Hoppa yfir valmynd
29. maí 2015 Innviðaráðuneytið

Stórfelldar umbætur í húsnæðismálum landsmanna

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir

Uppbygging 2.300 félagslegra leiguíbúða, breytingar á fjármögnun félagslega húsnæðiskerfisins með stuðningi ríkis og sveitarfélaga, lækkun byggingarkostnaðar, stuðningur við fyrstu íbúðakaup fólks og húsnæðisbætur í þágu efnaminni leigjenda. Þetta eru meginþættir stórfelldra umbóta í húsnæðismálum sem ráðist verður í samkvæmt ákvörðun stjórnvalda í samvinnu við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál var kynnt í dag.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að með þessum aðgerðum eigi að nást þau markmið sem hún hefur lagt mesta áherslu á í húsnæðismálum, þ.e. að skapa raunhæfa valkosti fyrir fólk, óháð efnahag og tryggja þannig öllum heimilum landsins öruggt húsnæði. Það sýnir sig að víðtæk sátt ríkir um þessar áherslur.

Fjölgun hagkvæmra og ódýrra leiguíbúða

Lagður verður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt um 30% af stofnkostnaði. Slíkt framlag ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum. Framlagið verður bundið við lögaðila sem hyggjast byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði án hagnaðarsjónarmiða og hafa það langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað fólki undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verði skorður fyrir því að hægt verði að taka íbúðir út úr félagslega leigukerfinu en verði slíkt heimilt verða sett inn ákvæði um ráðstöfun söluhagnaðar.

Bygging 2.300 félagslegra leiguíbúða á fjórum árum

Stefnt er að því að byggja  2.300 íbúðir á árunum 2016-2019, að hámarki 600 íbúðir á ári.  Að því loknu verður metin þörf fyrir frekari uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins til framtíðar. Áhersla verður á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum. Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

Aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingakostnaðar

Stuðlað verður að sem hagkvæmustum aðferðum við húsnæðisbyggingar til að lækka kostnað, m.a. með endurskoðun byggingarreglugerðar og skipulagslaga. Gert er ráð fyrir nýjum flokki mannvirkja sem verður undanskilinn ákvæðum um altæka hönnun. Eins verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðar endurskoðuð með lækkun byggingarkostnaðar að leiðarljósi.

Stuðningur við almennan leigumarkað

Húsnæðisbætur verða hækkaðar á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumark verða hækkuð og bætur munu taka mið af fjölda heimilismanna í samræmi við tillögur sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Skattlagningu tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.  

Stuðningur við kaup á fyrstu íbúð

Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði styðji einkum við fjölskyldur undir meðaltekjum. Sett verða sérlög um fasteignalán til neytenda og lánveitendum veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lántöku.

Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa fram í samráðshópnum. Miðað er við að frumvarp um húsnæðisbætur verði lagt fyrir vorþing 2015 og að önnur frumvörp sem nauðsynleg eru til að ná settum markmiðum verði lögð fram á haustþingi 2015 og afgreidd fyrir áramót.

Unnið verður áfram að breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána. Í því efni verður tekið mið af tillögum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, nýrri veðlánatilskipun ESB og gögnum um rekstrarforsendur nýrra húsnæðislánafélaga og stöðu Íbúðalánasjóðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta