Svör við spurningum fjárlaganefndar Alþingis vegna sölu á hlutum í Íslandsbanka
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent fjárlaganefnd Alþingis svör við spurningum sem fjárlaganefnd Alþingis beindi til ráðuneytisins fyrr í mánuðinum.
Þann 7. apríl sl. barst ráðuneytinu og Bankasýslu ríkisins ósk frá fjárlaganefnd Alþingis um minnisblað með svörum við spurningum í 19 liðum varðandi framhald sölumeðferðar á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Viðbótarspurningar í 11 liðum bárust frá nefndinni 13. apríl sl.
Hér á eftir fara svör við þeim spurningum sem sérstaklega er beint að ráðherra eða ráðuneytinu og þeim spurningum sem unnt er að svara með einfaldri tilvísun í gögn sem komið var á framfæri við fjárlaganefnd í aðdraganda sölunnar. Spurningar sem sérstaklega er beint að ráðherra eða ráðuneyti eru feitletraðar til hægðarauka. Bankasýsla ríkisins, sem samkvæmt lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum annast sölumeðferðina fyrir hönd ríkisins, þ.e. undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð, er best til þess fallin að taka saman svör við öðrum spurningum sem varða framkvæmd sölunnar.