Hoppa yfir valmynd
26. mars 1998 Forsætisráðuneytið

46/1998 Úrskurður frá 26. mars 1998 í málinu nr. A-46/1998

Hinn 26. mars 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-46/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 9. febrúar sl., kærði [...] hdl., f.h. [...], meðferð Ísafjarðarbæjar á beiðni um að veita honum upplýsingar um styrki til greiðslu fasteignagjalda af fasteignum á Flateyri og um uppkaup húseigna þar, í kjölfar snjóflóðs þess sem féll á byggðarlagið 26. október 1995.

Úrskurðarnefnd tilkynnti umboðsmanni kæranda með bréfi, dagsettu 5. mars sl., að með vísun til upplýsingalaga nr. 50/1996 liti nefndin svo á að kærð hefði verið til nefndarinnar synjun Ísafjarðarbæjar um að veita kæranda aðgang að eftirtöldum gögnum:

1) Reglum um úthlutun styrkja til greiðslu fasteignagjalda í Ísafjarðarbæ og/eða á Flateyri vegna gjaldáranna 1995, 1996 og 1997.

2) Tillögum sem unnið hefði verið eftir við uppkaup fasteigna á Flateyri samkvæmt reglugerð nr. 533/1997 um veitingu tímabundinna lána til sveitarfélaga vegna kaupa á íbúðarhúsnæði sökum snjóflóða eða skriðufalla.

Ennfremur samþykktum bæjarráðs og bæjarstjórnar og öðrum skjölum sem hefðu að geyma almennar ákvarðanir um uppkaup fasteigna á Flateyri á grundvelli sömu reglugerðar.

Þá lýsti nefndin sig reiðubúna til þess að fjalla efnislega um skyldu bæjarins til að afhenda gögn sem varða styrki til einstakra fasteignaeigenda eða kaup á einstökum fasteignum ef kærandi óskaði þess.

Í framhaldi af því óskaði umboðsmaður kæranda eftir því með bréfi, dagsettu 11. mars sl., að úrskurðarnefnd fjallaði um skyldu Ísafjarðarbæjar til að afhenda gögn varðandi styrki til [A], eiganda húseignarinnar nr. 2 við [B]veg á Flateyri, til greiðslu fasteignagjalda á umræddum þremur gjaldaárum og kaup bæjarins á eigninni á grundvelli fyrrgreindrar reglugerðar.

Með bréfi, dagsettu 13. mars sl., var framangreind beiðni kynnt [...] hrl., f.h. Ísafjarðarbæjar, og honum gefinn kostur á að lýsa viðhorfi umbjóðanda síns til málsins og láta umbeðin gögn í té sem trúnaðarmál fyrir 24. mars sl. Þann dag barst umsögn Ísafjarðarbæjar ásamt matsgerð [...] og [...], verkfræðinga, dagsettri 27. maí 1997. Verkfræðingarnir voru tilkvaddir af Ísafjarðarbæ og ofanflóðasjóði til að meta skemmdir á tilteknum húseignum á Flateyri, þ.m.t. eigninni [B]vegi 2.

Um meðferð máls þessa fyrir úrskurðarnefnd vísast að öðru leyti til lýsingar á málsatvikum hér á eftir.

Málsatvik
Tildrög að kærumáli þessu eru þau að með bréfi, dagsettu 13. febrúar 1997, mótmælti kærandi álagningu fasteignagjalda á fasteign sína á Flateyri og krafðist þess að hún yrði rökstudd. Í kjölfar þessa, m.a. vegna ófullnægjandi rökstuðnings af hálfu Ísafjarðarbæjar, óskaði kærandi og síðar umboðsmaður hans eftir upplýsingum frá bænum um styrki til greiðslu fasteignagjalda af húseignum á Flateyri og um uppkaup húseigna þar, á grundvelli reglugerðar nr. 533/1997. Umboðsmaður kæranda ítrekaði beiðni þessa efnis með bréfi til bæjarins, dagsettu 16. janúar sl.

Með bréfi, dagsettu 9. febrúar sl., kærði umboðsmaður kæranda meðferð Ísafjarðarbæjar á beiðninni. Var kæran kynnt bænum með bréfi, dagsettu 11. febrúar sl., og óskað eftir því að bæjaryfirvöld gerðu úrskurðarnefnd grein fyrir því, í síðasta lagi hinn 20. febrúar sl., hvort þau hefðu orðið við beiðni kæranda. Jafnframt var bænum tilkynnt að nefndin myndi að öðrum kosti líta svo á að bærinn hefði synjað kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Í því tilviki var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu afhent sem trúnaðarmál þau gögn, er kæran lyti að, og var bænum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests.

Hinn 19. febrúar sl. barst úrskurðarnefnd í símbréfi ljósrit af bréfi [...] hrl., f.h. Ísafjarðarbæjar, til umboðsmanns kæranda, dagsettu sama dag, þar sem fram kemur að bærinn hafi afhent umbeðin gögn. Voru gögnin talin upp í alls 26 töluliðum.

Með bréfi, dagsettu 20. febrúar sl., veitti úrskurðarnefnd umboðsmanni kæranda frest til 2. mars sl. til að gera nefndinni grein fyrir því hvort hann kysi að halda meðferð málsins áfram. Ef svo væri var farið fram á að skýrt kæmi fram að hvaða leyti hann teldi að beiðni kæranda hefði verið synjað. Í bréfi til nefndarinnar, dagsettu 25. febrúar sl., kom fram að umboðsmaður kæranda taldi upplýsingar þær, er Ísafjarðarbær hafði þá látið í té, ekki fullnægja beiðni umbjóðanda síns að því leyti að enn hefði ekki verið veittur aðgangur að reglum um úthlutun styrkja til greiðslu fasteignagjalda vegna áranna 1995, 1996 og 1997 og tillögum sem unnið hefði verið eftir við uppkaup húseigna á Flateyri á grundvelli reglugerðar nr. 533/1997. Ennfremur vantaði samþykktir bæjarráðs og bæjarstjórnar og önnur skjöl sem hefðu að geyma ákvarðanir um uppkaup húseigna á Flateyri samkvæmt sömu reglugerð.
Í umsögn Ísafjarðarbæjar, dagsettri 24. mars sl., kemur fram að bærinn telur kæranda þegar hafa fengið aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um veitingu styrks til greiðslu fasteignagjalda vegna [B]veg á Flateyri í þeim gögnum er afhent voru með bréfi til umboðsmanns hans, dagsettu 19. febrúar sl. Sérstakar reglur um úthlutun styrkjanna væru ekki til. Jafnframt hafi kærandi fengið aðgang að upplýsingum um það hvernig staðið hefði verið að ákvörðunum um uppkaup húseigna á Flateyri. Um það atriði er vísað til bréfs bæjarins til félagsmálaráðuneytisins, dagsetts 2. júlí 1997. Í umsögninni er þess loks farið á leit að úrskurðarnefnd leggi á það mat að hve miklu leyti kærandi skuli fá aðgang að matsgerð þeirri er fylgdi umsögninni.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með skírskotun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerði frekari grein fyrir röksemdum þeirra í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.-6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, þ. á m. er þeim ekki skylt, á grundvelli laganna, að upplýsa hverjir hafi þegið styrki frá þeim eða hvaða eignir hafi verið keyptar á þeirra vegum.
Sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Ísafjarðarbær hefur lýst því yfir að kærandi hafi fengið aðgang að öllum gögnum í vörslum bæjarins sem almennt séð varða úthlutun styrkja til greiðslu fasteignagjalda á Flateyri vegna gjaldáranna 1995, 1996 og 1997. Ennfremur hafi kæranda verið veittur aðgangur að þeim gögnum sem hafi að geyma tillögur um uppkaup húseigna á Flateyri samkvæmt reglugerð nr. 533/1997, svo og samþykktir eða aðrar almennar ákvarðanir bæjarráðs og bæjarstjórnar þar að lútandi. Loks hafi kæranda verið afhent gögn um úthlutun styrks til [A] sérstaklega og ákvörðun um uppkaup á húseign hennar, að undanskilinni matsgerð þeirri sem fylgdi umsögn bæjarins til úrskurðarnefndar.

Nefndin hefur ekki ástæðu til að draga fyrrgreindar yfirlýsingar Ísafjarðarbæjar í efa. Með vísun til 14. gr. upplýsingalaga er það álit hennar að eina ágreiningsefnið, sem hún sé bær til að skera úr um, eins og mál þetta er vaxið, sé hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að umræddri matsgerð á grundvelli laganna. Þar eð ekki er í ljós leitt að kærandi eða umboðsmaður hans hafi vitað um tilvist þess skjals er ekki rétt, með hliðsjón af beiðni kæranda og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, að einskorða þá úrlausn við upplýsingar um húseignina [B]veg 2, heldur verður tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi eftir atvikum rétt á að fá aðgang að skjalinu í heild.

2.
Í matsgerðinni er að finna mat tveggja verkfræðinga á skemmdum á fimm húseignum á Flateyri af völdum snjóflóðsins sem féll á byggðarlagið 26. október 1996. Þar eru veitt svör við eftirgreindum spurningum:

1. Hverjar eru skemmdirnar á húsunum?

2. Hvað kostar að bæta þær eða gera við þær?

3. Hver er mismunur á viðgerðarkostnaði og þeim bótum sem Viðlagatrygging hefur þegar greitt eigendum?

4. Hvert er líklegt staðgreiðslumarkaðsverð húsanna?


Markmiðið með matsgerðinni var að meta verðmæti húseignanna til fjár til þess að unnt væri, á grundvelli hennar, að ákvarða greiðslur til húseigenda, umfram þær bætur sem þeir höfðu fengið greiddar samkvæmt lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands. Gert er ráð fyrir að greiðslur þessar séu inntar af hendi af hlutaðeigandi sveitarfélagi, í þessu tilviki Ísafjarðarbæ, fyrir framlög úr ofanflóðasjóði, sbr. 13. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Í reglugerð nr. 533/1997, þar sem veitt er heimild til tímabundinna lána úr Byggingarsjóði ríkisins til sveitarfélaga í þessu skyni, er slík lánveiting háð því skilyrði að umhverfisráðherra hafi staðfest skuldbindingu ofanflóðasjóðs gagnvart sveitarfélaginu þessa efnis.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er m.a. tekið fram, til skýringar á því hvaða fjárhagsmálefni einstaklinga séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt, að óheimilt sé að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.

Með hliðsjón af síðastgreindu orðalagi hefur úrskurðarnefnd talið að komi ríki eða sveitarfélög fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar við kaup og sölu fasteigna séu upplýsingar um kaup- eða söluverð þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Í því máli, sem hér er til úrlausnar, verður hins vegar ekki litið svo á að Ísafjarðarbær og ofanflóðasjóður hafi komið fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar þegar tekin var ákvörðun um greiðslur til einstakra húseigenda á Flateyri samkvæmt lögum nr. 49/1997. Með vísun til 13. gr., sbr. 11. gr. í lögunum, sbr. og lög nr. 55/1992, er ljóst að hér er um að ræða óendurkræfar greiðslur af hálfu hins opinbera til eigenda þeirra húseigna, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum snjóflóðs, umfram venjulegar vátryggingarbætur fyrir tjónið.

Samkvæmt því er það niðurstaða úrskurðarnefndar að umrædd matsgerð hafi ekki að geyma upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Ísafjarðarbæ er því skylt að veita kæranda aðgang að henni í heild sinni.

Úrskurðarorð:
Ísafjarðarbæ er skylt að veita kæranda, [...], aðgang að matsgerð [...] og [...], dagsettri 27. maí 1997.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta