Heilbrigðisráðherra setur á fót vinnuhóp vegna rannsóknarskýrslu
Heilbrigðisráðherra barst í dag skýrsla starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ráðherra hefur af þessu tilefni sett á laggirnar vinnuhóp skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu undir forystu Guðríðar Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra lagaskrifstofu. Vinnuhópnum er ætlað að vinna tillögur til úrbóta í stjórnsýslu ráðuneytisins og stofnana þess á grundvelli fyrrgreindrar skýrslu starfshóps forsætisráðherra og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Stefnt er að því að fyrstu tillögur liggi fyrir í lok maímánaðar. Verða þær í framhaldinu kynntar forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins.