Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 87/2012

Miðvikudaginn 30. janúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 87/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 29. október 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 15. ágúst 2012, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er ekkja og ellilífeyrisþegi en var áður 75% öryrki. Kærandi býr í öryggis- og þjónustuíbúð að B í Reykjavík og leigir íbúðina af Hjúkrunarheimilinu Eir. Íbúðin er 72,2 m2 og leigan 160.500 kr. á mánuði. Þá greiðir kærandi 21.700 kr. í þjónustugjald á mánuði. Þjónustugjaldið fylgir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og er innheimt til að mæta kostnaði, meðal annars vegna hita og rafmagns í sameiginlegu rými, hita í íbúð, snjómoksturs og ræstingu á sameign. Auk þessa er húseigendatrygging og öryggisvöktun allan sólarhringinn innifalin í þjónustugjaldinu. Samkvæmt upplýsingum frá forstöðumanni eignaumsýslu Hjúkrunarheimilisins Eirar þurfa leigutakar ekki að uppfylla nein skilyrði til að fá leigða íbúð en vegna hönnunar íbúðanna og þjónustunnar sem þar er veitt sé það fyrst og fremst fólk á aldrinum 60–100 ára sem sækist eftir íbúðunum. Leigan sé ekki niðurgreidd af Hjúkrunarheimilinu og leiguverð miðist því við kostnað af rekstri íbúðanna.

 

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 27. júní 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. júní 2012, með þeim rökum að íbúð kæranda teldist ekki vera leiguíbúð á almennum markaði samkvæmt skilgreiningu 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík en þar kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu á almennum markaði í félagslegu leiguhúsnæði og þjónustuíbúðum í eigum Félagsbústaða hf., umfram almennar húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með ódagsettu bréfi. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 14. ágúst 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun þjónustumiðstöðvar um sérstakar húsaleigubætur á grundvelli 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15. ágúst 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 29. október 2012. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 28. nóvember 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. nóvember 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi gerir kröfu um að hún njóti húsaleigubóta frá Reykjavíkurborg líkt og þeir sem búi í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélagsins, vegna leigugreiðslna sem hún hafi skuldbundið sig til að greiða samkvæmt leigusamningi um þjónustuíbúð hjá Eir. Kærandi kveðst vera einstæðingur og hafi verið ekkja frá árinu 1988 en þá lést maður hennar úr krabbameini. Hún hafi talið tímabært að komast í varanlegt húsnæði þar sem hún nyti öryggis og þjónustu sem í boði væri fyrir aldraða. Kærandi sé meðvituð um að erfitt sé að komast í slíkt húsnæði hjá Reykjavíkurborg. Hún hafi því talið að hið almenna félagslega húsnæði á vegum sveitarfélagsins myndi ekki henta henni. Kærandi kveðst vera með fötlun, eiga erfitt með gang og þjást af verkjum á ýmsum tímum sólarhringsins. Þá eigi hún tvö uppkomin börn sem séu bæði öryrkjar og þurfi á hjálp að halda við að komast í gegnum lífið. Sonur hennar þjáist af sykursýki og gríðarlegum taugaskemmdum og tilheyrandi verkjum í útlimum. Hann geri lítið sem ekkert hjálparlaust. Dóttir hennar þjáist af afleiðingum bílslyss, sé einstæð móðir og eigi erfitt með að sinna sínum daglegu þörfum. Því sé afar mikilvægt fyrir hana að geta átt og rekið bíl til að geta aðstoðað börnin sín. Kærandi telur að hún eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum á grundvelli ákvæðis 76. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, þar sem fram komi að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík hafi fyrst verið samþykktar í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 en síðustu breytingar samþykktar í velferðarráði 12. janúar 2012 og í borgarráði 19. janúar 2012. Sérstakar húsaleigubætur geti verið boðnar þeim sem leigi húsnæði á almennum markaði, séu í félagslegum leiguíbúðum eða í þjónustuíbúðum í eigu Félagsbústaða, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglnanna, að því gefnu að önnur skilyrði reglnanna séu einnig uppfyllt. Velferðarráð hafi litið svo á að húsnæði sem sé í eigu félags- og líknarsamtaka og aðeins ætlað til leigu af ákveðnum hópi teljist ekki leiguhúsnæði á almennum markaði. Ekki sé unnt að líta svo á að slíkt húsnæði sé á almennum leigumarkaði. Að lokum er tekið fram að ekki hvíli lagaskylda á Reykjavíkurborg til að greiða sérstakar húsaleigubætur. Þær séu veittar sem fjárstuðningur frá Reykjavíkurborg umfram almennar húsaleigubætur. Þá hafi Reykjavíkurborg sett sér reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur þar sem kveðið sé á um þau skilyrði sem nauðsynlegt sé að uppfylla svo unnt sé að njóta sérstakra húsaleigubóta. Að framansögðu virtu megi telja það ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi ekki brotið gegn ákvæðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur né laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík samþykktar í borgarráði 24. febrúar 2004, síðustu breytingar samþykktar í borgarráði 19. febrúar 2012.

 

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg beri að veita kæranda sérstakar húsaleigubætur. Kærandi hefur óskað eftir að hún fái greiddar sérstakar húsaleigubætur til samræmis við reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kærandi leigir öryggis- og þjónustuíbúð af Hjúkrunarheimilinu Eir sem er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var þann 31. ágúst 1990 af Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Samtökum blindra og blindravina, Sjómannadeginum í Reykjavík og Hafnarfirði, Sjálfseignarstofnuninni Skjóli, VR og Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma. Í 3. mgr. 3. gr. fyrrgreindra reglna kemur fram að sérstakar húsaleigubætur séu fjárstuðningur sem ætlaður er til greiðslu húsaleigu á almennum markaði eða í félagslegu leiguhúsnæði og þjónustuíbúðum og öðru húsnæði í eigu eða á forræði Félagsbústaða hf., umfram almennar húsaleigubætur. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 3. gr. reglnanna þar sem íbúð hennar taldist ekki vera leiguíbúð á almennum markaði. Í máli þessu hefur komið fram að af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið litið svo á að húsnæði í eigu félags- og líknarsamtaka sem aðeins sé ætlað til leigu af ákveðnum hópi teljist ekki leiguhúsnæði á almennum markaði. Sveitarfélagið telur að ekki sé hægt að líta svo á að slíkt húsnæði sé á almennum leigumarkaði enda standi almenningi ekki til boða að leigja umrætt húsnæði. Þá sé leiga á slíku húsnæði í sumum tilfellum töluvert hagkvæmari og ódýrari en leiga á almennum markaði.

 

Úrskurðarnefndin bendir á að sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar leigjendum sem búa við mjög erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. Stuðningurinn er almennt tengdur leigjandanum sjálfum í formi sérstakra bóta sem taka mið af persónulegum aðstæðum í stað þess að tengjast íbúðinni. Reykjavíkurborg hefur á grundvelli heimildar 4. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur ákveðið að greiða sérstakar húsaleigubætur og sett sér reglur þar að lútandi. Í 7. gr. reglnanna er kveðið á um skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla svo honum verði boðnar sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Kemur þar fram að umsækjandi þarf að uppfylla skilyrði a–e-liða 4. gr. svo umsókn verði metin gild. Þá þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, um greiðslu húsaleigubóta. Enn fremur þurfa aðstæður umsækjanda að vera metnar til ákveðið margra stiga, sbr. 7. gr. reglnanna.

 

Líkt og áður hefur komið fram var umsókn kæranda synjað þar sem hún var ekki talin vera á almennum leigumarkaði. Líkt og áður segir er í 7. gr. reglnanna kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf svo umsækjanda verði boðnar sérstakar húsaleigubætur. Þar er ekki gert að skilyrði að umsækjandi leigi á almennum markaði. Í ákvæði 3. mgr. 3. gr. er einungis að finna skilgreiningu á hugtakinu sérstakar húsaleigubætur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun um synjun á umsókn kæranda verði ekki byggð á því að hið leigða húsnæði falli ekki að almennri skilgreiningu 3. mgr. 3. gr. reglnanna um sérstakar húsaleigubætur. Þá verður ekki talið málefnalegt að byggja synjun á umsókn kæranda á grundvelli fullyrðingar sveitarfélagsins að hið leigða húsnæði standi ekki öllum íbúum sveitarfélagsins til boða og að leiga á húsnæðinu sé mögulega hagkvæmari en annars staðar. Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem rennir stoðum undir þessa fullyrðingu sveitarfélagsins. Það er því álit úrskurðarnefndarinnar að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt og andstætt þeim reglum sem um það gilda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar hjá velferðarráði Reykjavíkurborgar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 15. ágúst 2012, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta