Mál nr. 55/2012
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í málinu nr. 55/2012
Endurgreiðsla tryggingar.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 16. október 2012, A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.
Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Greinargerð gagnaðila hefur ekki borist.
Álitsbeiðni var lögð fyrir nefndina og málið tekið til úrlausnar á fundi hennar 12. júní 2013.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Með leigusamningi, dags. 31. ágúst 2011, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila. Um var að ræða ótímabundinn leigusamning frá 1. september 2011. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda og annars meðleigjanda hans tryggingarfé að fjárhæð 240.000 kr.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi, ásamt C og D, tekið á leigu íbúð í eigu annars gagnaðila. Álitsbeiðandi auk annarra leigutaka hafi greitt 600.000 kr. í tryggingu sem lögð var inn á reikning umboðsmanns gagnaðila. Áður en leigutíma hafi lokið hafi eignin verið seld nauðungaruppboði.
Nú neiti gagnaðili að greiða til baka tryggingarfé þrátt fyrir að hann hafi hvorki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni né vanefnda á leigusamningi af hálfu álitsbeiðanda eða annarra leigjenda.
Á leigutíma hafi 360.000 kr. af tryggingarfénu verið notaðar til að greiða leigu og því standi eftir 240.000 kr. sem álitsbeiðandi krefjist nú endurgreiðslu á.
Kærunefnd barst auk þess yfirlýsing þess efnis að tryggingarféð skuli skiptast jafnt milli álitsbeiðanda og D.
III. Forsendur
Ljóst er að álitsbeiðandi, auk C og D, tók á leigu húsnæði í eigu gagnaðila þann 1. september 2011. Leigusamningur aðila var ótímabundinn og uppsagnarfrestur sex mánuðir. Einnig liggur fyrir að umrædd fasteign var seld á nauðungaruppboði þann 21. maí 2012.
Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, er leigusala óheimilt að ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Þó sé leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok leigutímans. Að leigutíma loknum skal leigusali segja til þess svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það. Leigusala er aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðisins, sbr. 1. mgr. 64. gr. húsaleigulaga. Af gögnum málsins virðist ljóst að samkomulag hafi komist á með álitsbeiðanda, auk annarra leigjenda, og gagnaðila að leigutíma lyki þann 1. september 2012. Munu álitsbeindi og meðleigjendur hafa rýmt íbúðina áður en uppboðsbeiðandi fékk vörslur hennar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að álitsbeiðandi skuldi gagnaðila leigu fyrir húsnæðið. Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 240.000 kr.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda og annars meðleigjanda hans tryggingarfé að fjárhæð 240.000 kr.
Reykjavík, 12. júní 2013
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Ásmundur Ásmundsson