Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 74/2012

Miðvikudaginn 30. janúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 74/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 11. júlí 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2012, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er einstæð móðir sjö ára stúlku. Kærandi flutti að heiman þegar hún var 17 ára en faðir hennar lést þegar hún var sex ára og móðir hennar glímdi við alkóhólisma en er nú án áfengis. Kærandi glímdi við alkóhólisma en hefur ekki neytt áfengis síðan hún var ólétt af dóttur sinni árið 2004. Kærandi er menntaður snyrtifræðingur og á eitt fag eftir til að ljúka sveinsprófi. Barnsfaðir kæranda hefur verið í neyslu af og til og því ekki ávallt nýtt umgengnisrétt sinn. Kærandi fær ekki frekari stuðning frá barnsföður. Kærandi er ný flutt aftur til landsins eftir að hafa starfað í B í níu mánuði og er nú húsnæðislaus og dvelur ásamt dóttur sinni hjá bróður sínum. Kærandi var í 100% starfi í B en eftir jólaleyfi hér á landi var henni tilkynnt að vegna samdráttar væri starfshlutfall hennar minnkað niður í 20%. Kærandi gat ekki framfleytt sér og dóttur sinni í 20% starfi og flutti því aftur til Íslands þann 23. febrúar 2012. Kærandi er í virkri atvinnuleit.

 

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 27. febrúar 2012. Kærandi fékk undanþágu frá þriggja ára búsetuskilyrði reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Aðstæður hennar voru metnar til sjö stiga en samkvæmt reglunum þarf að ná 11 stigum til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Umsókn kæranda var því synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 7. mars 2012. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 13. maí 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. apríl 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur, sbr. matsblað með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. apríl 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 11. júlí 2012. Kæran var framsend úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 10. ágúst 2012. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 4. september 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. september 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg með tölvupósti þann 23. janúar 2013 og bárust þau með bréfi, dags. 31. janúar s.á.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í kæru rekur kærandi aðstæður sínar frá því hún var barn. Líkt og áður greinir hefur kærandi búið í Reykjavík frá árinu 1996 að undanskildu tímabilinu maí 2011 til febrúar 2012 en þá bjó hún í B. Kærandi telur forsendur synjunar Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur vera óljósar. Hún kveðst hafa fengið húsaleigubætur árið 2006 og bendir á að félagslegar aðstæður hennar hafi ekki breyst síðan þá. Hún reyni að búa dóttur sinni öruggt heimili í hverfi þar sem barnið geti sótt skóla sem hún þekki og líki vel. Kærandi hafi staðið sig vel í vinnu og til marks um það hafi hún fengið vinnu á sama stað eftir heimkomu frá B þrátt fyrir mikið atvinnuleysi og mikla ásókn í störf í hennar geira. Þrátt fyrir það séu launin þó lág. Kærandi bendir á að samkvæmt reiknivél fyrir neysluviðmið á vef velferðarráðuneytisins sé grunnviðmið framfærslu fyrir einstætt foreldri með eitt barn án húsnæðiskostnaðar 146.000 kr. og ljóst sé að hún nái því ekki enda séu útborguð laun hennar 154.000 kr. Kærandi bendir á að hún geti ekki framfleytt sér og dóttur sinni þrátt fyrir að vera í fullri vinnu. Þá hafi hún einnig ákveðið að fara í nám haustið 2013 svo hún geti í framtíðinni hlotið betur launað starf. Kærandi óskar eftir því að þessar breyttu forsendur séu teknar með í reikninginn við endurskoðun úrskurðarnefndarinnar á hinni kærðu ákvörðun. Kærandi telur að ekki sé eðlilegt að byggja synjun um sérstakar húsaleigubætur á tekjum hennar fyrir árið 2011 þar sem um sé að ræða tekjur í C krónum sem notaðar hafi verið í C efnahagsumhverfi.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík gildi reglur sem samþykktar hafi verið í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004 með síðari breytingum. Í 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík komi fram að þær séu ætlaðar þeim fjölskyldum sem ekki séu á annan hátt færar um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna komi fram skilyrði fyrir því að umsókn öðlist gildi. Fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðist umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðunum þar sem meðal annars sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 7. gr. komi fram að þegar fyrir liggi að umsækjandi fullnægi skilyrðum 4. gr. reglnanna, skilyrðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og fái 11 stig þegar um sé að ræða einstakling með eitt barn, sé heimilt að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur.

 

Vísað er til þess að samkvæmt mati starfsmanna þjónustumiðstöðvar hafi kærandi fengið samtals sjö stig við útreikning á matsblaðinu. Sumir þættir séu ekki háðir mati líkt og stig vegna tekna en aðrir þættir séu háðir mati líkt og húsnæðisaðstaða og félagslegur vandi umsækjanda. Kærandi hafi fengið þrjú stig vegna húsnæðisaðstöðu en það sé hámarkið. Hún hafi fengið tvö stig þar sem eitt barn eigi lögheimili hjá henni. Hún hafi verið metin með nokkurn félagslegan vanda sem samsvari tveimur stigum. Hún hafi ekki hlotið nein stig vegna tekna þar sem árstekjur hennar séu hærri en 2.632.662 kr. Önnur atriði eigi ekki við í máli kæranda, svo sem staða umsækjanda, staða maka, sérstakar aðstæður barna og félagsleg endurhæfing. Ekki sé heimilt að veita undanþágu frá viðmiðum um stig vegna tekna. Tekjur kæranda í B síðastliðið ár hafi verið uppreiknaðar í íslenskar krónur og hafi tekjur kæranda á síðasta ári því numið 2.939.922 kr. Samkvæmt matsviðmiðunum fái umsækjandi ekkert stig fari árstekjur hans yfir 2.632.662 kr. Með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafi velferðarráði borið að synja kæranda um tvö stig til viðbótar við þau sjö stig sem henni hafi verið reiknaðar samkvæmt mati starfsmanna. Félagslegar aðstæður kæranda voru metnar til tveggja stiga þar sem talið var að hún ætti í nokkrum félagslegum vanda. Til nokkurs félagslegs vanda teljist til dæmis miklir fjárhagsörðugleikar, langvarandi atvinnuleysi og lítið stuðningsnet. Til að vera metinn til fjögurra stiga í félagslegum vanda þurfi að vera um langvarandi og mikinn félagslegan vanda. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi, meðferðarmál eða barnaverndarmál. Það hafi verið mat velferðarráðs að meta bæri félagslegar aðstæður kæranda til tveggja stiga. Með hliðsjón af framangreindu hafi velferðarráð staðfest niðurstöðu starfsmanna þjónustumiðstöðvar um stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur. Telja verði að framangreind ákvörðun velferðarráðs hafi ekki brotið gegn reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur né lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík samþykktar í borgarráði 24. febrúar 2004, síðustu breytingar samþykktar í borgarráði 19. febrúar 2012.

 

Kærandi er einstæð móðir með eitt barn og sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn hennar var synjað á grundvelli stigagjafar sem studd var við matsviðmið sem fylgja með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Í 7. gr. reglnanna er kveðið á um skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla svo honum verði boðnar sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsækjandi þarf að uppfylla skilyrði 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík en þar eru tilgreind skilyrði í a–e-liðum sem uppfylla þarf svo umsókn verði metin gild. Þá þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, um greiðslu húsaleigubóta. Enn fremur þurfa aðstæður umsækjanda að vera metnar til ákveðið margra stiga, sbr. 7. gr. reglnanna. Í b-lið 7. gr. kemur fram að aðstæður einstaklings með eitt barn þurfa að vera metnar til 11 stiga eða meira. Aðstæður umsækjenda um sérstakar húsaleigubætur eru metnar til stiga samkvæmt stigatöflu sem er að finna í matsviðmiðum sem fylgja reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Veitt eru stig fyrir stöðu umsækjanda, stöðu maka, tekjur á ársgrundvelli, börn, húsnæðisaðstöðu, sérstakar aðstæður barna, félagslegan vanda umsækjanda/fjölskyldu og félagslega endurhæfingu.

 

Umsókn kæranda var synjað þar sem aðstæður hennar voru einungis metnar til sjö stiga. Kærandi fékk þrjú stig vegna húsnæðisaðstöðu þar sem vart væri mögulegt að bíða eftir húsnæði. Kærandi hlaut tvö stig vegna barna þar sem hún á eitt barn sem á lögheimili hjá henni. Að lokum hlaut kærandi tvö stig vegna félagslegs vanda þar sem hún var talin eiga við nokkurn félagslegan vanda að stríða. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi verið ósátt við stigagjöfina annars vegar vegna tekna og hins vegar vegna félagslegs vanda.

 

Samkvæmt matsviðmiðum sem fylgja reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík eru veitt tvö stig ef árstekjur eru undir 2.106.131 kr., eitt stig ef árstekjur eru á bilinu 2.106.131 kr. til 2.632.662 kr. og núll stig ef árstekjur eru hærri en 2.632.662 kr. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur kæranda árið 2011 að hluta til í C krónum, þ.e. 110.097,5 C krónur. Við mat Reykjavíkurborgar á umsókn hennar voru tekjurnar umreiknaðar í íslenskar krónur og miðað við gengi C krónunnar þann 28. febrúar 2012 sem var þá 22,3. Var því miðað við að tekjur kæranda í B samsvöruðu 2.455.174 íslenskum krónum. Þá hafði kærandi einnig tekjur í íslenskum krónum, þ.e. 484.748 kr. Var því miðað við að árstekjur hennar væru 2.939.922 kr. Kærandi mótmælir því að miðað sé við tekjur hennar í C krónum. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt matsviðmiðum Reykjavíkurborgar eru veitt stig fyrir árstekjur og er almennt miðað við tekjur ársins áður en umsókn er lögð fram. Kærandi lagði fram umsókn sína þann 27. febrúar 2012 og var því miðað við árstekjur hennar árið 2011. Óumdeilt er að hluti tekna kæranda á árinu 2011 er í C krónum en fjárhæðir í matsviðmiðunum eru í íslenskum krónum. Ekki verður séð að Reykjavíkurborg hafi verið fært að gefa stig fyrir tekjur samkvæmt matsviðmiðunum með öðrum hætti en að reikna virði tekna kæranda yfir í íslenskar krónur.

 

Samkvæmt framangreindum matsviðmiðum eru veitt fjögur stig ef félagslegur vandi umsækjanda er mjög mikill, tvö stig ef félagslegur vandi er nokkur og núll stig ef það á ekki við. Hvorki er í reglum Reykjavíkurborgar né matsviðmiðunum kveðið á um hvernig ákvarðað er hvort félagslegur vandi teljist nokkur eða mjög mikill. Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur þó fram að til nokkurs félagslegs vanda teljist til dæmis miklir fjárhagsörðugleikar, langvarandi atvinnuleysi og lítið stuðningsnet. Til að vera metinn til fjögurra stiga í félagslegum vanda þurfi að vera um langvarandi og mikinn félagslegan vanda. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi, meðferðarmál eða barnaverndarmál.

 

Kærandi hlaut tvö stig vegna félagslegs vanda. Aðstæðum hennar er lýst í greinargerð þjónustumiðstöðvar, dags. 14. mars 2012, og þar er tekið fram að félagsleg staða hennar sé metin betri í dag en hún var árið 2004 þegar hún hafi fyrst fengið greiddar sérstakar húsaleigubætur. Segir þar einnig að búsetuteymisfundur hafi talið að staða kæranda félli ekki lengur að fjórum stigum vegna félagslegs vanda þó staðan væri bersýnilega erfið í dag. Í athugasemdum vegna kærunnar er einnig að finna lýsingu á aðstæðum kæranda og þeim viðmiðum sem mótast hafa í framkvæmd um hvað teljist til nokkurs félagslegs vanda og mjög mikils félagslegs vanda. Úrskurðarnefndin tekur fram að af gögnum málsins verður ekki ráðið hvaða atriði í aðstæðum kæranda urðu til þess að félagslegur vandi hennar var metinn sem nokkur en ekki mjög mikill. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að annmarki sé á hinni kærðu ákvörðun. Hins vegar skal á það bent að jafnvel þótt félagslegur vandi kæranda hefði verið metinn mjög mikill hefði hún eingöngu hlotið níu stig en b-liður 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar gerir kröfu um 11 stig eða meira svo heimilt sé að bjóða einstaklingi með eitt barn sérstakar húsaleigubætur. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að framangreindur annmarki hafi ekki áhrif á niðurstöðu málsins. Í ljósi þess að kærandi uppfyllir ekki skilyrði b-liðar 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sem gerir kröfu um að aðstæður einstaklings með eitt barn hafi verið metnar til 11 stiga verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2012, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta