Góður fundur með Breiðum brosum
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra átti í gær góðan fund með Breiðum brosum, samtökum aðstandenda barna með skarð í vör og góm.
Á fundinum var farið yfir stöðu mála gagnvart þessum hópi. Fulltrúar Breiðra brosa lýstu ánægju með reglugerð nr. 190/2010 um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttingakostnaði, m.a.vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla. Heilbrigðisráðherra undirritaði reglugerðina í marsbyrjun og tók hún þegar gildi. Reglugerðin felur í sér að endurgreiðsla sjúkratrygginga nemur 95% af reikningi tannlæknis vegna nauðsynlegs kostnaðar.
Fulltrúar Breiðra brosa lýstu á fundinum þeim væntingum að með reglugerðinni væru mál sem vörðuðu þátttöku vegna tannlæknakostnaðar barna með skarð í vör og góm leyst með farsælum hætti.
Á fundi ráðherra og Breiðra brosa var jafnframt rætt um talþjálfun barna með skarð í vör og góm.