Mikilvægi menntarannsókna og nýsköpunar í skólastarfi
„Það var fróðlegt að kynnast því hvernig aðrar þjóðir takast á við sömu verkefni og við. Margar þeirra huga að sambærilegum aðgerðum til að styrkja menntakerfin, til dæmis með því að efla leik- og grunnskólastigin og styrkja stöðu kennara. Aðgerðir og árangur Íslands við að fjölga kennaranemum vakti mikla athygli. Það er afar ánægjulegt að finna samstöðu með öðrum þjóðum og finna að Ísland er á réttri braut,“ segir ráðherra.
Breski menntamálaráðherrann, Gavin Williamson, opnaði ráðstefnuna og lagði í erindi sínu sérstaka áherslu á þekkingu í skólakerfinu og mikilvægi námskráa. Þá nefndi hann einnig að það hefði verið misráðið hjá breskum menntamálayfirvöldum á sínum tíma að minnka áherslu á gæði námsbóka. Í erindum ráðstefnunnar var lögð sérstök áhersla á mikilvægi menntarannsókna fyrir stefnumótun til framtíðar og fram kom í máli eistneska menntamálaráðherrans, Mailis Reps, að brýnt væri að styðja við frumkvöðla í skólastarfi og treysta kennurum.
Ráðstefnan stóð í þrjá daga og var þema ráðstefnunnar þetta árið „Ein kynslóð – hvað þarf til að breyta menntakerfinu?“
„Læsi og góð móðurmálskunnátta eru mikilvæg verkfæri fyrir komandi kynslóðir til að tryggja velferð og hagsæld. Ekki bara á Íslandi heldur einnig á heimsvísu. Það vakti athygli mína að nýjustu tölur frá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) benda til þess að um 53% barna í þróunarlöndunum séu ólæs eða geti ekki skilið einfalda texta við 10 ára aldur. Þessu þarf að breyta,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Þegar ráðstefnunni lauk hófst BETT skólasýningin í London sem er einn stærsti viðburður sinnar tegundar í Evrópu. Þar má kynnast helstu nýjungum í skólastarfi, kennsluefni og tæknibúnaði og þar eru einnig haldnir fjölmargir fyrirlestrar sem kennarar og skólastjórnendur sækja á hverju ári.