Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 42/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 42/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100059

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. október 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. október 2017, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd og endursenda hann til Möltu.Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1.-3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. sömu laga.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 6. júní 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun m.a. þann 27. júní 2017, ásamt talsmanni sínum. Þann 11. október 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 24. október 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 6. nóvember 2017. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda þann 3. janúar sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Möltu og dvalarleyfi með gildistíma til 23. júní 2017.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun bar kærandi m.a. fyrir sig að viðbótarvernd hans á Möltu væri útrunnin og því væri staða hans þar ekki tryggð. Þá hefði kærandi orðið fyrir fordómum á Möltu og nyti ekki nokkurra réttinda þar. Enn fremur væri kærandi þolandi pyndinga og því væri andleg heilsa hans bágborin. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var byggt á svari maltneskra yfirvalda við fyrirspurn stofnunarinnar, dags. 2. október 2017, varðandi viðbótarvernd kæranda á Möltu. Í svari maltneskra yfirvalda, dags. 3. október sl., komi fram að þar sem beiðni um vernd hefði ekki verið afturkölluð nyti kærandi enn viðbótarverndar á Möltu, hvort sem skírteini hans, þess efnis, hefði verið endurnýjað eður ei. Því nyti kærandi enn allra sömu réttinda og framfærslubóta og einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem myndi hafa áhrif í máli hans. Stofnunin byggði á því að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Möltu og þar með réttur til að stunda þar atvinnu og njóta almennt sömu kjara og maltneskir ríkisborgarar, auk allra þeirra réttinda og verndar sem mannréttindasáttmáli Evrópu tryggði. Þá var það mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Möltu.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra að meginreglu réttaráhrifum ákvörðunar um umsókn um alþjóðlega vernd. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi komið til Möltu árið 2012 í leit að alþjóðlegri vernd. Kærandi hafi m.a. greint frá því að lífið sé mjög erfitt á Möltu og að tilhugsunin um að verða snúið þangað aftur sé nánast eins og martröð. Kærandi kveður að réttleysi hans á Möltu hafi verið algert og að hann hafi mætt þar miklum fordómum. Fólk hafi verið ruddalegt í hans garð, kastað hafi verið í hann eggjum og flöskum úr bíl á ferð í þrí- eða fjórgang og samstarfsmenn hans hafi ávarpað hann með fúkyrðum um að hann ætti ekkert erindi þangað. Kærandi hafi unnið ýmis störf á Möltu en hafi ýmist ekki fengið greitt fyrir störf sín eða fengið laun sem hafi verið langt undir meðallaunum.

Þá kveður kærandi að hann hafi alist upp við stríðsátök í heimaríki sínu, [...]. Hann sé fæddur og uppalinn í [...] en vegna loftárása hafi fjölskylda hans flutt þaðan til [...]. Kærandi hafi verið 14 ára þegar hann hafi verið fangaður af hermönnum skæruliðasamtakanna [...] og fluttur í æfingabúðir. Hafi honum verið tilkynnt að hann yrði drepinn ef hann reyndi að leggja á flótta þaðan en félagi hans og frændi hafi báðir verið myrtir þegar þeir hafi ætlað að flýja úr æfingabúðunum. Kærandi kveður að hann hafi ekki getað leitað aðstoðar lögreglu eða yfirvalda. Þá gæti hann ekki búið annars staðar í [...] og ef hann sneri þangað aftur gætu þessir sömu menn þvingað hann til þátttöku í samtökunum og myrt hann. Á flótta sínum frá [...] hafi kærandi verið fangelsaður í Eþíópíu og Líbíu, þar sem hann hafi sætt pyndingum og miklu ofbeldi af hendi fangavarða. Kærandi hafi greint frá því að andlegt heilsufar hans væri gott því hann vildi ekki segja neitt annað. Hins vegar hafi hann upplifað mikla vanlíðan á Möltu, streitu og kvíða en hann reyni þó að forðast að hugsa til þess. Lífsviðhorf hans sé að þó það kunni að vera erfitt geti menn ekki leyft sér, andlegrar heilsu sinnar vegna, að velta sér upp úr fortíðinni.

Í greinargerð kæranda er að finna umfjöllun um aðstæður og réttindi viðurkenndra flóttamanna á Möltu. Er í því sambandi vísað til ýmissa alþjóðlegra skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu International Organization for Migration (IOM): Migration in Malta – Country Profile 2015. Meðal annars komi fram að mikið álag sé á hæliskerfinu á Möltu og maltnesk stjórnvöld hafi biðlað til annarra Evrópuríkja um aðstoð vegna þessa. Þá sé viðbótarvernd sú vernd sem oftast sé veitt á Möltu en hún sé háð miklum takmörkunum þar í landi. Enn fremur hafi samfélagsleg útskúfun og fátækt meðal innflytjenda aukist gríðarlega á síðustu árum. Það birtist m.a. í mismunun á vinnumarkaði, lágum launum og miklu óöryggi.Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð vísar kærandi m.a. til þess að í máli hans séu fyrir hendi sérstakar ástæður. Í því sambandi vísar kærandi til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, svo og lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé það meginregla að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Í a-lið 1. mgr. 36. gr. sé kveðið á um heimild til handa íslenskum stjórnvöldum til að synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Þeirri heimild sé með öllu ótækt að beita í tilviki kæranda. Því sé þess krafist að mál kæranda verði tekið til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna. Í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn til efnismeðferðar. Þá vísar kærandi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga og lögskýringargagna að baki lögunum, þ. á m. greinargerðar með frumvarpi til laganna og nefndarálits meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar. Kærandi vísar til þess að í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til breytingarlaganna komi m.a. fram að teljist einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu eigi stjórnvöld að taka umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar útlendingamála nr. 553/2017, 556/2017, 552/2017 og 550/2017, dags. 10. október sl., og úrskurða nr. 583/2017, 586/2017 og 581/2017, dags. 24. október sl. Kærandi gerir athugasemd við að í framangreindum úrskurðum virðist kærunefndin gefa athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 81/2017 minna vægi en öðrum lögskýringargögnum, s.s. umfjöllun meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í því sambandi vísar kærandi til fræðirita Róberts R. Spanó, Túlkun lagaákvæða, og Davíðs Þórs Björgvinssonar, Lögskýringar, að því er varðar vægi athugasemda í greinargerðum við lagafrumvörp andspænis öðrum tegundum lögskýringargagna. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að sjónarmið um skilvirkni umsóknarferils og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins eigi ekki að hafa áhrif á grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Kærandi gerir athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að hann teljist ekki vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, einkum í ljósi frelsissviptingar, ofbeldis og pyndinga sem hann hafi þurft að þola í Eþíópíu og Líbíu. Þrátt fyrir að kærandi hafi kosið að ræða ekki um fortíð sína, andlegrar heilsu sinnar vegna, sé það ekki til marks um að hann sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá byggir kærandi á því að hann muni eiga erfitt uppdráttar á Möltu, m.a. sökum mismununar vegna kynþáttar. Vísar kærandi í því sambandi til úrskurða kærunefndar frá 10. og 24. október 2017 í málum nr. 550/2017, 552/2017, 581/2017, 583/2017 og 586/2017.

Þá er krafa kæranda byggð á því að endursending hans til Möltu brjóti í bága við meginreglu alþjóðlegs flóttamannaréttar um non-refoulement, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga. Verði kærandi sendur til Möltu muni hann hafa ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Í því sambandi vísar kærandi til 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. svari maltneskra yfirvalda, dags. 3. október 2017, við fyrirspurn Útlendingastofnunar, dags. 2 október 2017, nýtur kærandi viðbótarverndar á Möltu. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar aftur til ríkisins sem hefur veitt honum slíka vernd, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar. Þá þarf að líta til stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Nánar um túlkun á 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 veitir stjórnvöldum ríkt svigrúm til mats á því hvað felist í sérstökum ástæðum í skilningi ákvæðisins, á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við þetta mat og hvert skuli vera vægi þeirra. Stjórnvöld eru þó ávallt bundin af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar en af henni leiðir að sjónarmiðin skulu vera málefnaleg. Þá gerir jafnræðisreglan þá kröfu að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Þegar afmarka skal nánar á hvaða málefnalegu sjónarmiðum skuli byggt og vægi þeirra við framangreint mat verður að líta til lagagrundvallar málsins, en í því sambandi er áréttað að heimild ráðherra í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt til að setja í reglugerð ákvæði um framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laganna.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæðisins til þess að 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli að mestu leyti framkvæma með sambærilegum hætti og 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 enda var orðalag niðurlags 1. málsl. óbreytt frá eldri lögum. Samkvæmt framkvæmd á grundvelli eldri laga fengu sjónarmið sem varða skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkuð mikið vægi. Við mat sjónarmiða sem tengdust stöðu einstakra umsækjenda var gengið út frá því að ástand og aðstæður í viðtökuríki og fyrri reynsla kæranda þyrftu að vera bæði sérstakar og af ákveðnu alvarleikastigi sem segja má að hafi verið talsvert hátt svo til greina kæmi að beita þágildandi 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga.

Tilteknar breytingar á framsetningu 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 hafa þó leitt til þess að nefndin hefur talið að veita bæri sjónarmiðum sem tengjast stöðu einstakra umsækjenda aukið vægi í þessu heildarmati. Frá gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016 hefur kærunefnd litið til innra samræmis 36. gr. laga um útlendinga og þeirra breytinga sem voru gerðar á framsetningu 1. mgr. 36. gr. laganna, með hliðsjón af áðurgildandi 1. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga svo og þeirra breytinga sem fólust í framsetningu þeirrar reglu sem nú er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd litið til þeirra lögskýringargagna sem tengdust breytingu á ákvæðinu í meðförum þingsins, n.t.t. nefndaráliti meirihluta þingnefndar og ræðu framsögumanns meirihlutans, en í því sambandi er áréttað að kærunefnd hefur hvorki litið til orðalags ákvæðis 2. mgr. 36. gr. eins og það hljóðaði í upphaflegri mynd frumvarps til laga um útlendinga né athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í ljósi þeirra breytinga sem urðu á því ákvæði frumvarpsins í meðförum þingsins. Með vísan til lögskýringargagna hefur kærunefnd litið svo á að það hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé eitt af þeim sjónarmiðum sem líta verður til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu. Við það mat skuli jafnframt bæði litið til aðstæðna einstaklings og aðstæðna og ástands í viðtökuríki. Kærunefnd hefur þó jafnframt lagt nokkra áherslu á forsögu ákvæðisins og litið til þess að ekki hafi verið um að ræða grundvallarbreytingu frá framkvæmd á grundvelli eldri laga um útlendinga að því er varðar vægi hinna kerfislægu sjónarmiða. Í framkvæmd nefndarinnar frá gildistöku laga nr. 80/2016 hefur þetta leitt til þess að málum sem tekin hafa verið til meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna hefur fjölgað lítillega. Engu að síður hefur skilvirkni umsóknarferlisins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins áfram vegið þungt í mati nefndarinnar.

Frá gildistöku laga nr. 81/2017 telur kærunefnd rétt að líta til þeirra gagna sem urðu til við meðferð laganna á Alþingi er varða túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hér er um að ræða athugasemdir við frumvarpið, álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar og framsöguræðu nefndarmanns sem kynnti álitið við 2. umræðu frumvarpsins. Þrátt fyrir að þau lögskýringargögn tengist ekki beint setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 eru þau samt sem áður sett fram í tilefni breytinga á inntaki 2. mgr. 36. gr. laganna og því nægilega tengd efni málsgreinarinnar til að hafa áhrif á túlkun hennar.

Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 81/2017 var áréttaður „sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, líkt og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um útlendinga.“

Kærunefnd telur að líta verði til þess að álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar gefur skýrlega til kynna vægi tiltekinna sjónarmiða sem líta eigi til við beitingu ákvæðis 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því áliti kemur eftirfarandi fram:

Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meirihlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga.

Í framsöguræðu við 2. umræðu voru þessi sjónarmið árréttuð og hnykkt á með þeim ummælum að ekki ætti „að vera neinn vafi á því hvað átt sé við með sérstakri stöðu.“

Að mati kærunefndar lýsa þessi lögskýringargögn því með nægilega skýrum hætti bæði þeim sjónarmiðum sem löggjafinn telur að stjórnvöldum beri að beita við mat samkvæmt ákvæðinu og að nokkru leyti vægi sjónarmiðanna. Nefndin telur sjónarmiðin málefnaleg og að þau rúmist innan þess mats sem texti ákvæðisins felur stjórnvöldum, sérstaklega í ljósi þess að reglugerðarheimild skv. 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt. Að mati kærunefndar gefa ummæli í þessum lögskýringargögnum með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjanda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Í ljósi mismunar á orðalagi og inntaki athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2017 og umfjöllun meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta atriði er það þó mat kærunefndar að ekki sé skýrt af lögskýringargögnum að ávallt beri að taka umsóknir frá einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu til efnismeðferðar, þótt ótvírætt sé að það sjónarmið skuli hafa aukið vægi andspænis öðrum sjónarmiðum, sé miðað við þá framkvæmd sem tíðkast hefur fram að þessu. Aftur á móti telur kærunefnd að þegar viðkvæm staða umsækjenda verður að mati stjórnvalda talin leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga, skuli það sjónarmið hafa mikið vægi við matið. Í þeim tilvikum beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og að það skuli almennt tekið til efnismeðferðar.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun sem áhrif hefði á mál hans. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ungur, einhleypur karlmaður. Samkvæmt framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 15. júní 2017 til 28. nóvember s.á., er kærandi almennt heilbrigður. Í framangreindum komunótum kemur m.a. fram að kærandi hafi hitt [...], sálfræðing, þann 15. nóvember 2017. Samkvæmt lýsingum sálfræðings kvaðst kærandi m.a. hafa eytt fimm árum sem óvelkominn flóttamaður á Möltu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 27. júní 2017, kvað kærandi líkamlega heilsu sína vera góða. Aðspurður um andlega heilsu kvað kærandi að honum liði vel því hann vildi ekki segja neitt annað. Honum hafi hins vegar liðið illa andlega meðan hann hafi dvalið á Möltu. Í framangreindu viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi jafnframt frá því að hann hefði verið pyndaður á flótta sínum frá [...]. Þegar kærandi hafi farið [...] til Eþíópíu í fyrsta skipti hafi hann verið fangelsaður, þar sem hann hafi verið án ferðaskilríkja. Í fangelsinu hafi hann sætt pyndingum vegna gruns um að hann tilheyrði hryðjuverkasamtökunum [...]. Þá hafi hann í þrígang verið fangelsaður í Líbíu og margsinnis verið beittur ofbeldi, þ. á m. af hendi hermanna. Kærandi kvað pyndingarnar í Líbíu hafa haft mest áhrif á sig því þær hafi verið linnulausar. Hann hafi verið mjög óttasleginn eftir að hafa yfirgefið Líbíu en hann reyni nú að gleyma fortíðinni.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að þegar litið er til fyrri reynslu kæranda sem þolanda pyndinga teljist hann vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð á Möltu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Möltu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2016 Report on International Religious Freedom – Malta (United States Department of State, 15. ágúst 2017);
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Malta (United States Department of State, 3. mars 2017);
  • Asylum Information Database Country Report: Malta (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017);
  • Amnesty International Report 2016/17 – Malta (Amnesty International, 22. febrúar 2017);
  • ECRI Conclusions on the Implementation of the Recommendations in Respect of Malta Subject to Interim Follow-Up: Adopted on 30 June 2016 (European Commission against Racism and Intolerance, 4. október 2016);
  • Freedom in the World 2016 – Malta (Freedom House, 7. september 2016);
  • National Report on Hate Speech and Hate Crime in Malta 2016 (E-More Project, 2016);
  • Report on Measures to Combat Discrimination – Country report 2013 – Malta (Migration Policy Group, 1. janúar 2014);
  • ECRI Report on Malta (fourth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 15. október 2013);
  • National Action Plan Against Racism and Xenophobia (Equality Research Consortium, 2010);
  • Upplýsingar af vefsíðum maltneskra yfirvalda: www.socialsecurity.gov.mt og www.housingauthority.gov.mt;
  • Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: http://www.unhcr.org.mt;
  • Upplýsingar af vefsíðu European Justice: https://e-justice.europa.eu;
  • Upplýsingar af vefsíðu félagasamtakanna Victim Support: victimsupport.org.mt;
  • Upplýsingar af vefsíðum Report Racism Malta og Reporting Hate: www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu.

Samkvæmt ofangreindum gögnum fá einstaklingar með viðbótarvernd (e. subsidiary protection) á Möltu að jafnaði útgefin endurnýjanleg dvalarleyfi til þriggja ára í senn. Að beiðni er iðulega fallist á endurnýjun slíkra dvalarleyfa þó að útgáfu og endurnýjun þeirra kunni að fylgja skriffinnska og tafir, m.a. vegna skorts á upplýsingagjöf til aðila. Útgáfa varanlegra dvalarleyfa sætir ströngum skilyrðum á Möltu, svo og veiting ríkisborgararéttar. Heimild til að binda enda á réttarstöðu flóttamanns er sjaldan beitt af maltneskum yfirvöldum og á Möltu fer ekki fram kerfisbundin endurskoðun á réttarstöðu flóttamanna. Einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu njóta almennt ferðafrelsis og fá útgefin vegabréf fyrir útlendinga (e. Alien‘s passport). Framangreind vegabréf eru þó ekki alþjóðlega viðurkennd ferðaskilríki.

Þá er flóttamönnum og einstaklingum með viðbótarvernd almennt heimilt að dvelja um eitt ár í móttökumiðstöðvum en í framkvæmd er þeim mögulegt að dvelja þar lengur ef þeir leggja fram slíka beiðni. Beiðnirnar eru metnar í hverju tilviki fyrir sig af stofnun um velferð umsækjenda um alþjóðlega vernd (e. Agency for Welfare of Asylum Seekers). Þegar réttur til dvalar í móttökumiðstöð hefur verið fullnýttur framkvæmir félagsráðgjafi mat á aðstæðum aðila og reynir að beina þeim inn í félagslega kerfið. Nýleg rannsókn meðal innflytjenda á Möltu hefur þó leitt í ljós að margir þeirra standa frammi fyrir húsnæðisvanda.

Flóttamenn á Möltu hafa aðgang að vinnumarkaðnum og njóta almennt sömu kjara og maltneskir ríkisborgarar. Einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu hafa einnig aðgang að vinnumarkaðnum en atvinnuþátttaka þeirra kann þó að sæta takmörkunum þegar kemur að tilteknum starfsgreinum, svo sem lögreglustörfum eða hermennsku. Í skýrslu sérlegs skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna (e. UN Special Rapporteur) kemur fram að innflytjendum á Möltu reynist erfitt að aðlagast maltnesku samfélagi og að þeir upplifi oft mismunun, þ. á m. á vinnumarkaðnum.

Einstaklingar með viðbótarvernd eiga rétt á félagslegum bótum til grunnframfærslu á Möltu en aðgangur þeirra að atvinnutryggingum og lífeyri sætir takmörkunum að einhverju leyti. Þá njóta einstaklingar með viðbótarvernd jafnframt grunnheilbrigðisþjónustu. Í framkvæmd er ekki fyrir hendi sérhæfð heilbrigðisaðstoð fyrir þolendur pyndinga innan maltneska hæliskerfisins. Starfsfólk sem vinnur með flóttafólki og verður vart við slík tilvik vísar þolendum almennt á opinbera heilbrigðiskerfið, þ. á m. geðspítala og sérhæfðar göngudeildir.

Í ofangreindri skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. European Commission against Racism and Intolerance) kemur m.a. fram að flóttamenn og innflytjendur sæti samfélagslegri mismunun, m.a. á atvinnu- og húsnæðismarkaði svo og við nýtingu almenningssamgangna og ýmiss konar þjónustu. Í því sambandi er fólk af [...] og [...] uppruna tilgreint sérstaklega. Árið 2010 gáfu maltnesk yfirvöld út aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju og útlendingahatri (e. National Action Plan Against Racism and Xenophobia). Telji einstaklingar á sér brotið geta þeir m.a. leitað til nefndar um opinbera þjónustu (e. Public Service Commission), jafnréttisnefndar (e. National Commission for the Promotion of Equality), umboðsmanns þingsins (e. parliamentary ombudsman) og dómstóla. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2009 kváðust 29% [...] innflytjenda hafa orðið fyrir ofbeldi, hótunum eða alvarlegu áreiti á grundvelli kynþáttar en yfir 50% árása væru ekki tilkynntar til lögreglu vegna skorts á trausti til yfirvalda. Ekki liggja fyrir aðgreind, opinber gögn um hatursglæpi á Möltu, s.s. um tíðni þeirra, kærufjölda, fjölda mála sem sæta ákæru o.s.frv. Hatursglæpir, þ. á m. á grundvelli kynþáttar, eru refsiverðir skv. maltneskum hegningarlögum. Samkvæmt ofangreindum heimildum skortir þó á eftirfylgni með löggjöfinni, fá mál eru kærð og lágt hlutfall kærumála sætir ákæruferli. Auk þess að leita til lögreglu geta þolendur hatursglæpa leitað til samtakanna Victim Support og jafnframt tilkynnt um hatursglæpi á þar til gerðum vefsíðum, www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust. Meðferð verður þó að fullnægja lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans, sem fyrr segir. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar að sú staðreynd ein og sér að efnahagslegar aðstæður einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki sáttmálans sé ekki fullnægjandi til að uppfylla grundvallarkröfu um þann alvarleika sem 3. gr. sáttmálans geri kröfu um, þ.e. þar sem ekki sé um að ræða sérstaklega sannfærandi mannúðaraðstæður sem mæli gegn flutningi einstaklings, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussain o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Möltu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Möltu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Möltu.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi kveður að líf hans á Möltu hafi verið mjög erfitt, réttleysi hans hafi verið algert og hann hafi mætt þar miklum fordómum. Svo sem fram hefur komið eiga einstaklingar með viðbótarvernd á Möltu oft í erfiðleikum með að fá atvinnu og húsnæði og almennt að aðlagast samfélaginu. Á grundvelli ofangreindra skýrslna og gagna liggur hins vegar fyrir að kærandi, sem handhafi viðbótarverndar á Möltu, hefur þar aðgang að heilbrigðisþjónustu, félagslegum bótum og öðrum grundvallarréttindum. Þá kemur fram í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 27. júní 2017, að kærandi hafi haft aðgang að heilbrigðiskerfinu á Möltu, þ.m.t. heilsugæslu og læknismeðferð ef hann kynni að veikjast, en hann hafi hins vegar ekki talið sig þurfa á slíkri þjónustu að halda. Upplýsingar um aðstæður einstaklinga með viðbótarvernd á Möltu bera jafnframt með sér að kærandi eigi rétt á geðheilbrigðisþjónustu á Möltu, telji hann sig þurfa á henni að halda. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að maltnesk stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við kynþáttahyggju og útlendingahatri í landinu og er það mat kærunefndar að kæranda standi til boða aðstoð og virk réttarúrræði, óttist hann mismunun eða hatursglæpi á grundvelli kynþáttar á Möltu. Því er það mat kærunefndar, þrátt fyrir að nefndin hafi metið hann í sérstaklega viðkvæmri stöðu, að fyrirliggjandi gögn beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar á Möltu vegna stöðu hans þar, heilsufars, flutnings hans þangað eða mismununar sem hann kunni að verða fyrir sökum kynþáttar.

Svo sem fram hefur komið byggir kærandi m.a. á því í greinargerð sinni að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi. Vísar kærandi í því sambandi til fimm úrskurða kærunefndar frá 10. og 24. október 2017 í málum nr. 550/2017, 552/2017, 581/2017, 583/2017 og 586/2017 þar sem fallist var á kröfu kærenda, sem áður höfðu hlotið alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í Búlgaríu og Ungverjalandi, um að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í framangreindum málum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærendur gætu átt erfitt uppdráttar í viðtökuríkjum sökum mismununar vegna kynþáttar og aðstæðna þeirra sem einstaklinga með alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd. Kærunefnd byggði þá niðurstöðu sína á heildstæðu mati á aðstæðum þeirra og fyrirliggjandi gögnum um stöðu einstaklinga sem hlotið höfðu alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í Búlgaríu og Ungverjalandi. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í fyrrgreindum málum. Kemur þar m.a. til skoðunar að aðstæður flóttamanna á Möltu teljast ekki nægilega sambærilegar aðstæðum þeirra í Búlgaríu og Ungverjalandi.

Í ljósi aðstæðna á Möltu og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 23. ágúst 2017, ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 8. júní 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi, í greinargerð sinni, athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að hann teljist ekki vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, einkum m.t.t. stöðu hans sem þolanda pyndinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Í máli kæranda liggur fyrir að hann kveðst vera þolandi pyndinga. Yfirvöldum á sviði útlendingamála ber að bregðast sérstaklega við vísbendingum um að einstaklingur hafi orðið fyrir pyndingum eða öðrum mannréttindabrotum, sbr. 25. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að skylda sé lögð á stjórnvöld að gera ráðstafanir í því skyni að bera möguleg kennsl á og skrá einkenni og ummerki um pyndingar eða annað alvarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi. Þessi skylda á jafnframt rætur að rekja til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Af 14. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sbr. lög nr. 19/1996, leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja virka verkferla til að bera kennsl á þolendur pyndinga og annarrar ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar, sjá jafnframt almenna athugasemd 3 frá nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (CAT/C/GC/3).

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að Útlendingastofnun beri að virkja ákveðna verkferla þegar grunur leikur á að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi orðið fyrir pyndingum. Leggur kærunefnd til að Útlendingastofnun hefji í slíkum tilfellum skimun fyrir pyndingum og afleiðingum þeirra, t.d. með notkun reglna og spurningalista. Í því sambandi vekur nefndin athygli á að Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út viðmiðunarreglur (e. Istanbul Protocol - Manual on the Effective Investigation and Documentation of Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) sem hafa verið viðurkenndar af mannréttinda- og svæðisbundnum stofnunum á borð við Evrópusambandið. Þá er unnt að hafa hliðsjón af verkefni sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fjármagnað, svonefnt PROTECT-ABLE verkefni, sem miðar að því að útbúa og miðla til aðildarríkja sérstökum spurningarlista sem aðstoðar ríki við að skima eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd þjáist af afleiðingum áfalls, t.a.m. vegna pyndinga. Spurningalistinn var þróaður í því skyni að auðvelda ríkjum að haga móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í samræmi við tilskipanir Evrópuráðsins og að greina fyrr þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var lagt mat á hvort kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ekki væri séð að umsækjandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu svo það hefði áhrif í málinu. Í framangreindu viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi hins vegar frá því að hann hefði sætt pyndingum á flótta frá heimaríki sínu. Með tilliti til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga gerir kærunefnd athugasemd við það að framangreind frásögn kæranda hafi ekki virkjað sérstaka verkferla hjá Útlendingastofnun í því skyni að skima með skilvirkum hætti fyrir því hvort kærandi glími við afleiðingar þess að vera þolandi pyndinga og annarrar ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar. Þá var kærandi ekki spurður nánar út í pyndingarnar eða afleiðingar þeirra, af hálfu Útlendingastofnunar. Kærunefnd gerir jafnframt athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar, í ákvörðun sinni, að kærandi telji sig ekki hafa þörf fyrir aðstoð sálfræðings. Í framangreindu viðtali hjá Útlendingastofnun var kærandi spurður stuttlega út í andlegt heilsufar sitt en ekki spurður um þörf sína fyrir sálfræðiaðstoð. Þá kemur hvergi fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur undir höndum að kærandi telji sig ekki hafa þörf fyrir aðstoð sálfræðings. Með hliðsjón af framangreindum atriðum telur kærunefnd að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant. Kærunefnd gerir þó ekki athugasemd við málsmeðferð stofnunarinnar að öðru leyti.

Svo sem fram hefur komið hefur kærunefnd undir höndum komunótur frá Göngudeild sóttvarna, þ. á m. gögn er varða tíma kæranda hjá [...], sálfræðingi. Þá sendi kærunefnd talsmanni kæranda fyrirspurn, dags. 9. janúar 2018, til að kanna hvort fyrir lægju frekari læknisfræðileg gögn í máli kæranda, s.s. sálfræðileg gögn. Þann sama dag barst svar frá talsmanni kæranda þess efnis að frekari gögn lægju ekki fyrir hjá Göngudeild sóttvarna. Það er mat kærunefndar að fyrirliggjandi gögn beri með sér nægar upplýsingar um líkamlega og andlega heilsu kæranda svo litið verði svo á að málið sé nægjanlega upplýst að því leyti. Sem fyrr segir liggur fyrir að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd á Möltu og nýtur hann þar allra grundvallarréttinda, þ. á m. aðgangs að heilbrigðisþjónustu og félagslega kerfinu. Þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi ekki virkjað sérstaka verkferla sem aðstoða starfsmenn stofnunarinnar við að skima með skilvirkum hætti eftir því hvort kærandi glími við afleiðingar þess að vera þolandi pyndinga og annarrar ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar þá telur kærunefnd ekki tilefni til þess, eins og hér stendur á, að vísa máli kæranda til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni á þeim grundvelli. Hefur nefndin við þetta mat m.a. litið til aðstæðna einstaklinga með viðbótarvernd á Möltu svo og gagna sem kærandi hefur lagt fram fyrir kærunefnd, þ. á m. framangreindra komunóta frá Göngudeild sóttvarna.

Meginmarkmiðið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Ljóst er, með vísan til framangreindrar niðurstöðu kærunefndar um aðstæður á Möltu og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að framangreindir ágallar á málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu máls kæranda og séu ekki slíkir að fella beri ákvörðunina úr gildi þegar af þeirri ástæðu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                         Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta