Frekari breytingar lagðar til á lagagrein um íbúakosningar sveitarfélaga
Frumvarp um breytingar á kosningalögum er nú til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Í frumvarpinu eru lagðar til frekari breytingar á 133. gr. sveitarstjórnarlaga sem fjallar um íbúakosningar sveitarfélaga en regluverk um þær var einfaldað með lagabreytingu á síðasta ári. Allir hafa tækifæri til að veita stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis umsögn um frumvarpið en frestur er til 10. maí nk.
Alþingi samþykkti í fyrra lög um breytingu á ákvæðum sveitarstjórnarlaga frá 2011 um íbúakosningar sveitarfélaga, nr. 83/2022. Markmiðið með breytingunum var að einfalda regluverk íbúakosninga sveitarfélaga og minnka umfang slíkra kosninga án þess að vega að sjónarmiðum sem gilda um öryggi og vandaða framkvæmd opinberra kosninga.
Nýlega staðfesti ráðuneytið reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga (nr. 323/2023), sem sett var á grundvelli laganna. Í nýju reglugerðinni er gert ráð fyrir að framkvæmd íbúakosninga verði talsvert umfangsminni en framkvæmd kosninga skv. kosningalögum. Vinna við gerð reglugerðarinnar leiddi þó í ljós að nauðsynlegt reyndist að gera frekari breytingar á sveitarstjórnarlögum til að hægt væri að ná þeim markmiðum sem stefnt var að með lögum nr. 83/2022.
Innviðaráðuneytið hefur því lagt til að í umræddu frumvarpi dómsmálaráðherra verði 133. gr. sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um íbúakosningar sveitarfélaga, breytt enn frekar. Þær tillögur sem helst eru lagðar til eru eftirfarandi:
- Fallið verði frá því að íbúakosningar sveitarfélaga fari skv. reglum sem sveitarfélög setja sér heldur skulu þær fara fram á grundvelli reglugerðar um íbúakosningar.
- Fjallað verði um hver hafa kosningarétt við íbúakosningar í sveitarstjórnarlögum í stað kosningalaga.
- Kosningaréttur við íbúakosningar sveitarfélaga verði almennt sá sami og í kosningalögum að undanskildum námsmönnum sem flutt hafa lögheimili sitt til Norðurlanda, sbr. 2. mgr. 4. gr. kosningalaga. Sveitarfélög geta einnig ákveðið að miða kosningaaldur í íbúakosningum við 16 ára aldur.
- Í íbúakosningum um einstök málefni sveitarfélags sem fram fer að frumkvæði íbúa og ekki er bindandi er sveitarfélögum heimilt að ákveða að kosningarréttur sé bundinn ákveðnum aldri, að kosningarréttur sé bundinn við lögheimili í tilteknum hluta sveitarfélags, og/eða að ekki sé gerð krafa um ríkisfang eða búsetutíma.
- Reglur um kjörskrá fari skv. reglugerð um íbúakosningar í stað kosningalaga.
- Styttur er tími frá því sveitarfélag auglýsir hvenær íbúakosning fer fram þangað til atkvæðagreiðsla getur hafist úr 36 dögum í 20 daga.
Ef framangreindar tillögur að breytingum á sveitarstjórnarlögum verða samþykktar er gert ráð fyrir að ný reglugerð um íbúakosningar verði sett næsta haust þar sem dregið verði frekar úr umfangi íbúakosninga sveitarfélaga.
Þar sem ekki gafst tími til að kynna framangreindar tillögur innviðaráðuneytisins í samráðsgátt stjórnvalda eru sveitarfélög og aðrir hagaðilar sérstaklega hvattir til að kynna sér frumvarpið á vef Alþingis og veita umsögn um það.
- Frumvarp um breytingar á kosningalögum
- Reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga nr. 323/2023
- Frétt innviðaráðuneytisins um íbúakosningar sveitarfélaga (4. apríl 2023)