Greiðsluþátttaka vegna þunglyndislyfja breytist
Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna þunglyndislyfja breytist 1. júní n.k. með reglugerð nr. 403/2010 um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum. Breytingin felur í sér að hagkvæmustu þunglyndislyfin verða með almenna greiðsluþátttöku. Markmiðið með breytingunum er að draga úr notkun dýrari þunglyndislyfja og ná þannig fram 200-300 milljóna kr. sparnaði á ársgrundvelli.
Um 30 þúsund einstaklingar fengu ávísað þunglyndislyfi á síðasta ári og var kostnaður sjúkratrygginga rúmlega 1 milljarður króna.
Ef læknir metur að sjúklingur þurfi á meðferð með dýrari lyfjunum að halda, getur læknirinn sótt um greiðsluþátttöku (lyfjaskírteini) til Sjúkratrygginga Íslands þar sem ástæða fyrir notkuninni er rökstudd. Til þess að sjúklingar sem nú þegar eru á dýrari lyfjunum fái nægan tíma til að kynna sér breytingarnar og ræða við lækni verða lyfjaávísanir á þunglyndislyf sem gefnar voru út fyrir 1. júní 2010 með óbreyttri greiðsluþátttöku allt til 1. október 2010.
Mikilvægt er að allir notendur þunglyndislyfja kynni sér breytingarnar í næsta apóteki eða hjá lækni. Nánari upplýsingar um greiðsluþátttöku í lyfjum.