Nr. 223/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 223/2018
Fimmtudaginn 20. september 2018
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 26. júní 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. júní 2018.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 26. september 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. júní 2018, var kæranda tilkynnt að stofnuninni hefði borist upplýsingar um að hún hefði hafnað atvinnutilboði þann 9. maí 2018 vegna óvinnufærni. Óskað var eftir skriflegum skýringum kæranda vegna þessa og bárust þær samdægurs. Með bréfi, dags. 5. júní 2018, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi myndi leggja fram vottorð um vinnufærni. Umbeðið vottorð barst stofnuninni 6. júní 2018. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. júní 2018, var kæranda tilkynnt að hún teldist ekki vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júní 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. júlí 2018, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að hún hafi greinst með sjúkdóm fyrir þremur árum. Vegna sjúkdómsins geti hún ekki notað hægri hönd við störf og því hafi hún hætt fyrri störfum. Kærandi kveðst vera á biðlista fyrir aðgerð á úlnlið.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ferilskrá kæranda hafi verið send atvinnurekanda í maí 2018. Kærandi hafi ekki verið tilbúin til að sinna því starfi og gefið þær skýringar að hún væri veik og yrði ekki vinnufær á næstunni. Í læknisvottorði sem kærandi hafi lagt fram sé greint frá því að kærandi væri með skerta hreyfigetu vegna verkja og fyrirhugað sé að hún fari í aðgerð.
Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Virk atvinnuleit launamanns sé eitt af þeim skilyrðum sem atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögunum, sbr. a-liður 1. mgr. 13. gr. laganna. Í a- til j-liðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 sé nánar kveðið á um það hvað teljist vera virk atvinnuleit. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. sé að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé fær til flestra almennra starfa, sbr. a-liður 1. mgr. 14. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir því að sá sem þiggi atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-liðir 1. mgr. 14. gr. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sjálfri sé hún óvinnufær og samkvæmt læknisvottorðum sé hún með skerta hreyfigetu vegna daglegra verkja og aðgerð fyrirhuguð. Þá komi fram að starfsgeta kæranda til almennra starfa verði áfram skert eftir aðgerð. Vinnumálastofnun bendir á að í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi hvorki fram hvaða störfum kærandi geti sinnt né að hún teljist vinnufær í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi skýrra ummæla kæranda og upplýsinga úr læknisvottorðum sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi sé ekki fær til flestra almennra starfa. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Niðurstaða Vinnumálastofnunar sé því sú að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:
- er fær til flestra almennra starfa,
- hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
- hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
- hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
- er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
- er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
- á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
- hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
- er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
Í 5. mgr. 14. gr. kemur fram að hinn tryggði teljist vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga samtals sem heimilt sé að nýta að hámarki í tvennu lagi á hverju tólf mánaða tímabili, enda hafi hinn tryggði verið skráður innan kerfisins í fimm mánuði samtals frá fyrstu skráningu á sama tímabili, sbr. 29. gr. Hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá því að veikindum lauk óski Vinnumálastofnun eftir því.
Í gögnum málsins liggja fyrir tvö læknisvottorð, dags. 6. júní og 19. júní 2018. Þar kemur meðal annars fram að kærandi sé með skerta hreyfigetu í hægri úlnlið vegna verkja. Til standi að kærandi fari í stóra aðgerð og eftir hana verði geta til almennra starfa á vinnumarkaði áfram skert. Þá liggja fyrir skýringar kæranda um að hún geti ekki unnið vegna verkja.
Með vísan til framangreindra gagna og skýringa kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi sé hvorki fær til flestra almennra starfa né hafi hún heilsu til að taka starfi eða taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. a- og b-liðir 14. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggð samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. júní 2018, í máli A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson