Nr. 326/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 16. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 326/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18030028
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 19. mars 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar á ný.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. maí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. nóvember 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 12. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. mars 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 3. apríl 2018. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. júní 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þá bárust frekari gögn frá kæranda þann 26. og 29. júní 2018.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hætti í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá hafi kærandi ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna athafna eða ætlaðra athafna hans.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Varðandi málsatvik í máli kæranda vísar kærandi í greinargerð sinni til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar dags. 11. desember 2017, endurrita af viðtölum við kæranda og annarra gagna. Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni […]. Kærandi kveðst hafa átt í ástarsambandi við konu sem tilheyri […]. Um mitt árið 2016, sex mánuðum áður en kærandi hafi yfirgefið […], hafi kærandi og kærasta hans ætlað að ganga í hjónaband. Kærandi hafi gengið á fund foreldra konunnar í þeim tilgangi að biðja um hönd hennar en fjölskyldan hafi neitað beiðninni. Ástæðan hafi verið sú að foreldrar konunnar hafi ekki viljað að hún giftist […]. Þá hafi kærandi og konan ákveðið að gifta sig borgaralega án þess að biðja um leyfi fjölskyldu konunnar. Þann […] hafi þau farið í dómshúsið til að láta gefa sig saman. Faðir konunnar, […], hafi komist að áformum þeirra og hafi hann mætt í dómshúsið til að stöðva brúðkaupið. […]. Í kjölfarið hafi kærandi þurft að dvelja á spítala og hafi kærandi lagt fram komunótur frá spítalanum í […] frásögn sinni til stuðnings. Þá hafi faðir kæranda farið til lögreglunnar í kjölfar árásarinnar til að gefa svonefnda […] skýrslu. Í ljós hafi komið að faðir konunnar hafi látið gera […] skýrslu hjá lögreglunni vegna athafna kæranda. Faðir konunnar hafi mikil tengsl og áhrif einkum vegna vinnu hans fyrir stjórnmálaflokkinn […]. Faðir konunnar sé hvorki meðlimur í flokknum né tilheyri hann því þjóðarbroti sem mest tengist flokknum ([…] þjóðarbrotið), en hann sé náinn valdamiklum aðilum innan flokksins vegna starfa sinna fyrir hann. Kærandi kveður föður konunnar geta beitt tengslum sínum og áhrifum innan flokksins gegn sér. Vitað sé til þess að faðir konunnar hafi tekið fjölda fólks af lífi. Kærandi hafi reynt að berjast gegn ráðstöfunum föður konunnar með aðstoð föður síns en án árangurs. Að lokum hafi kærandi farið að ráðum föður síns og flúið […]. Hafi kærandi fyrst flúið til Dubai þar sem hann hafi unnið í nokkra mánuði þar til heimild hans til dvalar þar í landi hafi runnið út. Hafi hann þá flúið til Íslands.
Kærandi óttist föður konunnar þar sem hann vilji myrða kæranda í þeim tilgangi að verja heiður fjölskyldu sinnar. Þar sem kærandi og konan séu […] jafnframt sem þau hafi ætlað að giftast í óþökk fjölskyldu hennar hafi þau kallað skömm yfir fjölskyldur sínar í augum fjölskyldu konunnar. Kærandi kveður heiðursmorð algeng í […]. Vegna tengsla föður konunnar við áhrifamenn innan […] stjórnmálaflokksins telji kærandi sig hvergi öruggan í heimaríki. Þá kveður kærandi að eftir komu hans til Íslands hafi fjölskylda hans tjáð honum að hans hafi verið leitað hjá þeim og hafi þau ráðlagt honum að snúa ekki aftur heim. Fjölskylda hans hafi nú flúið heimabæ kæranda vegna ótta við föður konunnar.
Í greinargerð kæranda hjá Útlendingastofnun er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda og vísar kærandi í þá umfjöllun í greinargerð sinni til kærunefndar. Í fyrri greinargerð kæranda er ítarlega fjallað um heiðursglæpi í […] og jafnframt er fjallað um stjórnmálaflokkinn […]. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2016 en þar komi fram að þrátt fyrir að […] konum sé samkvæmt lögum frjálst að giftast þeim sem þær óski þá verði þeim oft fyrir vikið útskúfað úr samfélaginu auk þess sem þær eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa, þ.m.t. heiðursmorða. Meðal helstu ástæðna heiðursglæpa sé þegar kona ákveður að giftast án samþykkis fjölskyldu sinnar. Þrátt fyrir að sett hafi verið lög […] sem hafi verið ætlað að koma í veg fyrir heiðursmorð sé talið að þolendur slíkra glæpa séu enn fjölmargir. Fjöldi heiðursmorða sé ekki tilkynntur og því sé brotamönnum almennt ekki refsað. Í skýrslu frá […] komi fram að meðal ástæðna fyrir því að lögin virki ekki sé að ofbeldismennirnir njóti verndar innan samfélagsins sem m.a. teygi sig til lögreglu, dómstóla og annarra aðila réttarvörslukerfisins. Einnig hafi ofbeldismennirnir möguleika á að semja sig undan refsingum við fjölskyldur þolendanna auk þess að fjölskyldurnar geti gefið þeim upp sakir. Kærandi vísar í grein samtakanna […] þar sem komi fram að um hundrað heiðursmorð hafi átt sér stað á árinu […]. Í ársskýrslu […] komi fram að […] konur og stúlkur og […] karlmenn og drengir hafi verið myrt á grundvelli „heiðurs“ það árið. Þá séu mörg mál ranglega skráð sem sjálfsmorð eða náttúrulegur dauðdagi og séu tölurnar því án efa hærri. Varðandi stjórnmálaflokkinn […] kemur fram í greinargerð kæranda að flokkurinn hafi starfað í […] frá árinu […] og samanstandi að meginstefnu til af einstaklingum […], sem eigi það sameiginlegt að vera […] sem hafi flutt frá […] til […] við stofnun ríkisins eftir […] og afkomendum þeirra. Flokkurinn hafi hlotið […] atkvæða í síðustu þingkosningum og hafi hann […] þingmenn. Andstæðingar […] flokksins hafi haldið því fram að flokkurinn hafi í seinni tíð hneigst í auknum mæli til beitingar ofbeldis. Fjölmiðlar hafi á undanförnum árum fjallað um handtökur á leigumorðingjum sem fullyrt sé að hafi starfað fyrir flokkinn og áhrifamikla menn innan hans.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi. Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Hafi þessi hópur einstaklinga ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna umrædds athæfis. Kærandi telji að líta beri svo á að þessir einstaklingar séu sérstakur þjóðfélagshópur í […] samkvæmt skilgreiningu b-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Af úrvinnslu Útlendingastofnunar í máli kæranda í hinni kærðu ákvörðun virðist sem stofnunin hafi horft með öllu fram hjá því að kærandi telji sig vera þolanda heiðursglæps. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvorki fjallað um almenna hættu á heiðursglæpum í […] né getu og vilja yfirvalda til að veita vernd í slíkum málum. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða beittur ofbeldi af hálfu áhrifamikils einstaklings og öðrum sem honum tengjast verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi óttist jafnframt um líf sitt og telji að yfirvöld í […] hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Enn fremur beri heimildir með sér að almennt öryggisástand í […] sé mjög ótryggt og að yfirvöld beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum borgaranna. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis eigi hann á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem yfirvöld veiti honum ekki nægilega vernd gegn.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Hvað varðar flutning innanlands bendir kærandi á að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annars staðar í heimaríki. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum, enda dugi þá ekki flutningur innanlands. Um sé að ræða einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum kæranda og aðstæðum í landinu. Vísar kærandi til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem komi fram að flutningur innanlands komi ekki til greina ef einstaklingurinn er ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá vísar kærandi til athugasemda með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Kærandi kveður gagnslaust að flýja innan heimaríkis undan ofsóknum fjölskyldu sem telji kæranda hafa svert heiður sinn. Með vísan til heimilda um heiðursglæpi í […] verði að telja að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita kæranda vernd og þar af leiðandi sé hann ekki öruggur á nýjum stað í heimaríki.
Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Krafa kæranda sé byggð á fjölda annmarka á meðferð Útlendingastofnunar á máli kæranda. Í fyrsta lagi gerir kærandi alvarlega athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi kveður að frásögn hans hafi verið skýr og staðföst, kærandi hafi lagt fram gögn frásögn sinni til stuðnings jafnframt sem hann hafi nafngreint þá einstaklinga sem hann óttist. Þá komi frásögn kæranda heim og saman við fyrirliggjandi heimildir um ástand mannréttindamála í […]. Í því sambandi vísar kærandi m.a. í skýrslu Flóttamannastofnunar þar sem komi fram að trúverðugleiki skuli ekki dreginn í efa nema um sé að ræða ósamræmi í kjarna frásagnar umsækjanda. Einnig komi fram að gefa skuli umsækjanda um alþjóðlega vernd möguleika á að gera athugasemdir við það sem stjórnvöld noti sem grundvöll fyrir óhagstæðu trúverðugleikamati. Kærandi telji að trúverðugleikamat stofnunarinnar í máli hans sé í andstöðu við framangreind sjónarmið. Þá sé framkvæmdin jafnframt í andstöðu við tilmæli í Handbók Flóttamannastofnunar þar sem komi fram að nauðsyn geti verið á öðru viðtali til þess að skýra mögulegt ósamræmi og mótsagnir í frásögn. Kærandi hafi ekki verið boðaður til annars viðtals í þessum tilgangi. Í ljósi framangreinds hafi Útlendingastofnun gerst brotleg við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi gerir kærandi alvarlega athugasemd við að Útlendingastofnun skuli með öllu láta hjá líða að taka tillit til þess að kærandi óttist heiðursglæpi í […] sem og að fjalla um fyrirliggjandi heimildir hvað það varðar. Um sé að ræða alvarlegan annmarka á málsmeðferð þar sem annað hvort sé um að ræða yfirsjón á grundvallarmálsástæðum sem og grundvallarheimildum um ástand mannréttindamála í landinu sem myndi fela í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eða algeran skort á lögbundnum rökstuðningi, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Í þriðja lagi telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Í nýlegri ákvörðun Útlendingastofnunar fjallar stofnunin ítarlega um að þolendur og mögulegir þolendur heiðursglæpa geti talist til sérstaks þjóðfélagshóps í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og í ákvörðuninni framkvæmdi stofnunin mat á því hvort ótti umsækjandans við ofsóknir vegna þess teldist ástæðuríkur. Eins og áður hefur komið fram hafi Útlendingastofnun með öllu látið hjá líða að fjalla um mál kæranda með slíkum hætti sem og að framkvæma slíkt mat. Brot á jafnræðisreglu teljist efnisannmarki sem leiði yfirleitt til þess að ákvörðun teljist ógildanleg.
Með tölvupósti þann 27. júní 2018 óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum sem varpa ljósi á stöðu karlmanna sem þolenda heiðursglæpa í […]. Með svari þann 29. júní 2018 barst kærunefndinni viðbótarupplýsingar vegna máls kæranda. Í svarinu kemur fram að kærandi sé ósammála tölvupósti kærunefndar um að fyrirliggjandi heimildir um heiðursglæpi gegn karlmönnum í […] megi teljast gamlar. Þá vekur kærandi athygli á samtökin […], sem starfi sem óháð mannréttindasamtök og safni upplýsingum um tíðni heiðursglæpa í […], hafi birt þessar upplýsingar á heimasíðu sinni. Samkvæmt samantektum samtakanna voru karlkyns þolendur heiðursmorða árið […] alls […] talsins, árið […] voru þeir […], árið […] voru þeir […] og það sem af er árinu […] séu þeir […]. Um sé að ræða algerar lágmarkstölur og séu þolendur að öllum líkindum fleiri. Af þessu má sjá að á þessu tímabili fjölgar tilvikunum ár frá ári og fari hlutfall karlkynsþolenda af heildarfjölda tilvika jafnframt hækkandi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað fæðingarvottorði. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari […]. Þann 26. júní 2018 skilaði kærandi inn fjölskylduvottorði dags. 24. júlí 2007. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé […] ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.
Landaupplýsingar
[…]
Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að […] löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í […], en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri […]. […] sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. […] veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í […]. Þá hafi lögreglan í […] sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvartanir vegna þess að […] hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.
Þrátt fyrir að […] lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í […] þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins […] hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákærir í slíkum málum. […] hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann á meðan rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun […] að láta einstakling lausan.
Í lok árs […] hafi hæstiréttur […] boðað til fundar þar sem hann hafi tilkynnt um rannsókn á ásökunum um spillingu sem hafi snúið að […] og fjölskyldu hans. Þá hafi […] verið falið að rannsaka og ákæra […] og fjölskyldumeðlimi hans. Málið hafi verið […] og sé það enn í gangi.
Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að í […] sé starfandi umboðsmaður […] sem hafi það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varða borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í […] menningu. Heiðursmorð sé morð á ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. […] , venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin menningunni. Í þessum tilvikum sé algengast að konan sé myrt fyrst og því nái maðurinn yfirleitt að flýja en fjölskylda konunnar og maðurinn sem hafi vanvirt heiður fjölskyldu hennar geti komið sér saman um að láta […] þeirra útkljá deiluna og ákveða örlög mannsins. Til þess að fjölskylda konunnar geti endurheimt heiður sinn án þess að maðurinn láti lífið verði maðurinn að bæta fjölskyldunni skaðann annað hvort með því að greiða fjölskyldunni eða gefa þeim aðra konu í staðinn. Í skýrslu frá […] kemur fram að […] þolenda heiðurstengds ofbeldis séu karlmenn. Þessar upplýsingar fá nokkurn stuðning frá því sem fram kemur á vefsíðu sem mannréttindastofnun […] heldur utan um.
[…] stjórnvöld hafa á síðustu árum unnið að því að bæta lagaumhverfi varðandi heiðursglæpi. Breytingarnar hafi einkum verið ætlað að bæta réttarstöðu kvenna m.a. með því að koma á fót skilvirku kerfi sem verndi þær og aðstoði verði þær fyrir ofbeldi. Þá var lögum breytt árið […] til að koma í veg fyrir að gerendur gætu komist undan refsingu með því að fá fyrirgefningu frá fjölskyldumeðlimum fórnarlamba heiðursglæpa. Refsingar vegna heiðursglæpa voru jafnframt þyngdar á árinu […]. Þá lýsti […] því yfir á árinu […] að heiðursmorð séu ekki í samræmi við […] hugmyndafræði og […] lög. Samkvæmt tölfræði mannréttindastofnunar […] fækkaði heiðursmorðum um […] á milli áranna […] og […] og af tölfræði fyrstu 7 mánuði ársins […] má ætla að heiðursmorðum muni á þessu ári fækka verulega frá árinu […]. Má því ætla að samstilltar aðgerðir stjórnvalda, mannréttindasamtaka og áhrifavalda innan [...] trúarbragða hafi leitt til þess að verulegur árangur hafi náðst í baráttunni gegn heiðursmorðum.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að […] stjórnmálaflokkurinn í […] hafi upphaflega verið stofnaður til að standa vörð um réttindi […] einstaklinga sem hafi átt undir högg að sækja síðastliðin ár. Eftir að formaður flokksins hafi árið […] . Af gögnum sé ljóst að meðlimir […] eigi á hættu að verða fyrir áreiti og ofsóknum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi kveðst óttast heiðurstengt ofbeldi í heimaríki af hálfu föður stúlku sem hann hafi ætlað að giftast í desember 2016 í […]. Greindi kærandi frá þeim hótunum og því ofbeldi sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu föðurins. Kærandi kveður lögreglu í heimaríki hans ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd. Faðir kæranda hafi reynt að leita til lögreglu honum til stuðnings en hafi verið neitað þar sem að faðir stúlkunnar hafi verið búinn að […] til höfuðs kæranda. Til stuðnings frásögn sinni lagði kærandi fram […] dags. 15. desember 2016 ásamt þýðingu. Þýðandinn gerir athugasemd við skjalið þar sem það vanti undirritun, stimpil eða […] lögreglumannsins sem skrifi […]. Í skýrslunni sjálfri komi fram að kærandi hafa brotist inn á heimili stúlkunnar og á hann að hafa rænt stúlkunni og misnotað hana. Þá hefur kærandi jafnframt skilað inn […].
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í viðtali hjá kærunefnd, þann 7. júní 2018, var kærandi spurður hvernig hann og fyrrverandi unnusta hans hafi kynnst. Kærandi kvaðst hafa kynnst henni í gegnum samskiptaforritið facebook og þau hafi verið í sambandi í rúm þrjú ár. Fyrst hafi hún talað við kæranda í gegnum sinn eigin aðgang á facebook en á einhverjum tímapunkti hafi kærandi ákveðið að búa til nýjan aðgang fyrir hana sem hún hafi notað í þeim tilgangi að vera í samskiptum við kæranda. Aðspurður hvort kærandi geti sýnt kærunefnd skilaboðin kvaðst kærandi hafa eytt öllum skilaboðunum við stúlkuna ásamt myndum eftir að hún hafi útilokað aðgang kæranda á facebook. Þá bætti kærandi því við að hann hafi eytt skilaboðunum við komu sína til Íslands. Aðspurður af hverju kærandi hafi eytt skilaboðunum svaraði kærandi að fjölskylda sín hafi skipað honum að gera það. Aðspurður hvort kærandi hafi reynt að hafa samband við stúlkuna svaraði kærandi því neitandi, þar sem hún sé búin að útiloka hann á facebook. Kærandi kvaðst hafa reynt í eitt skipti að leita að henni á samskiptaforritinu en að hann hafi ekkert fundið. Af framburði kæranda verður því ekki annað skilið en að hann hafi eytt þeim gögnum sem hann kveðst hafa haft um samband sitt við stúlkuna. Kærandi hefur engin önnur gögn lagt fram um samband þeirra.
Í greinargerð heldur kærandi því fram að hann hafi ekki getað gefið […] hjá lögreglunni í […] þar sem faðir stúlkunnar hafi þegar látið gera slíka skýrslu til höfuðs kæranda. Í ofangreindum gögnum kemur fram að það sé öllum frjálst að gera […] skýrslu og að óheimilt sé að mismuna einstaklingum á grundvelli aldurs, kyns, stöðu, atvinnu eða þjóðerni við gerð slíkrar skýrslu. Þrátt fyrir að skráning […] skýrslu sé gjaldfrjáls þá séu dæmi um að lögreglumenn þiggi mútugreiðslur gegn því að skrá […] skýrslur, en hægt sé að tilkynna misferli lögreglunnar til umboðsmanns héraðsins […]. Á undanförnum árum hafi yfirvöld í […] unnið að því að bæta innviði sína og koma á stafrænu kerfi þar sem hægt sé að skila inn rafrænni […] skýrslu í gegnum sérstaka skráningarsíðu á vef lögregluembættanna. Fram kemur að eins og staðan er í dag séu það einungis lögregluembætti í […] sem taki við rafrænum […] skýrslum. Ef lögreglan sé óviljug til að skrá […] skýrslu sé hægt að kvarta til lögregluvarðstjórans, lögregluforingjans eða æðra settra embættismanna innan lögreglunnar. Ef það beri ekki árangur þá geti einstaklingar ávallt farið með málið fyrir dómstóla. Sú staðhæfing kæranda að hann hafi ekki getað gefið […] skýrslu til lögreglunnar fær því ekki stoð í gögnum málsins.
Kærunefnd telur að kærandi hafi með frásögn sinni sýnt fram á að hann hafi átt í sambandi við stúlku […] í óþökk fjölskyldu hennar og að faðir hennar hafi kært hann til lögreglu vegna málsins. Þá telur kærunefnd að kærandi kunni að hafa orðið fyrir ofbeldi sem hafi valdið því að hann hafi þurft að leita læknisaðstoðar. Það er hins vegar mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi orðið fyrir framangreindri árás af hálfu föður umræddrar stúlku. Kærunefnd telur kæranda ekki hafa að öðru leyti sýnt fram á að honum stafi hætta af fjölskyldu stúlkunnar snúi hann aftur til heimaríkis.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Verði kærandi fyrir ofbeldi í heimaríki sínu bera þau gögn sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar það með sér að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í landinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í […] geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna og uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í viðtali við Útlendingastofnun þann 30. maí 2017 kvaðst kærandi vera við góða andlega og líkamlega heilsu. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu um trúverðugleika framburðar kæranda, upplýsinga um heimaríki kæranda og gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 22. maí 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Í samræmi við 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kærandi hefur 15 daga frá birtingu úrskurðar þessa til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Málsmeðferð Útlendingastofnunar
Eins og áður hefur komið fram telur kærandi verulega annmarka hafa verið á meðferð Útlendingastofnunar á máli hans sem leiða eigi til þess að hina kærðu ákvörðun beri að fella úr gildi. Eins og komið hefur fram telji kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að láta hjá líða að taka tillit til þess að kærandi óttist heiðursglæpi í […] sem og að fjalla um fyrirliggjandi heimildir hvað það varðar. Með því að telja kæranda ekki til sérstaks þjóðfélagshóps í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga sem mögulegur þolandi heiðursglæpa hafi Útlendingastofnun einnig brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá gerir kærandi athugasemd við að hann hafi ekki verið boðaður til annars viðtals til að skýra ósamræmið sem Útlendingastofnun taldi vera á frásögn hans og því hafi stofnunin gerst brotleg við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá hafi kærandi ástæðu til að óttast heiðursmorð eða aðra heiðursglæpi vegna athafna eða ætlaðra athafna hans. Í ljósi þess að fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin byggi á því að kærandi hafi upplifað ógn af hendi föður fyrrverandi kærustu sinnar hafi Útlendingastofnun borið að rannsaka stöðu þolenda heiðurstengds ofbeldis í […] en ekki verði séð af ákvörðun stofnunarinnar að það hafi verið gert.
Í IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru lögfestar meginreglur um andmælarétt. Þeim er einkum ætlað að tryggja að aðili máls geti gætt hagsmuna sinna með því að koma afstöðu sinni til málsins á framfæri við stjórnvöld. Kærandi telur að með því að boða hann ekki í annað viðtal hafi Útlendingastofnun brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggur að kærandi hafi verið boðaður í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þar sem hann hefur fengið tækifæri til að koma að andmælum vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar auk þess sem hann hefur skilað inn greinargerð til kærunefndar. Eru því ekki tilefni til að fjalla frekar um þessa athugasemd kæranda við meðferð málsins.
Kærunefnd útlendingamála hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að hann sé þolandi heiðurstengds ofbeldis. Verður því ekki fallist á það með kæranda að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er horft til þess að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir