Hoppa yfir valmynd
11. júlí 1998 Forsætisráðuneytið

51/1998 Úrskurður frá 11. júlí 1998 í málinu nr. A-51/1998

Hinn 11. júlí 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-51/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 16. júní sl., kærði [...] synjun bankaráðs Landsbanka Íslands hf. dagsettri sama dag um að veita honum aðgang að tilteknum kafla í skýrslu [A] dagsettri 27. maí sl.

Með bréfi, dagsettu 22. júní sl. var kæran kynnt bankaráðinu og frestur veittur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 12.00 hinn 30. júní sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrði látið í té afrit af skýrslunni í heild sem trúnaðarmál. Frestur þessi var framlengdur að ósk lögmanns bankaráðsins og barst nefndinni, þann 5. júlí sl., umsögn [A] hrl. f.h. þess, dagsett 3. júlí sl. ásamt skýrslunni eins og hún hafði verið send kæranda.

Eiríkur Tómasson formaður og Elín Hirst viku sæti í máli þessu. Í þeirra stað tóku varamennirnir Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir sæti í nefndinni.


Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að með bréfi, dagsettu 16. júní sl., fór kærandi þess á leit við bankaráð Landsbanka Íslands hf. að honum yrði látinn í té brottfelldur kafli í skýrslu [A] hrl., dagsettri 27. maí 1998, sem unnin var fyrir bankaráðið og birt hafði verið að öðru leyti. Í kærunni kemur fram að á bankaráðsfundi, sem haldinn var 11. júní sl. hafi verið ákveðið að fella kaflann úr skýrslunni með vísan til 43. gr. laga nr. 113/1996. Með bréfi [A] hrl. f.h. bankaráðsins, dagsettu 16. júní sl., til kæranda var erindinu synjað þar sem tekið var fram að upplýsingalög nr. 50/1996 ættu ekki við um tilvikið.

Í umsögn sama aðila til úrskurðarnefndar, dagsettri 3. júlí sl., var þessi afstaða bankaráðs ítrekuð. Er þar vísað til 1. gr. upplýsingalaga og talið að greinin eigi ekki við þar sem rekstur viðskiptabanka verði ekki undir nokkrum kringumstæðum talinn stjórnsýsla. Eignarhald eða rekstrarform banka geti þar engu máli skipt. Í þeim kafla sem felldur hafi verið úr skýrslunni, þegar hún var birt opinberlega, hafi verið að finna efni sem þagnarskylt væri, skv. 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996. Þau lög gildi um banka án tillits til eignarhalds eða rekstrarforms. Því beri að vísa frá kærunni. Þá er talið óskylt og raunar óheimilt að verða við ósk nefndarinnar um að fá í hendur afrit af skýrslunni óstyttri.


Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, er ákvæði þetta skýrt svo að lögin gildi almennt "ekki um einkaaðila, en undir hugtakið "einkaaðilar" falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu". Frá meginreglu 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga er þó gerð sú undantekning í 2. mgr. sömu greinar, að gildissvið laganna nái einnig til einkaaðila "að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna".

Hinn 1. janúar 1998 tók Landsbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands, sbr. 3. gr. laga nr. 50 /1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Hlutverk Landsbanka Íslands hf. er að hafa á hendi þá starfsemi sem viðskiptabönkum er heimil samkvæmt lögum. Allt hlutafé Landsbanka Íslands hf. er í eigu ríkissjóðs, sbr. 5. gr. laganna, og fer viðskiptaráðherra með eignarhlut ríkisins í bankanum.
Samkvæmt framansögðu taka upplýsingalög hvorki til Landsbanka Íslands hf. sem einkaaðila né heldur til þeirrar starfsemi, sem bankinn hefur með höndum og lýst er hér að framan, en beiðni kæranda lýtur að þeirri starfsemi. Umrædd skýrsla [A] hrl. er unnin að beiðni bankaráðs Landsbanka Íslands hf. og varðar réttarstöðu fyrrverandi bankastjóra hlutafélagsins. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa framkominni kæru á hendur fyrirtækinu frá úrskurðarnefnd.

Úrskurðarorð:
Kæru [...] á hendur bankaráði Landsbanka Íslands hf. er vísað frá úrskurðarnefnd.

Valtýr Sigurðsson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta