Hoppa yfir valmynd
8. maí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 54/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 54/2012

 

Sérkostnaður: Ofnar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 10. október 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, mótt. 29. október 2012, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 2. nóvember 2012, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. maí 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B. Ágreiningur er um kostnaðarskiptingu vegna ofnaskipta.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri einungis að greiða fyrir kostnað af þeim ofnaskiptum sem sannanlega fóru fram í séreignarhluta hans, þ.e. kostnaði af tveimur ofnum sem skipt var um en ekki þremur, eins og gagnaðili krefji álitsbeiðanda um.

Í álitsbeiðni kemur fram að húsfélagið hafi ákveðið að ráðast í þær framkvæmdir að skipta um alla ofna í húsinu á kostnað eigenda. Hafi verið óskað eftir því að þeir eigendur sem væru búnir að skipta um ofna létu vita af því. Álitsbeiðandi hafði skipt um einn ofn af þremur í íbúð sinni og látið vita af því. Samkvæmt upplýsingum frá gagnaðila hafi kostnaði vegna ofnaskiptanna hins vegar verið skipt milli íbúða eftir fermetrafjölda. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir því við gagnaðila að greiða einungis 2/3 hluta reikningsins vegna ofnaskiptanna, en reikningurinn hljóði upp á skipti á þremur ofnum. Álitsbeiðandi segir það ekki geta talist sanngjarnt að aðrir eigendur hússins hafi notið góðs af því að nokkrir eigendur hafi verið búnir að skipta um ofna. 

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að umrætt mál sé að mestu leyti byggt á misskilningi. Í fyrsta lagi hafi beiðni um að íbúar myndu skrá þá ofna sem nýlega hefði verið skipt um fyrst og fremst verið til viðmiðunar ef sá fjöldi væri einhver að ráði. Við þessa könnun hafi komið í ljós að þónokkrir íbúðareigendur hefðu sett upp handklæðaofna á baðherbergjum, en tiltölulega fáir venjulegir ofnar væru nýir og þá flestir þeirra greiddir af hússjóði, enda sameign.

Þegar sérstakt tæki sé tengt við sameiginlegt kerfi eins og hitakerfi hússins hljóti það að vera á kostnað eiganda íbúðar og þar með hans séreign, að því gefnu hafi hússtjórn ekki séð ástæðu til að taka tillit til þessara tækja (handklæðaofna) í greiðsluhlutfalli eigenda. Enn fremur megi benda á að verðlagning ofna í tilboðum sé miðuð við „wattatölu“ og eins litlir ofnar og um ræði og séu á baðherbergjum íbúðanna telji mjög lítið. Samkvæmt áætlun pípulagningameistarans myndi umræddur ofn, uppkominn með lokum og vinnu, svara til um það bil 20.000 kr. Frádráttur sem hugsanlega yrði á tilboði sé því óverulegur af þessum ofnum en ef einhver þá leggist hann inn á framkvæmdasjóð.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að hann telji greinargerð gagnaðila algjörlega styðja það umkvörtunarefni sem til úrlausnar sé. Varðandi ástæðu þess að íbúar hefðu verið beðnir að skrá þá ofna sem nýlega hefði verið skipt um þá séu útskýringar formannsins aðeins fyrirsláttur, enda hafi komið fram í tilboði að verð sé gefið upp miðað við nákvæman ofnafjölda enda hljóti tilgangurinn með listanum, eins og formaður gagnaðila hafi viðurkennt fyrir álitsbeiðanda, hafa verið sá að færri ofnar þýddi lægra tilboð. Það hvernig ofnar hafi orðið fyrir valinu hjá umræddum íbúðareigendum sé málinu algjörlega óviðkomandi.

Álitsbeiðandi taki fyllilega undir þau sjónarmið formannsins að umrædd tæki séu á kostnað eigenda íbúðar, enda hafi það verið svo í tilfelli álitsbeiðanda. Þess vegna telji álitsbeiðandi að hann þurfi eingöngu að greiða fyrir þá tvo ofna sem skipt hafi verið um í íbúðinni, en ekki fyrir þriðja ofninn sem álitsbeiðandi hafi skipt um áður og greitt fyrir úr eigin vasa.

Hljóði áætlunin vegna þriðja ofnsins upp á 20.000 kr. fallist álitsbeiðandi á lækkun sem því nemi. Frádrátturinn sé ef til vill óverulegur fyrir framkvæmdasjóð, og vissulega ef hann leggist á alla aðra eigendur til jafns, en um muni fyrir álitsbeiðanda, sérstaklega þar sem hann hafi áður lagt út fyrir skiptum á einum af ofnunum í íbúð sinni.

Ekki hafi verið ákveðið á húsfundi hvernig farið yrði með íbúðirnar sem þegar höfðu skipt um ofna, enda hafi álitsbeiðandi talið það sjálfsagt að reikningur myndi lækka til samræmis við fjölda ofna.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 50. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 skal eigandi sjá um og kosta allt viðhald og allan rekstur á séreign sinni, þar með talið á búnaði, tækjum og lögnum sem henni tilheyra, sbr. 4. og 5. gr. Telst allur slíkur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, vera sérkostnaður. Samkvæmt 4. tölulið 5. gr. fjöleignarhúsalaga, sbr. 4. gr. sömu laga, falla tæki, búnaður og þess háttar inni í séreignarhluta, þótt tengd séu sameiginlegu kerfi eða lögnum undir séreign fjöleignarhúss. Ofnar í íbúðum teljast því til séreignar og ber eiganda viðkomandi eignar að sjá um og kosta viðhald þeirra. Með vísan til þess bar álitsbeiðanda einungis að greiða kostnað við skipti á tveimur ofnum í íbúð sinni. Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri einungis að greiða kostnað vegna skipta á tveimur ofnum en ekki þremur.   

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri einungis að greiða kostnað af þeim ofnaskiptum sem sannanlega fóru fram í séreignarhluta hans, þ.e. kostnaði af tveimur ofnum.

 

Reykjavík, 8. maí 2013

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Karl Axelsson

Ásmundur Ásmundsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta