Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 1998 Forsætisráðuneytið

55/1998 Úrskurður frá 27. ágúst 1998 í málinu nr. A-55/1998

Hinn 27. ágúst 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-55/1998:


Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 11. ágúst sl., kærði [...] hrl., f.h. [...] hf., synjun Menningarsjóðs útvarpsstöðva, dagsetta 5. ágúst sl., um að veita fyrirtækinu tilteknar upplýsingar um greiðslur í sjóðinn og styrkveitingar úr honum á tímabilinu 1992-1996. Kæran er einskorðuð við það tímabil þótt upphafleg beiðni kæranda um upplýsingar hafi tekið til áranna 1992-1998.

Með bréfi, dagsettu 14. ágúst sl., var kæran kynnt sjóðnum og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 21. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn sjóðsins kæmi fram á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar, þ. á m. hvort þær hefðu verið teknar saman í eitt eða fleiri skjöl eða þeim safnað saman á annan hátt. Ef svo væri, var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum innan sama frests. Umsögn sjóðsins barst innan tilskilins frests og fylgdu henni engin gögn.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að með bréfi til Menningarsjóðs útvarpsstöðva, dagsettu 18. júní sl., óskaði kærandi m.a. eftir að fá eftirgreindar upplýsingar:

1) Hverjar hafa greiðslur verið í sjóðinn á undanförnum árum og hvert er hlutfall greiðslanna milli gjaldenda? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti fyrir árabilið 1992 til 1998.

2) Hvernig hafa styrkir fallið á sama árabili til þeirra er greitt hafa í sjóðinn og hvert hefur hlutfall þeirra verið af innborgun hvers gjaldanda ár hvert?

3) Á sama hátt er óskað eftir greinargerð sjóðsins um greiðslur til sjálfstæðra aðila sem þegið hafa styrki úr sjóðnum með samningsvilyrðum frá sjónvarpsstöðvum. Hvert er hlutfall styrktarþega með vilyrði frá sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvum af inngreiðslum ár hvert?"

Með bréfi til kæranda, dagsettu 5. ágúst sl., taldi stjórn sjóðsins sig ekki geta veitt svör við framangreindum fyrirspurnum án þess að veita um leið upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni gjaldenda í sjóðinn. Á þeim grundvelli var erindinu synjað. Í umsögn sjóðsins til úrskurðarnefndar, dagsettri 21. ágúst sl., eru þessi sjónarmið áréttuð og til þess vísað að gjald í sjóðinn nemi 10% af auglýsingatekjum útvarpsstöðva skv. 11. gr. útvarpslaga nr. 68/1985. Upplýsingar um menningarsjóðsgjald útvarpsstöðva myndi því gefa glögga mynd af auglýsingatekjum þeirra.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dagsettri 11. ágúst sl., vísar umboðsmaður kæranda framangreindum röksemdum á bug. Heldur hann því fram að auglýsingatekjur séu ýmist stærsta eða næststærsta tekjulind útvarpsstöðva hér á landi. Tekjur stöðvanna beri að sundurgreina eða skýra í ársreikningum þeirra, eins og tekjur annarra aðila, sem lög nr. 144/1994, um ársreikninga, taka til, sbr. 46. gr. þeirra laga. Samþykkta ársreikninga beri síðan að birta samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna og skuli félagaskrá veita aðgang að þeim gögnum sem skilaskyld eru.

Í umsögn sjóðsins til úrskurðarnefndar, dagsettri 21. ágúst sl., segir ennfremur að umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið teknar saman hjá sjóðnum. Nánar aðspurður hefur fyrirsvarsmaður sjóðsins upplýst að engin gögn, sem fyrir hendi séu í skjalasafni sjóðsins, veiti sem slík svör við þeim fyrirspurnum, sem kærandi hefur borið fram, ef frá eru taldar fréttatilkynningar um styrkveitingar úr sjóðnum. Ekkert sé því til fyrirstöðu að kærandi fái aðgang að þeim í heild sinni enda hafi þær verið birtar opinberlega. Ef svara ætti öðrum fyrirspurnum hans þyrfti hins vegar að keyra saman upplýsingar úr bókhaldi sjóðsins, skjalasafni hans og sérstöku umsóknarkerfi, en svo hafi ekki verið gert.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Skýra verður þetta ákvæði svo að stjórnvöldum sé ekki skylt, á grundvelli upplýsingalaga, að taka sérstaklega saman upplýsingar, sem óskað er eftir, heldur beri þeim einungis að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál.
Af hálfu Menningarsjóðs útvarpsstöðva hefur því verið lýst yfir að upplýsingar þær, sem kærandi hefur óskað eftir, sé ekki að finna í samanteknu formi í skjölum eða sambærilegum gögnum sjóðsins, ef frá eru taldar fréttatilkynningar um styrkveitingar úr sjóðnum. Þannig séu upplýsingar um greiðslur í sjóðinn t.d. geymdar í bókhaldi hans. Ef svara ætti einstökum fyrirspurnum kæranda þyrfti að keyra saman bókhald sjóðsins, skjalasafn hans og sérstakt umsóknarkerfi.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Með vísun til þess, sem að framan greinir, er það álit úrskurðarnefndar að lög nr. 121/1989 taki til aðgangs að þeim upplýsingum, sem kærandi hefur óskað eftir, öðrum en upplýsingum um styrkveitingar úr Menningarsjóði útvarpsstöðva.

Upplýst er sem fyrr segir að fréttatilkynningar um styrkveitingar úr sjóðnum á tímabilinu 1992-1996 séu fyrirliggjandi hjá honum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga ber að veita kæranda aðgang að þeim enda hafa þær áður verið birtar opinberlega. Að öðru leyti verður samkvæmt framansögðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:
Menningarsjóði útvarpsstöðva ber að veita kæranda, [...] hf., aðgang að fréttatilkynningum um styrkveitingar úr sjóðnum á tímabilinu 1992-1996.
Kærunni er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta