Hoppa yfir valmynd
8. október 1998 Forsætisráðuneytið

60/1998 Úrskurður frá 8. október 1998 í málinu nr. A-60/1998

Hinn 8. október 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-60/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 22. september sl., kærði [...] þau viðbrögð Skipulagsstofnunar við beiðni félagsins, dagsettri 27. ágúst sl., sem fram koma í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 11. september sl., að neita að láta í té upplýsingar um jafnt greiddan sem áætlaðan kostnað af gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið.

Með bréfi, dagsettu 25. september sl., var kæran kynnt Skipulagsstofnun og stofnuninni gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 2. október sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn stofnunarinnar kæmi fram á hvaða formi umbeðnar upplýsingar væru varðveittar, þ. á m. hvort þær hefðu verið teknar saman í eitt eða fleiri skjöl eða þeim safnað saman á annan hátt. Ef svo væri, var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum innan sama frests. Umsögn Skipulagsstofnunar, dagsett, 29. september sl., barst sama dag og fylgdu henni engin gögn.
Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar og Elínar Hirst tóku varamennirnir Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir sæti þeirra við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi fór með bréfi til Skipulagsstofnunar, dagsettu 27. ágúst sl., fram á að fá upplýsingar um hve háa fjárhæð ráðgjafar við gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið hefðu fengið greitt fyrir verkið og hvað gert væri ráð fyrir að heildargreiðsla til þeirra næmi við verklok.

Í bréfi Skipulagsstofnunar til kæranda, dagsettu 11. september sl., kemur fram að í framhaldi af útboði hafi verið samið við fyrirtækið [A] um umrætt verk og samningur þess efnis undirritaður 30. september 1994. Í honum sé kveðið á um tiltekna fjárhæð fyrir verkið. Að auki hafi ráðgjöfum verið greitt sérstaklega fyrir vinnu utan upphaflegs samnings vegna aukins umfangs og breyttra forsendna frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í honum.
Í umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar, dagsettri 29. september sl., segir að stofnunin hafi "ekki tekið saman gögn um hversu háar fjárhæðir er að ræða, en upplýsingar um það er að finna í bókhaldi í tölvukerfi stofnunarinnar".

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Skýra verður þetta ákvæði svo að stjórnvöldum sé ekki skylt, á grundvelli upplýsingalaga, að taka sérstaklega saman upplýsingar, sem óskað er eftir, heldur beri þeim einungis að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál.
Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur því verið lýst yfir að upplýsingar þær, sem kærandi hefur óskað eftir, sé að finna í bókhaldi stofnunarinnar í tölvukerfi hennar. Upplýsingarnar hafi ekki verið teknar saman þannig að þær séu fyrir hendi í einu afmörkuðu skjali eða sambærilegu gagni, sbr. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Með vísun til þess, sem að framan greinir, er það álit úrskurðarnefndar að síðastnefnd lög taki til aðgangs að þeim upplýsingum, sem kærandi hefur óskað eftir, en ekki upplýsingalög. Þar af leiðandi verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kæru [...] á hendur Skipulagsstofnun er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta