Hoppa yfir valmynd
6. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 174/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 174/2024

Föstudaginn 6. september 2024

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 11. apríl 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 5. apríl 2024, varðandi endurreikning á húsnæðisbótum kæranda fyrir árið 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á árinu 2022. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. júní 2023, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2022 þar sem fram kom að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 635.935 kr., vegna eignastöðu heimilismanna. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 8. febrúar 2024 í máli nr. 465/2023 var sú ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. apríl 2024, var kæranda tilkynnt að málið hefði verið tekið fyrir að nýju og að nýr útreikningur leiddi til sömu niðurstöðu, þ.e. að eignir skertu húsnæðisbætur að fullu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. apríl 2024. Með bréfi, dags. 17. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 10. maí 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. maí 2024. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 31. maí 2024 og voru þær kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. júní 2024. Athugasemdir bárust frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 11. júní 2024 og voru kynntar umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júní 2024. Frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 4. júlí 2024 og voru kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2024, var óskað eftir afstöðu kæranda til tiltekins atriðis í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Svar barst frá umboðsmanni kæranda 12. júlí 2024 og var það kynnt stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júlí 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærð sé sú ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem virðist felast í bréfi, dags. 5. apríl 2024, að nóg sé að reikna að nýju og komast að sömu niðurstöðu óháð ítarlegum lagaforsendum og leiðbeiningum til stofnunarinnar í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 465/2023. Kærandi telji augljóst að það kalli að minnsta kosti á frekari meðferð af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, rökstuðnings stofnunarinnar og andmælaréttar kæranda ef stofnunin haldi fast við kröfu sína þvert á niðurstöðu, forsendur og leiðbeiningar úrskurðarnefndarinnar. 

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er vísað til þess að af hinni kærðu ákvörðun megi ráða að stofnunin hafi ekki tekið málið til nýrrar meðferðar um þau atriði er felist í tilgreindum forsendum í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 465/2023. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi aðeins ákveðið einhliða að endurreikna og komast í kyrrþey að sömu niðurstöðu. Þrátt fyrir tilraunir kæranda, sbr. t.d. bréf frá 8. mars 2024, hafi engin málsmeðferð átt sér stað af hálfu stofnunarinnar, svo sem rannsókn máls eða gæsla andmælaréttar um umdeild atvik og matskennd atriði.

Með greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé þess freistað, andstætt öllum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar, að endurflytja fyrir úrskurðarnefndinni fyrra kærumál kæranda sem stofnunin hafi tapað fyrir nefndinni, æðra stjórnvaldi sem hafi gefið stofnuninni sem lægra stjórnvaldi bindandi úrlausn. Löglaust sé að endurtaka fyrri röksemdir og útreikninga og kalla það nýja málsmeðferð. Þeim atriðum í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem áður hafi komið fram hafi verið svarað af hálfu kæranda í fyrra máli og úrskurðarnefndin hafi þegar leyst úr þeim. Ekkert nýtt sé í greinargerð stofnunarinnar en slíkt hefði þá átt að koma fram í fyrra máli. Að öðrum kosti gætu stofnanir sem töpuðu málum hjá æðri stjórnvöldum einfaldlega endurtekið sig og endurflutt málin aftur og aftur.

Í svari kæranda, dags. 12. júlí 2024, kemur fram að ef umrædd málsástæða eða lagaröksemd (hér eftir röksemd) hefði komið fram í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. maí 2024, hefði henni væntanlega verið svarað. Annars vegar hefði röksemdinni væntanlega verið svarað formlega með vísan til útilokunarreglu, um að slík röksemd væri of seint fram komin og hefði átt að koma fram í fyrra máli nr. 465/2023 þar sem leyst hefði verið úr málsatvikum og röksemdum með bindandi hætti. Aðeins væri nú færi á því að koma að málsatvikum samkvæmt nýrri meðferð máls eins og í úrskurðarorði 8. febrúar 2024 hafi verið lagt fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að láta fara fram. Það hafi ekki verið gert eins og oft hafi komið fram. Hins vegar hefði þeirri röksemd verið svarað efnislega eins og nú verði gert.

Ekki verði séð að sú röksemd komi fram í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að eiginmaður kæranda hafi „sannanlega verið heimilismaður í skilningi 3. gr. laganna í lok ársins 2022, óháð því hvernig aðstæðum hafi verið háttað áður en kærandi gekk í hjúskap.“ Hvað sem líði þeirri umdeilanlegu umorðun úrskurðarnefndar velferðarmála á röksemd stofnunarinnar telji kærandi slíka röksemd (hvort sem hún sé eins og kærandi lesi greinargerð stofnunarinnar eða úrskurðarnefndin lesi hana) ekki rúmast innan þeirrar bindandi niðurstöðu sem úrskurðarnefndin hafi lagt fyrir stofnunina í máli nr. 465/2023, þ.e. að meta málsatvik að nýju (að gættum andmælarétti), ekki endurflytja málið nú á kærustigi. Telji úrskurðarnefndin engu að síður miðað við meginreglur stjórnsýsluréttar og fordæmi umboðsmanns Alþingis að slík röksemd komist nú að í endurteknu málskoti þessu sé brugðist við röksemdinni.

Kærandi telji tilvísaða greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, með eða án tilvitnaðrar umorðunar úrskurðarnefndar velferðarmála, fela í sér þá afstöðu að óumdeild staða eiginmanns kæranda sem heimilismanns að C í árslok 2022 leiði til afturvirkni fyrir allt árið 2022 en taki ekki aðeins til þeirra rúmu fimm mánaða eins og þau hjónin hafi haldið fram með vísan til hjúskapar þeirra frá 24. júlí 2022. Þessu sé auðsvarað. Annars vegar feli meginreglur ríkisréttar, þar með talið bæði almenns stjórnsýsluréttar og þess sérstaka stjórnsýsluréttar sem málið falli undir, í sér áratuga óumdeilda reglu samkvæmt fræðikenningum og fordæmisgefandi úrlausnum úrskurðaraðila á borð við ráðuneyti og sjálfstæðar úrskurðarnefndir, úrlausnaraðila á borð við umboðsmann Alþingis og dómstóla að slík íþyngjandi afturvirkni þurfi að styðjast við skýra lagaheimild. Slíkt sé ekki til staðar í máli kæranda, hvorki í tilvísaðri (2. mgr.) 18. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur (þar sem aðeins sé vísað til viðmiðunartímasetningar fyrir mat á eignastöðu) né í 3. tölul. 3. gr. sömu laga (með skilgreiningu hugtaksins heimilismaður) en þar sé jafnframt í 2. tölul. áður umrædd regla um tvöfalt skilyrði, búsetu og lögheimili. Hins vegar hafi röksemdafærsla gegn slíkri íþyngjandi afturvirkni verið meginefni ítarlegs fyrra málskots þeirra hjóna í máli nr. 465/2023. Kærandi vísi til þess þar sem meðal annars hafi verið vísað í fordæmi Hæstaréttar. Eins og fram hafi komið sé sjálfsagt að senda það skjal eða önnur aftur.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að ágreiningur málsins snúi að ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2022 vegna eignastöðu heimilismanna. Í lokauppgjöri vegna ársins 2022 komi fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 635.935 kr. Lokauppgjörið hafi tekið mið af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri í lok árs 2022 þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir.

Í máli nr. 465/2023 hafi verið kærður sá hluti ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er varðaði innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir hjúskaparstofnun, þ.e. 361.879 kr. vegna tímabilsins 1. janúar 2022 til 31. júlí 2022.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, sé fjallað um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í 1. mgr. komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 8.000.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% af þeirri fjárhæð. Í 2. mgr. komi svo fram að miða skuli við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Í 3. mgr. komi fram að með eignum samkvæmt lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt, að frádregnum skuldum. Samanlagðar eignir allra heimilismanna byrji að skerða bótarétt við 8.000.000 kr. og skerðist að fullu við 12.800.000 kr. Það liggi fyrir að eignir kæranda og annarra heimilismanna í lok árs 2022 hafi verið umfram 12.800.000 kr., eða 20.480.373 kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Þar sem stofnuninni beri samkvæmt lögum að miða við eignir í lok þess almanaksárs sem húsnæðisbætur hafi staðið yfir hafi eignastaða í árslok verið lögð til grundvallar í lokauppgjörinu en ekki vísað til eignastöðu innan ársins.

Í 25. gr. laga um húsnæðisbætur sé kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segi í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. komi fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2 mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segi í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum hafi borið á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Kærandi hafi þegið húsnæðisbætur á árinu 2022 og við lokauppgjör ársins 2022 hafi heildareignir kæranda og heimilismanna reynst vera 20.480.373 kr. Af ákvæði 18. gr. laga um húsnæðisbætur sé ljóst að taka skuli mið af eignastöðu í lok þess almanaksárs sem greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Eignastaða kæranda og heimilismanna í lok ársins 2022 hafi leitt til bótaskerðingar og ofgreiðslu að fjárhæð 635.935 kr. Kæranda beri að endurgreiða fjárhæð í samræmi við ákvæði 26. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2022 sé fjölskyldumerking 3+0+2, en fjölskyldumerking segi til um fjölskyldustöðu í Þjóðskrá 31. des. 2022. Fyrsta tákntalan segi til um hjúskaparstöðu, þ.e.: 3 hjón, önnur tákntalan segi til um fjölda barna yngri en 7 ára og þriðja um fjölda barna á aldrinum 7-17 ára á framfæri framteljanda. Fram hafi komið hjá kæranda að hún hafi gengið í hjónaband með eiginmanni sínum hinn 24. júlí 2022. Varðandi framtal hjóna þá skili þau sameiginlegu framtali og upplýsingar um fjármagnstekjur, eignir og skuldir séu á sameiginlegum síðum. Á giftingarári geti hjón hins vegar valið um að telja fram og skattleggjast saman allt árið eða að telja fram tekjur sínar í sitt hvoru lagi fram að giftingardegi en sem hjón frá þeim degi til ársloka. Sé seinni kosturinn valinn þurfi að óska eftir sérsköttun fram að stofnun hjúskapar en hins vegar séu eignatekjur, eignir og skuldir taldar fram sameiginlega. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali hafi kærandi og eiginmaður hennar verið samsköttuð vegna tekjuársins 2022.

Fram hafi komið að eiginmaður kæranda hafi verið með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu á árinu 2022. Að sögn kæranda hafi eiginmaðurinn hins vegar ekki verið búsettur í leiguhúsnæðinu fyrir hjúskaparstofnun þrátt fyrir að vera skráður þar með lögheimili. Þannig hafi lögheimilisskráning eiginmannsins í leiguhúsnæðinu á tímabilinu 15. október 2020 til hjúskaparstofnunar aðeins verið til málamynda. Skýringar kæranda fyrir hinni meintu röngu lögheimilisskráningu eiginmannsins séu meðal annars að það hafi verið óhentugt fyrir hann að hafa lögheimili í þjónustuíbúð fyrir aldraða hjá foreldrum sínum, óheimilt hafi verið að skrá lögheimili í frístundarhúsi og að sameiginleg lögheimilisskráning kæranda og eiginmannsins hafi verið forsenda fyrir því að þau fengju aðildarkort í nafni [...] eiginmannsins hjá Costco vöruhúsi.

Að sögn kæranda hafi eiginmaður hennar búið í frístundahúsi (sumarbústað) að D frá árinu 2019 og þar til þau hafi gengið í hjónaband. Óheimilt sé að skrá lögheimili í aðra eign en þá sem skilgreind sé sem íbúðarhúsnæði, sbr. 3. tölul. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili. Í 1. mgr. 3. gr. laganna megi þó finna undantekningar frá 2. gr. og þær séu tæmandi og eigi ekki við um frístundabyggð í D.

Til hliðsjónar megi vísa til 11. tölul. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem hugtakið frístundabyggð sé skilgreint á eftirfarandi hátt: „Frístundabyggð: Svæði fyrir frístundahús, þ.e. byggð sem ekki er ætluð til fastrar búsetu.“ Í 36. tölul. 1.2.1 greinar byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé hugtakið frístundahús skilgreint sem hús utan þéttbýlis sem sé ætlað til tímabundinnar dvalar. Með breytingarlögum nr. 149/2006 hafi verið tiltekið í 3. mgr. 1. gr. þágildandi lögheimilislaga nr. 21/1990 að dvöl í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð teldist ekki ígildi fastrar búsetu nema búseta væri þar heimil samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Með því hafi verið tekið af skarið um að skráning lögheimilis í slíku húsnæði væri óheimil og hún sé það enn í dag í gildandi lögum.

Í málinu sé deilt um hvort kæranda beri að endurgreiða húsnæðisbætur sem hún hafi fengið frá 1. janúar 2022 og fram að hjúskaparstofnun. Að sögn kæranda hafi eiginmaður hennar ekki verið búsettur í leiguhúsnæðinu á umræddu tímabili, þrátt fyrir að vera þar með skráð lögheimili.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 465/2023 fari nefndin yfir skilgreiningu og inntak hugtakanna búseta og heimilismenn samkvæmt 3. gr. laga um húsnæðisbætur. Þá sé vísað til athugasemda við orðskýringar á hugtökunum búseta og heimilismenn í 3. gr. í frumvarpi til laga um húsnæðisbætur.

„Með búsetu er átt við að einstaklingur búi sannanlega í viðkomandi íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990, um lögheimili, með síðari breytingum. Þurfa þannig tvö skilyrði að vera uppfyllt til að um búsetu sé að ræða í skilningi frumvarpsins.“

„Með heimilismönnum er átt við alla þá einstaklinga sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði í skilningi 2. tölul., sbr. einnig 10. gr. frumvarpsins, án tillits til innbyrðis tengsla þeirra á milli eða aldurs þeirra. Er því ekki gert að skilyrði að sérstök fjölskyldu- eða hjúskapartengsl séu á milli heimilismanna heldur miðað við að þeir séu sannanlega búsettir í umræddu íbúðarhúsnæði og eigi þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili eða, eftir atvikum, hafi þar tímabundið aðsetur í skilningi 10. gr. frumvarpsins.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi tekið mál kæranda til nýrrar meðferðar. Líkt og áður sé sameiginlegt skattframtal kæranda og eiginmanns hennar lagt til grundvallar við framkvæmd lokauppgjörs húsnæðisbóta ársins 2022. Af ákvæði 18. gr. laga um húsnæðisbætur telji stofnunin ljóst að taka skuli mið af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, í lok ársins sem greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir og því sé miðað við eignastöðu 31. desember 2022.

Eiginmaður kæranda hafi haft lögheimili í leiguhúsnæðinu frá 15. október 2020. Við lokauppgjör ársins 2022 hafi það því gefið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fullt tilefni til að ætla að hann hafi í raun verið búsettur í umræddu leiguhúsnæði allt árið 2022 en ekki flutt inn við hjúskaparstofnun. Ljóst sé að samfelld lögheimilisskráning hans í leiguhúsnæðinu hafi varað í langan tíma.

Það sé mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að eiginmaður kæranda hafi sannanlega verið búsettur í leiguhúsnæðinu, þ.e. húsnæðið hafi í raun verið heimili hans á því tímabili sem ágreiningur málsins snúi að. Við matið sé meðal annars horft til samfelldrar lögheimilsskráningar frá október 2020, að dvöl í frístundarhúsi geti ekki talist ígildi fastrar búsetu og til sameiginlegrar skattlagningar með kæranda allt árið 2022. Þá telji stofnunin að skýringar kæranda fyrir því að lögheimilisskráning fyrir hjúskaparstofnun hafi aðeins verið til málamynda ekki sýna með óyggjandi hætti að hann hafi ekki verið búsettur í leiguhúsnæðinu fyrr en við hjúskaparstofnun. Þá geti fréttapunktur í Morgunblaðinu frá ágúst 2019 ekki verið nægjanleg staðfesting á búsetu á árinu 2022.

Með hliðsjón af framangreindu telji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að eiginmaðurinn hafi í raun verið búsettur í leiguhúsnæðinu á árinu 2022 í skilningi laganna og teljist því heimilismaður. Af ákvæði 18. gr. laga um húsnæðisbætur sé ljóst að taka skuli mið af eignastöðu í lok þess almanaksárs sem greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Samanlögð eignarstaða kæranda og heimilismanna í lok árs 2022 hafi leitt til bótaskerðingar samkvæmt lokauppgjöri, dags. 8. júní 2023, og kæranda beri að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd í samræmi við ákvæði 26. gr. laganna.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest. 

Í athugasemdum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 11. júní 2024, er vísað til þess að óumdeilt sé að eiginmaður kæranda hafi verið með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu. Þá telji stofnunin sig hafa lagt mat á hvort eiginmaður kæranda hafi í raun búið í hinu leigða húsnæði á umræddu tímabili. Því sé ekki ástæða til að koma með frekari athugasemdir við andsvar lögmanns/eiginmanns kæranda í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 5. apríl 2024, varðandi endurreikning á húsnæðisbótum kæranda fyrir árið 2022. Kæranda var í bréfi stofnunarinnar, dags. 8. júní 2023, tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur, að fjárhæð 635.935 kr., vegna eignastöðu heimilismanna.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Samkvæmt 3. tölul. 3. gr. eru heimilismenn allir þeir sem búsettir eru í hinu leigða íbúðarhúsnæði en með búsetu er átt við þegar einstaklingur býr í hinu leigða íbúðarhúsnæði og á þar skráð lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/2016.

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr., nú 8.000.000 kr., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð, eða 12.800.000 kr. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þó skuli fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem geti orðið andlag réttar til vaxtabóta, ekki teljast til eigna samkvæmt 1. mgr. hafi fasteignin eða búseturétturinn ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta hafi staðið á almanaksárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki.

Ákvæði 18. gr. laga nr. 75/2016 var breytt í núverandi mynd í meðförum þingsins en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að miða ætti við eignir á sama tímabili innan hvers almanaksárs og greiðslur húsnæðisbóta stæðu yfir. Í nefndaráliti velferðarnefndar Alþingis segir svo um þessa breytingartillögu:

„Í 2. mgr. 18. gr. segir að miða skuli við eignir á sama tímabili innan hvers almanaksárs og greiðslur húsnæðisbóta standa yfir, sbr. þó 3. mgr. 20. gr. Skuldir og eignir eru taldar fram miðað við stöðu í árslok, sbr. fyrri málslið 78. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Því gæti reynst erfitt að staðreyna eignir á tilteknu tímabili innan árs. Nefndin leggur því til að miðað skuli við eignir í árslok. Nefndin leggur þó til undantekningu sem miðar að því að auðvelda leigjendum að kaupa íbúðarhúsnæði eða búseturétt. Af svipuðum ástæðum leggur nefndin til að vísanir til eigna innan árs í 1. og 3. mgr. 20. gr. falli brott.“

Í 25. gr. laganna er kveðið á um endurreikning á húsnæðisbótum. Þar segir í 1. mgr. að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í 2. mgr. kemur fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga. Í 3. mgr. kemur fram að leiði endurreikningur samkvæmt 1. og 2. mgr. til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta skuli leiðrétta húsnæðisbæturnar samkvæmt 26. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að hafi umsækjandi fengið hærri húsnæðisbætur en honum bar á umræddu tímabili beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2022 miðað við tvo heimilismenn, en um var að ræða syni hennar undir 18 ára aldri. Kærandi gekk í hjónaband 24. júlí 2022 en engar breytingar voru gerðar á fjölda heimilismanna. Við lokauppgjör ársins 2022 voru tekjur og eignir eiginmanns kæranda teknar með í endurreikninginn en ljóst er að hann var heimilismaður í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga nr. 75/2016 í árslok 2022, þ.e. bæði með lögheimili í hinu leigða íbúðarhúsnæði og að hans sögn búsettur þar á þeim tímapunkti. Heildareignir heimilismanna á árinu 2022 reyndust vera 20.480.373 kr. Sú fjárhæð var að mestu tilkomin vegna fasteignar í eigu eiginmanns kæranda en fasteignamat eignarinnar var 17.900.000 kr. í árslok 2022.

Í ákvæði 18. gr. laga nr. 75/2016 kemur skýrt fram að taka skal mið af eignastöðu allra heimilismanna, 18 ára og eldri, í lok þess almanaksárs sem greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Eina undanþágan frá þeirri reglu er ef fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög var ekki í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta stóð á almanaksárinu. Sú undanþága á ekki við í tilviki kæranda og því leiddi eignastaða í lok ársins 2022 til fullrar bótaskerðingar og ofgreiðslu að fjárhæð 635.935 kr. Kæranda ber í samræmi við ákvæði 26. gr. laga nr. 75/2016 að endurgreiða þá fjárhæð.   

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun í málinu staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 5. apríl 2024, í máli A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta