Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 19/2017

Hinn 12. apríl 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 19/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 74/2012:

Ákæruvaldið

gegn

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni,

Tryggva Jónssyni og

Kristínu Jóhannesdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

1.        Með erindi, dagsettu 9. júní 2017, fóru Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 74/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 7. febrúar 2013, yrði endurupptekið.

2.        Að beiðni endurupptökubeiðenda var Gestur Jónsson hrl. skipaður talsmaður þeirra, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3.        Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

4.    Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 74/2012 voru endurupptökubeiðendur sakfelldir fyrir meiriháttar brot á skattalögum og dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar, greiðslu sektar í ríkissjóð og greiðslu sakarkostnaðar.

5.        Endurupptökubeiðandinn Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Var hann einnig sakfelldur fyrir fjögur brot í starfsemi Baugs Group hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslur auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í sömu tilvikum.

6.        Endurupptökubeiðandinn Tryggvi var sakfelldur fyrir þrjú brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið launatekjur sínar, tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Var hann einnig sakfelldur fyrir eitt brot í starfsemi Baugs Group hf. með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í því tilviki.

7.    Endurupptökubeiðendum var með hliðsjón af eldri dómi dæmdur hegningarauki. Var refsing endurupptökubeiðandans Jóns Ásgeirs ákveðin fangelsi í 12 mánuði og endurupptökubeiðandans Tryggva fangelsi í 18 mánuði, en fullnustu refsinganna frestað um tvö ár að því tilskildu að þeir héldu almennt skilorð skv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá voru endurupptökubeiðendur jafnframt dæmdir til greiðslu sakarkostnaðar og sekta í ríkissjóð að fjárhæð 64.000.000 kr. í tilviki endurupptökubeiðandans Jóns Ásgeirs og 32.000.000 kr. í tilviki endurupptökubeiðandans Tryggva.

8.        Með dómi í máli nr. 22007/11, uppkveðnum 18. maí 2017, komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn rétti endurupptökubeiðenda samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu til að vera ekki saksóttir eða refsað tvívegis. Var það niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu að endurupptökubeiðendur hafi verið saksóttir og refsað tvívegis vegna sömu eða efnislega sömu háttseminnar í tveimur aðskildum málum sem hafi ekki tengst með fullnægjandi hætti. Tók dómur Mannréttindadómstóls Evrópu eingöngu til I. og II. kafla ákæru er varðaði eigin skattskil endurupptökubeiðenda.

III. Grundvöllur beiðni

9.        Endurupptökubeiðendur byggja beiðni sína á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. núgildandi d-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.

10.       Endurupptökubeiðendur vísa til þess að 18. maí 2017 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu kveðið upp dóm í máli nr. 22007/11 þar sem komist hafi verið að einróma niðurstöðu um að íslenska ríkið hafi, í því sakamáli sem hér er beiðst endurupptöku á, brotið gegn rétti endurupptökubeiðenda samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 hafi endurupptökubeiðendur verið dæmdir til refsingar, en þeir hafi áður sætt refsingu með úrskurðum yfirskattanefndar vegna sömu háttsemi.

11.   Í niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sé vísað til þess að óumdeilt sé á milli endurupptökubeiðenda og íslenska ríkisins að sömu málsatvik liggi til grundvallar meðferð yfirskattanefndar og sakamálsins. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skoðað hvort hinar aðskildu málsmeðferðir fyrir skattayfirvöldum og dómstólum, sem byggðust á sömu málsatvikum, hafi verið réttlætanlegar vegna nægjanlegra tengsla í tíma og rúmi. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talið að svo væri ekki. Niðurstaða dómstólsins hafi verið að endurupptökubeiðendur hafi sætt tveimur aðskildum rannsóknum og málsmeðferðum vegna sömu háttseminnar andstætt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi dómstóllinn dæmt íslenska ríkið til greiðslu bóta samkvæmt 41. gr. sáttmálans.

12.       Endurupptökubeiðendur telja að ljóst sé af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að sú málsmeðferð, sem lauk með sakfellingu endurupptökubeiðenda, hafi brotið gegn rétti þeirra samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og því bersýnilegt að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt.

IV. Viðhorf gagnaðila

13.   Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 28. júlí 2017, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðendur byggja endurupptökubeiðni sína á.

14.          Af hálfu ríkissaksóknara er á það bent að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu hafi eingöngu tekið til ákæru vegna skattskila endurupptökubeiðenda sjálfra, en ekki vegna þess hluta málsins sem þeir voru sakfelldir fyrir vegna skattalagabrota sem framin voru í starfi þeirra sem framkvæmdastjórar Baugs Group hf. Ætla megi að sektir vegna þeirra brota nemi í tilviki endurupptökubeiðandans Jóns Ásgeirs um það bil 15 milljónum króna og í tilviki endurupptökubeiðandans Tryggva um það bil sex milljónum króna.

15.      Ríkissaksóknari telur sterk rök hníga í þá átt að heimila endurupptöku vegna framangreindra ástæðna, verði það niðurstaðan að Hæstiréttur fallist á niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Bendir ríkissaksóknari á að hafa beri í huga að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu hafi ekki bein réttaráhrif á Íslandi þótt líklegt verði að teljast að Hæstiréttur Íslands muni leggja túlkun dómstólsins til grundvallar eftirleiðis.

16.           Ríkissaksóknari bendir í umsögn sinni á að rekið sé sambærilegt mál fyrir Hæstarétti, þ.e. mál nr. 283/2016. Telur ríkissaksóknari líkur til þess að með þeim dómi verði að nokkru leyti eytt vafa um réttarstöðuna á Íslandi að þessu leyti. Mælir ríkissaksóknari með því að beðið verði með afgreiðslu á endurupptökubeiðninni þar til niðurstaða liggi fyrir frá Hæstarétti Íslands í fyrrgreindu máli.

17.     Ríkissaksóknari telur það muni vega þungt í þá átt að rétt sé að heimila endurupptöku hæstaréttardóms nr. 74/2012, komist Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að staðfesta beri túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðenda

18.     Með bréfi endurupptökunefndar til endurupptökubeiðenda þann 17. janúar 2018 var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn ríkissaksóknara. Endurupptökunefnd bárust athugasemdir endurupptökubeiðenda með bréfi dagsettu 26. janúar 2018.

19.        Endurupptökubeiðendur krefjast þess að málið verði endurupptekið í heild sinni þrátt fyrir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 18. maí 2017 hafi eingöngu tekið til I. og II. kafla ákæru er varðar eigin skattskil endurupptökubeiðenda. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 hafi endurupptökubeiðendur einnig verið sakfelldir að hluta fyrir brot framin í starfi þeirra sem framkvæmdastjórar Baugs Group hf. samkvæmt III. kafla ákæru.

20.       Af hálfu endurupptökubeiðenda er vísað til þess að ákvörðun viðurlaga og heimfærsla til refsiákvæða hafi eðli málsins samkvæmt tekið mið af öllum þeim brotum sem endurupptökubeiðendur hafi verið sakfelldir fyrir. Nauðsynlegt sé því að endurupptaka málið í heild sinni svo unnt verði að endurskoða ákvörðun viðurlaga en endurupptökubeiðendur hafi báðir verið dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar, greiðslu sektar í ríkissjóð og til greiðslu málsvarnarlauna.

21.    Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 283/2016 frá 21. september 2017 hafi túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sem birtist í máli endurupptökubeiðenda á inntaki 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu verið staðfest. Frá því fyrrgreindur dómur Hæstaréttar hafi verið kveðinn upp hafi rannsóknir tuga sambærilegra mála verið felldar niður hjá lögreglu. Einnig hafi verið fallið frá saksókn í fjölda sambærilegra mála.

VI. Viðbótarathugasemdir gagnaðila

22.        Endurupptökunefnd bárust frekari athugasemdir ríkissaksóknara með bréfi dagsettu 22. febrúar 2018 þar sem fram koma frekari viðhorf embættisins við endurupptökubeiðni.

23.          Af hálfu ríkissaksóknara er þess getið að 21. september 2017 hafi dómur gengið í hæstaréttarmáli nr. 283/2016. Dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í umræddu máli að ekki hafi verið brotið gegn 4. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sú niðurstaða hafi ráðist af atvikum þess máls. Bendir ríkissaksóknari á að Hæstiréttur hafi lagt til grundvallar niðurstöðu sinni fordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun á 4. gr. 7. samningsviðaukans. Í dóminum séu rakin sjónarmið sem fram komi í dómi mannréttindadómstólsins í máli endurupptökubeiðenda, Jóns Ásgeirs og Tryggva, og í dómi Mannréttindadómstólsins Evrópu í máli A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016.

24.      Ríkissaksóknari telur einsýnt að Hæstiréttur hafi lagt skýra línu um að við skýringu á 4. gr. 7. samningsviðaukans fyrir íslenskum dómstólum verði eftirleiðis fylgt þessum fordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu. Að áliti ríkissaksóknara styður þessi niðurstaða vægi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli endurupptökubeiðenda að íslenskum rétti og gefi ekki annað til kynna en að Hæstiréttur telji að brotið hafi verið gegn rétti endurupptökubeiðenda samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.

VII. Niðurstaða

25.    Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.

26.    Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

b.    ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

d.    verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

27.    Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

28.  Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðendur voru dæmdir til refsingar, greiðslu sekta og sakarkostnaðar með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 74/2012. Með dóminum var þeim gerð refsing vegna háttsemi sem þeim hafði jafnframt verið gert að greiða sekt vegna með úrskurðum yfirskattanefndar á árinu 2007. Byggja endurupptökubeiðendur á því að með þessu hafi þeir sætt tveimur aðskildum rannsóknum og málsmeðferðum fyrir sömu brot.

29.    Til stuðnings því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt byggja endurupptökubeiðendur á því að í meðferð sakamálsins, sem lauk með áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012, hafi falist brot gegn rétti endurupptökubeiðenda samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

30.    Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 22007/11 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn rétti endurupptökubeiðenda samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans. Niðurstaða dómstólsins var að endurupptökubeiðendur hafi verið saksóttir og refsað tvívegis vegna sömu eða efnislega sömu háttseminnar í tveimur aðskildum málum sem hafi ekki tengst með fullnægjandi hætti. Vegna þessa var íslenska ríkið dæmt til að greiða endurupptökubeiðandanum Jóni Ásgeiri 5.000 evrur í miskabætur og 10.000 evrur í málskostnað og endurupptökubeiðandanum Tryggva 5.000 evrur í miskabætur og 5.000 evrur í málskostnað. Í dóminum var ekki fallist á kröfu endurupptökubeiðenda um bætur vegna þeirra sekta sem þeim var gert að greiða með dómi Hæstaréttar og í því sambandi vísað til þess að þeir hafi ekki orðið fyrir neinu fjártjóni þar sem þeir hafi ekki greitt sektirnar.

31.    Með dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 reyndi á túlkun á 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans og í því sambandi byggir Hæstiréttur á dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins, meðal annars á niðurstöðu hans í máli endurupptökubeiðenda.

32.    Í lögum um meðferð sakamála er ekki sjálfstæð heimild til endurupptöku sakamáls, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum við meðferð sakamálsins. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 62/1994 eru úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Við túlkun á skilyrðum 228. gr. laga um meðferð sakamála verður hins vegar að hafa í huga að samkvæmt 1. gr. mannréttindasáttmálans skulu samningsaðilar tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í sáttmálanum, sbr. lög nr. 62/1994.  Jafnframt er til þess að líta að samkvæmt 13. gr. mannréttindasáttmálans skal sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningnum, eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi,  sbr. lög nr. 62/1994.  Þá hafa samningsaðilar að mannréttindasáttmálanum heitið því að hlíta endanlegum dómi dómstólsins í hverju því máli sem þeir eru aðilar að, sbr. 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994. Við túlkun á 1. mgr. 46. gr. mannréttindasáttmálans hefur Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað slegið föstu að skuldbinding ríkja samkvæmt ákvæðinu feli ekki aðeins í sér að greiða sanngjarnar bætur sem dæmdar hafa verið á grundvelli 41. gr. heldur feli jafnframt í sér skyldu til að framkvæma þær einstaklingsbundnu og almennu aðgerðir í landsrétti sem til þarf til að fullnusta dóminn, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Papamichalopoulos o.fl. gegn Grikklandi, Scozzari og Giunta gegn Ítalíu, Cocchiarella gegn Ítalíu, Maestri gegn Ítalíu, Menteş o.fl. gegn Tyrklandi, Ilaşcu o.fl. gegn Moldóvíu og Rússlandi og Kýpur gegn Tyrklandi.  Grundvallarreglan sem liggur að baki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um sanngjarnar bætur er að kærandi skuli, að því marki sem unnt er, verða settur í þær aðstæður sem hann hefði notið við ef ekki hefði verið brotið gegn ákvæðum sáttmálans, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Andrejeva gegn Lettlandi, Kingsley gegn Bretlandi og Papamichalopoulos o.fl. gegn Grikklandi.

33.    Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða endurupptökunefndar að uppfyllt sé skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála um endurupptöku málsins í heild að því er varðar endurupptökubeiðendur. Samkvæmt því er beiðni endurupptökubeiðenda samþykkt.

34.    Lögmaður endurupptökubeiðenda, Gestur Jónsson hrl., var skipaður til að gæta réttar þeirra, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðenda samtals 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. sömu laga.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 74/2012, sem dómur var kveðinn upp í þann 7. febrúar 2013, er samþykkt að því er þá varðar.

Kostnaður endurupptökubeiðenda 200.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

  

Gizur Bergsteinsson

  

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta