Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 399/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 399/2017

Miðvikudaginn 11. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, 28. október 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2016 um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hennar á árinu 2016 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Fram kemur í bréfi Tryggingastofnunar um innheimtu kröfunnar að rafrænir greiðsluseðlar að fjárhæð X kr. verði sendir mánaðarlega í heimabanka í 12 mánuði og fyrsti gjalddagi sé 1. september 2017. Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun rafrænt á vefsíðu stofnunarinnar 17. ágúst 2017. Umbeðinn rökstuðningur var veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. september 2017. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun, dags. 7. mars 2018, þar sem kæranda var synjað um niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar. Í bréfinu kemur fram að krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin vera fyrri hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2017. Með bréfi, dags. 31. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. nóvember 2017. Viðbótargreinargerð, dags. 8. mars 2018, barst frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að krafa Tryggingastofnunar ríkisins verði felld niður. Til vara krefst kærandi endurskoðunar á forsendum endurkröfu stofnunarinnar. Enn fremur að endurgreiðsla að fjárhæð X kr. á mánuði, sem stofnunin hafi sett til innheimtu í banka, verði lækkuð til muna. Hámarksgreiðslugeta kæranda sé X kr. á mánuði.

Í kæru segir að kærandi hafi fengið bætur frá Tryggingastofnun á tímabilinu janúar til og með október 2016, eða alls 10 mánuði. Hún hafi skilað inn tekjuáætlun í febrúar 2016 til þess að komast hjá því að fá kröfu um endurgreiðslu frá Tryggingastofnun.

Í bréfi Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör fyrir tiltekið tímabil sé miðað við að tekjur samkvæmt skattframtali séu Xkr. en að tekjur samkvæmt tekjuáætlun 2016 hafi verið X kr. Að teknu tilliti til annarra tekna þá sé endurkrafa stofnunarinnar að fjárhæð X kr.

Samkvæmt launaseðli frá B séu tekjur út október 2016 alls X kr. eins og bent hafi verið á í andmælum til stofnunarinnar en ekkert tillit hafi verið tekið til þess. Það séu einu launatekjur sem kærandi hafi haft, auk greiðslna frá Tryggingastofnun og óverulegra vaxtatekna. Þessi mismunur þarfnist útskýringa.

Jafnframt séu heildargreiðslur frá Tryggingastofnun samkvæmt greiðsluskjali stofnunarinnar fyrir október X kr. en ekki X eins og fram komi í endurreikningi og uppgjöri stofnunarinnar frá 21. júní 2017. Mismunur sé X kr. sem ekki sé útskýrður.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði örorkustyrk á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Í a-lið. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi að Tryggingastofnun skuli byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um sé að ræða tekjur sem séu staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu beri að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur hafi verið fyrir hendi í.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 19. gr. laga um almannatryggingar segi að Tryggingastofnun ríkisins skuli veita einstaklingi á aldrinum 18 til 62 ára örorkustyrk að fjárhæð 18.184 kr. á mánuði ef örorka hans sé metin að minnsta kosti 50% og hann uppfylli búsetuskilyrði 1. mgr. 18. gr. Slíkan styrk skuli enn fremur veita þeim sem uppfylli skilyrði 1. málsl. þeirrar málsgreinar og stundi fullt starf ef örorkan hafi í för með sér verulegan aukakostnað. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir samkvæmt 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fari samkvæmt 16. gr.

Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar skuli greiða viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafi börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin megi ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.

Á árinu 2016 hafi kærandi verið með örorkustyrk og tengdar greiðslur frá 1. janúar til 31. október. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu tekjuupplýsinga úr skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun 11. janúar 2016. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2016 væri kærandi með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í sameiginlega vexti og verðbætur með maka. Kæranda hafi verið greitt eftir áætluninni frá 1. janúar til 28. febrúar 2016.

Kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun 9. febrúar 2016 og hafi stofnunin breytt greiðsluáætlun kæranda í samræmi við hana. Í þeirri áætlun hafi verið gert ráð fyrir því að á árinu 2016 væri kærandi með X kr. í launatekjur og X kr. í sameiginlega vexti og verðbætur með maka. Einnig hafi verið gert ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóði til frádráttar launum að fjárhæð X kr.

Örorkumat kæranda hafi fallið niður 31. október 2016 og ekki verið endurnýjað. Tekjuáætlun kæranda fyrir tímabilið 1. janúar til 31. október 2016 hafi því verið X kr. í launatekjur og X kr. í sameiginlega vexti og verðbætur með maka. Einnig hafi verið gert ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar launum að fjárhæð X kr. á tímabilinu.

Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að á tímabilinu 1. janúar til 31. október 2016 hafi kærandi verið með X kr. í launatekjur, X kr. í aðrar tekjur og X kr. í sameiginlega vexti og verðbætur með maka. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að til frádráttar launum hafi komið annars vegar X kr. í iðgjald í lífeyrissjóð og X kr. í iðgjald í séreignarsjóð.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig af dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu X kr. en hefði ekki átt að fá greiðslur. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Í kæru komi fram að kærandi vilji fá útskýrt af hverju það sé ekki sama fjárhæð á síðasta greiðsluseðli Tryggingastofnunar og sú fjárhæð sem kærandi sé krafin um í júní 201[7].

Þann 10. febrúar 2016 hafi tekjuáætlun kæranda verið breytt og réttindi fyrir mánuðina janúar til febrúar 2016 hafi lækkað um X kr. Staðgreiðsla til Ríkisskattstjóra hafi verið leiðrétt og lækkuð um X kr. Krafa vegna ofgreiddra réttinda hafi því verið X kr. sem hafi beðið uppgjörs, sbr. bréf Tryggingastofnunar 10. febrúar 2016.

Greidd réttindi á árinu 2016 hafi því verið X kr. en réttindi kæranda miðað við breytta tekjuáætlun í febrúar hafi verið X kr. (X – X). Það sé sú fjárhæð sem komi fram á síðasta greiðsluseðli ársins 2016, enda sé það sú fjárhæð sem kærandi hafi átt rétt á miðað við síðustu tekjuáætlun ársins.

Réttindi fyrir árið 2016 hafi svo verið endurreiknuð að nýju á grundvelli tekna samkvæmt skattframtali og hafi niðurstaðan verið sú að kærandi hafi ekki átt rétt á neinum greiðslum frá Tryggingastofnun fyrir árið 2016.

Kærandi geri einnig athugasemdir við að ekki sé samræmi á milli launaseðla B og þeirra fjárhæða sem Tryggingastofnun miði við. Stofnunin miði við upplýsingar í skattframtali og staðgreiðsluskrá. Þær fjárhæðir sem Tryggingastofnun miði við að kærandi hafi haft í atvinnutekjur á tímabilinu 1. janúar til 31. október séu þær sömu og fram komi í staðgreiðsluskrá. Samræmi sé á milli tekjuupplýsinga samkvæmt skattframtali og staðgreiðsluskrá og því ekki ástæða til að ætla að rangar upplýsingar komi fram í staðgreiðsluskrá. Ef upplýsingar í skattframtali og staðgreiðsluskrá séu rangar þá geti kærandi fengið þær leiðréttar hjá skattyfirvöldum.

Rétt sé að vekja athygli á því að viðbót vegna barna, sem greidd sé samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar, sé greidd til þeirra sem njóti greiðslna örorkustyrks. Viðbótin lækki því ekki vegna tekna en falli niður ef réttur til örorkustyrks falli niður. Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði þess að fá viðbót við örorkustyrk vegna barna að viðkomandi njóti einnig greiðslna örorkustyrks. Sé þetta í samræmi við lög um almannatryggingar og eldri úrskurði úrskurðarnefndar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 419/2009.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í kjölfar fyrirspurnar frá úrskurðarnefnd velferðarmála hafi Tryggingastofnun tekið fyrir beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu sem fram hafi komið í kæru. Ákveðið hafi verið að synja beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

“Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”

Fjallað sé um innheimtu ofgreiddra bóta í 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í ákvæðinu felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Við afgreiðslu á kröfu kæranda um niðurfellingu vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, verið skoðað meðal annars ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikning greiðslna ársins 2016. Ástæða ofgreiðslna hafi verið rangar tekjuáætlanir. Kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagsaðstæður kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi aðgang að. Það hafi verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Einkum hafi verið horft til þess að tekjur kæranda væru góðar og eignastaða ágæt miðað við skuldastöðu. Ljóst þyki að kærandi hafi fjárhagslegt bolmagn til að greiða kröfuna. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að fjárhags- og félagslegar aðstæður kæranda væru ekki nægilega sérstakar til að þær uppfylltu undanþáguákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun bendi á að í gildi sé samningur um dreifingu kröfunnar til 36 mánaða. Stofnunin hafi komið nægilega til móts við kæranda með þeirri greiðsludreifingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótagreiðslum kæranda ársins 2016 og ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi fékk greiddan örorkustyrk og viðbót við örorkustyrk frá Tryggingastofnun á árinu 2016. Fjallað er um örorkustyrk í 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 1. mgr. ákvæðisins:

„Tryggingastofnun ríkisins skal veita einstaklingi á aldrinum 18–62 ára örorkustyrk að upphæð 18.184 kr. á mánuði ef örorka hans er metin a.m.k. 50% og hann uppfyllir búsetuskilyrði 1. mgr. 18. gr. Slíkan styrk skal enn fremur veita þeim sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessarar málsgreinar og stundar fullt starf ef örorkan hefur í för með sér verulegan aukakostnað. Örorkustyrkurinn skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir skv. 18. gr. og um tekjur og framkvæmd tekjuútreiknings fer skv. 16. gr.“

Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að greiða skuli viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin megi ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 11. janúar 2016, var gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. og X kr. í sameiginlega vexti og verðbætur með maka. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar frá kæranda. Í bréfinu kemur fram að fyrir liggi ofgreiðsla að fjárhæð X kr. sem verði þó ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins, sem áætlað sé að fari fram haustið 2017. Í nýrri tekjuáætlun var gert ráð fyrir launatekjum að fjárhæð X kr., iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr. og sameiginlegum vöxtum og verðbótum með maka að fjárhæð X kr. Samkvæmt gögnum málsins féll örorkumat kæranda niður 31. október 2016 og var það ekki endurnýjað. Tekjuáætlun kæranda í febrúar 2016 fyrir tímabilið 1. janúar til 31. október 2016 var því launatekjur að fjárhæð X kr., iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr. og sameiginlegir vextir og verðbætur með maka að fjárhæð X kr. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2016 fyrir tímabilið 1. janúar til 31. október 2016 reyndust launatekjur vera að fjárhæð X kr., iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar vera að fjárhæð X kr., iðgjald í séreignasjóð til frádráttar vera að fjárhæð X kr., aðrar tekjur vera að fjárhæð X kr. og sameiginlegir vextir og verðbætur með maka að fjárhæð X kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2016 leiddi í ljós að kærandi átti ekki rétt á örorkustyrk og þar af leiðandi átti hún ekki rétt á viðbót við örorkustyrk vegna barna, sbr. 3. mgr. 19. gr. laganna. Niðurstaða endurreikningsins leiddi í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu gerði kærandi ráð fyrir lægri launatekjum á árinu 2016 en skattframtal 2017 vegna tekjuársins 2016 sýndi fram á. Einnig liggur fyrir að umræddur tekjustofn hefur áhrif á bótarétt en í áðurnefndri 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla launatekjur undir 1. tölulið A-liðar 7. gr. Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Kærandi telur að launatekjur að fjárhæð X kr. geti ekki staðist þar sem á launaseðli frá B komi fram að tekjur út október 2016 séu samtals X kr. Laun frá B séu einu tekjur kæranda. Af 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, sbr. a-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009, leiðir að Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast í framtali bótaþega. Þá telur úrskurðarnefnd rétt að benda kæranda á að mögulegt sé að leita til skattyfirvalda til að fá skattframtalinu breytt, séu forsendur til þess. Úrskurðarnefnd hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. Úrskurðarnefnd telur tilefni til að benda á að þar sem kærandi átti ekki rétt á örorkustyrk féll einnig niður réttur til viðbótar við örorkustyrk vegna barna, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi gerir athugasemd við að heildargreiðslur frá Tryggingastofnun samkvæmt greiðsluskjali stofnunarinnar fyrir október séu X kr. en ekki X kr. eins og fram komi í endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar frá 21. júní 2017. Úrskurðarnefnd telur rétt að benda á að fjárhæðin, sem kemur fram í greiðsluskjali Tryggingastofnunar fyrir október, eru samtals réttindi kæranda á árinu miðað við breytta tekjuáætlun í febrúar. Aftur á móti er fjárhæðin, sem fram kemur í endurreikningi og uppgjöri Tryggingastofnunar frá 21. júní 2017, samtala þeirra greiðslna sem kærandi hlaut á árinu 2016 frá Tryggingastofnun.

Kærandi fer fram á að endurgreiðslu kröfunnar að fjárhæð X kr. á mánuði verði lækkuð til muna þar sem hámarksgreiðslugeta kæranda sé X kr. á mánuði. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun, dags. 7. mars 2018, er varðaði beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar hafi verið synjað þar sem krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin vera fyrir hendi.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 55. gr. laganna. Í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er aftur á móti að finna heimild í 11. gr. til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkustyrkur og viðbót við örorkustyrk sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um þessa skyldu sína. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um áhrif teknanna á bótagreiðslur og hafi því ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Af gögnum málsins verður ráðið að meðaltekjur kæranda síðustu sex mánuði áður en Tryggingastofnun tók niðurfellingarbeiðni kæranda til skoðunar voru samkvæmt staðgreiðsluskrá X kr. á mánuði. Þá bera gögn málsins einnig með sér að eignastaða kæranda sé jákvæð. Úrskurðarnefndin horfir til þess að Tryggingastofnun hefur dreift kröfunni til 36 mánaða þannig að kærandi greiðir X kr. mánaðarlega. Samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna kæranda og synjun á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar vegna ofgreiddra bóta eru staðfestar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2016 og synjun á beiðni hennar um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar vegna ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta