Hoppa yfir valmynd
25. september 1998 Forsætisráðuneytið

58/1998 Úrskurður frá 25. september 1998 í málinu nr. A-58/1998

Hinn 25. september 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-58/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 26. ágúst sl., kærði [...] hf. synjun Samkeppnisstofnunar, dagsetta 29. júlí sl., um að veita fyrirtækinu aðgang að öllum gögnum um afgreiðslu samkeppnisráðs á erindi [A] hrl. um málefni [B] ehf.
Með bréfi, dagsettu 26. ágúst sl., var kæran kynnt Samkeppnisstofnun og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 9. september sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, er kæran laut að, innan sama frests. Umsögn Samkeppnisstofnunar barst innan tilskilins frests ásamt umbeðnum gögnum.
Elín Hirst vék sæti í máli þessu. Í hennar stað tók Ólafur E. Friðriksson varamaður þátt í meðferð og úrskurði máls þessa.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess að [A] hrl. kynnti samkeppnisráði fyrirhugaðar breytingar á eignarhaldi á hlutum í [C] hf., [D] hf., [E] hf. og [F] ehf. með bréfi,dagsettu 19. júní sl., og óskaði á grundvelli 1. mgr. 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 eftir áliti ráðsins á því, hvort það teldi breytingarnar fara í bága við 1. mgr. 18. gr. s.l. Með bréfi, dagsettu 2. júlí 1998, óskaði Samkeppnisstofnun eftir tilteknum gögnum frá aðila málsins.
Beiðni þessari svaraði Samkeppnisstofnun f.h. samkeppnisráðs með bréfi, dagsettu 15. júlí sl. Í því bréfi var tiltekið að umræddar breytingar fælust í aðalatriðum í því að [B] ehf. myndi kaupa alla hluti í [F] ehf., [C] hf. og [E] hf. og 71% hluta í [D] hf. Þær breytingar hefðu því ekki áhrif á samkeppni og breytingar á eignarhaldi færu því ekki í bága við áðurnefnt lagaákvæði samkeppnislaga.

Með bréfi til Samkeppnisstofnunar, dagsettu 23. júlí sl., fór kærandi þess á leit með vísan til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að vera veittur aðgangur að gögnum framangreinds máls. Samkeppnisstofnun svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 29. júlí sl., og veitti honum aðgang að hluta af gögnum málsins, en synjaði um önnur með vísan til 5. gr. upplýsingalaga og 50. gr. samkeppnislaga. Lá þá jafnframt fyrir að aðili málsins óskaði eftir að með gögn þess yrði farið sem trúnaðarmál.

Gögn þau er Samkeppnisstofnun lét kæranda í té voru eftirtalin:

1) Útprentanir úr hlutafélagaskrá, dagsettar 6. júlí 1998, vegna [D] hf., [E] hf. og [C] hf.
2) Svarbréf Samkeppnisstofnunar f.h. samkeppnisráðs til [A] hrl., dagsett 15. júlí 1998.
3) Bréf [G], stjórnarformanns [C] hf., til Samkeppnisstofnunar, dagsett 28. júlí 1998.

Í umsögn Samkeppnisstofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 8. september sl., er áréttað það sjónarmið stofnunarinnar að gögn þau sem kærumál þetta lýtur að, varði mikilvæga viðskiptahagmuni sem óheimilt sé á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga að veita aðgang að, bæði í heild og að hluta. Sér í lagi sé á það bent, að í máli [B] ehf. hafi verið fjallað um fyrirhuguð viðskipti, sem ekki höfðu enn átt sér stað. Telur stofnunin sérstaklega brýnt að gætt sé trúnaðar þegar svo háttar til en gögn málsins geymi lýsingar á hinum fyrirhuguðu viðskiptum, ýmsar vangaveltur um þýðingu þeirra o.fl. Í því sambandi er jafnframt á það bent að 27. gr. og 2. mgr. 33. gr. samkeppnislaga veiti viðskiptaleyndarmálum fyrirtækja sérstaka vernd. Þá er á því byggt að þagnarskylduákvæði 50. gr. samkeppnislaga standi því í vegi að kæranda verði veittur aðgangur að hinum umdeildu gögnum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 18. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 kemur fram að samkeppnisráð geti ógilt samruna fyrirtækja eða yfirtöku fyrirtækis á öðru fyrirtæki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 3. mgr. sömu greinar segir að aðilar, sem hyggi á samruna eða yfirtöku, geti leitað álits samkeppnisráðs fyrir fram á því hvort samruninn eða yfirtakan brjóti gegn ákvæðum 1. mgr. Svo sem áður hefur verið rakið leitaði [A] hrl. álits Samkeppnisstofnunar á fyrirhuguðum breytingum á eignarhaldi á hlutum í tilteknum fyrirtækjum og sendi í því skyni gögn er hann taldi nauðsynleg til að þetta mat stofnunarinnar gæti farið fram. Af hálfu samkeppnisstofnunar var óskað eftir frekari gögnum og voru þau send henni. Þess var óskað að farið yrði með öll gögn fyrirspyrjanda sem trúnaðarmál.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Í niðurlagi 2. gr. upplýsingalaga segir ennfremur: "Almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum." Með gagnályktun frá þessu ákvæði geta hins vegar sérstök ákvæði laga um þagnarskyldu takmarkað þennan rétt.

Í 50. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 segir: "Þeim sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara." Ákvæði þetta er almennt þagnarskylduákvæði og sker ekki úr um meðferð gagna einstakra mála sem rekin eru á grundvelli laganna. Sömu sögu er að segja um 27. gr. og 2. mgr. 33. gr. samkeppnislaga en á sjónarmiðum þeirra greina er einnig byggt í málinu.

Samkeppnisstofnun hefur jafnframt vísað til þagnarskylduákvæðis 122. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem hefur lagagildi hér á landi skv. 2. gr. samnefndra laga nr. 2/1993, og telur að upplýsingalög eigi ekki við um úrlausnarefnið af þeim sökum, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Tilvitnað ákvæði EES-samningsins hljóðar svo: "Fulltrúar, sendimenn og sérfræðingar samningsaðila, svo og embættismenn og aðrir starfsmenn samkvæmt samningi þessum, skulu bundnir þagnarskyldu, sem helst enda þótt þeir láti af störfum, um vitneskju sem á að fara leynt í starfi þeirra, einkum upplýsingar um fyrirtæki, viðskiptatengsl þeirra og kostnaðarþætti." Í ljósi niðurlags þessa ákvæðis verður ekki séð að því sé ætlað að veita þeim hagsmunum, sem verndaðir eru af síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga, víðtækari vernd en þar greinir. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði þetta mæli á annan veg en tilgreint ákvæði upplýsingalaga, en af því leiðir að leysa ber úr máli þessu á grundvelli efnisreglna þeirra laga. Verður því að taka afstöðu til þess á grundvelli 5. gr upplýsingalaga, hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að upplýsingar þær sem kærandi fer fram á að fá aðgang að, skuli fara leynt.

Við mat á því verður til þess að líta að tilgangur með beiðni um álit samkeppnisstofnunar var að fá að vita hvort fyrirhugaður samruni ákveðinna fyrirtækja væri í bága við samkeppnislög. Af hálfu fyrirtækjanna hefur ákvörðun ekki verið til lykta leidd. Samkeppnisstofnun hefur metið það svo að öll þau gögn sem stofnunin hafði undir höndum við afgreiðslu málsins og synjað var um aðgang að varði mikilvæga viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna.
Úrskurðarnefnd hefur farið yfir gögn þessi. Líta verður svo á að gögn þessi tengist á þann hátt að þau hafi öll verið nauðsynleg til að stofnunin gæti kveðið upp úrskurð sinn. Því verði að telja gögnin í þessu sambandi í heild varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna og það að þeim sé haldið leyndum vegi þyngra en réttur almennings til að fá aðgang að þeim.

Ber því að staðfesta ákvörðun samkeppnisstofnunar.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Samkeppnisstofnunar að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta