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra  hjúkrunar á heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur. Hún er einnig skipuð af ráðherra og eiga í henni sæti þrír hjúkrunarfræðingar tilnefndir af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóla Íslands og landlæknis. 

Eins og fram kemur í greinargerð með lagafrumvarpi um niðurlagningu stöðunefndanna er fáheyrt að fastar lögbundnar hæfnisnefndir meti hæfni umsækjenda um stöður millistjórnenda. Almennt sé það svo að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ráði forstöðumaður í störf hjá stofnun sem hann stýrir. Með niðurlagningu stöðunefndanna sé verið að samræma framkvæmd ráðninga millistjórnenda á málefnasviði heilbrigðisráðuneytisins við ákvæði þeirra laga og færa forstöðumönnum heilbrigðisstofnana aukið sjálfstæði í þessum efnumm. 

Sérákvæði um hæfnisnefnd í lögum um heilbrigðisþjónustu óþarft

Auk stöðunefndanna tveggja verður lögð niður nefnd sem skipuð er af heilbrigðisráðherra til fjögurra ára í senn og hefur það hlutverk að að meta hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana og til embættis landlæknis. Í greinargerð segir það skjóta skökku við að hafa fasta hæfnisnefnd um þetta verkefni, enda hafi með breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna árið 2016 verið bætt við ákvæði þess efnis að hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn geti falið sérstakri hæfnisnefnd þriggja einstaklinga að meta hæfni umsækjenda hverju sinni. Þar með hafi verið komið á almennu fyrirkomulagi hæfnisnefnda við skipun í embætti forstöðumanna ríkisstofnana og sérstakt ákvæði þess efnis í lögum um heilbrigðisþjónustu því óþarft. 

Ferill málsins á Alþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta