Mál nr. 9/2018 Úrskurður 18. apríl 2018
Mál nr. 9/2018 Millinafn: Hjartar
Hinn 18. apríl 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 9/2018 en erindið barst nefndinni 19. febrúar. Erindið var áður tekið fyrir á fundi 20. mars en frestað.
Nafnið Hjartar er til sem ættarnafn á Íslandi og borið sem slíkt í þjóðskrá. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, er ættarnafn einungis heimilt sem millinafn í tilvikum sem um getur í 7. gr laganna. Þau eru þessi:
- Hver maður, sem ber ættarnafn í þjóðskrá má breyta því í millinafn.
- Hver maður, sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess, má bera það sem millinafn.
- Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.
- Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinafn.
Samkvæmt erindi úrskurðarbeiðanda á ekkert þesssara tilvika við um hana og þannig ekki unnt að fallast á Hjartar sem millinafn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Hjartar er hafnað.