Hoppa yfir valmynd
18. október 1998 Forsætisráðuneytið

61/1998 Úrskurður frá 18. október 1998 í málinu nr. A-61/1998

Hinn 19. október 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-61/1998:


Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 1. október sl., kærði [...], til heimilis að [...], synjun landbúnaðarráðuneytisins, dagsetta 10. september sl., um að veita honum aðgang að skýrslu ríkisendurskoðunar um [B] hf. og önnur gögn, er hana varða.

Með bréfi, dagsettu 7. október sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 14. október sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði látið té sem trúnaðarmál afrit skýrslunnar og önnur gögn, er kæran laut að, innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins barst innan tilskilins frests ásamt eftirtöldum gögnum:

1. Skýrslu fyrirtækjaþjónustu Íslandsbanka hf., dagsettri 3. júlí 1998, um hlutafjáraukningu og sölu ríkissjóðs á hlutabréfum í [B] hf.

2. Skýrslu ríkisendurskoðunar um félagið, dagsettri 14. ágúst 1998, í tilefni af hlutafjáraukningu og sölu hlutabréfa ríkissjóðs í því.

3. Áliti [A], dagsettu 28. ágúst 1998.

4. Minnisblaði frá starfsmönnum landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 30. ágúst 1998, til ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanns ráðherra um skýrslu ríkisendurskoðunar.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi fór með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 1. september sl., fram á að fá afhenta skýrslu um málefni [B] hf., sem unnin hefði verið af ríkisendurskoðun í tilefni af fyrirhugaðri sölu á fyrirtækinu. Jafnframt óskaði hann eftir að fá önnur gögn og bréf er varða athugun stofnunarinnar á fyrirtækinu.

Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 10. september sl., var beiðni kæranda synjað á þeim grundvelli að upplýsingalög nr. 50/1996 tækju skv. 1. gr. þeirra ekki til [B] hf. jafnvel þótt félagið sé að mestu leyti í eigu ríkisins. Jafnframt var vísað til þess að stjórn [B] hf. teldi skýrsluna hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar um rekstur félagsins og væri ráðherra af þeim sökum beinlínis óheimilt að veita aðgang að henni með hliðsjón af 5. gr. upplýsingalaga.

Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettri 13. október sl., er áréttað að afstaða ráðuneytisins byggist á því að gildissvið upplýsingalaga taki ekki til þeirra gagna sem kæran lýtur að. Þá lýsir ráðuneytið þeirri skoðun sinni að því sé óheimilt, með vísun til lagaákvæða um þagnarskyldu, að veita aðgang að hinum umbeðnu gögnum með tilliti til fjárhags- og viðskiptahagsmuna [B] hf. Stjórn félagsins hafi og verið heitið fullum trúnaði þegar hún veitti ríkisendurskoðun upplýsingar vegna skýrslugerðar stofnunarinnar. Ráðuneytið tekur fram að í umræddum gögnum sé að finna upplýsingar um þróun í framleiðslu [B] hf., viðskiptahætti þess og markaðssetningu, svo og verðlagningu á afurðum þess. Almenn vitneskja um þessi atriði sé til þess fallin að skaða viðskiptahagsmuni félagsins gagnvart keppinautum þess og viðsemjendum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði m.a. skýrt svo að lögin gildi almennt "ekki um einkaaðila, en undir hugtakið einkaaðilar falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu". Samkvæmt þessu telst [B] hf. vera einkaaðili í skilningi upplýsingalaga þótt félagið sé að mestu leyti í eigu ríkisins.

Í 5. gr. upplýsingalaga er svo fyrir mælt: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga segir um niðurlag þessa ákvæðis að með því sé m.a. átt við "upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni" fyrirtækja og annarra lögaðila.
Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér skýrslu ríkisendurskoðunar um [B] hf. og önnur gögn sem hana varða og landbúnaðarráðuneytið hefur látið nefndinni í té. Það er álit úrskurðarnefndar að gögnin hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins, svo sem um framleiðslu og verðlagningu á afurðum þess, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Af þeim sökum ber að staðfesta þá ákvörðun ráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að upplýsingunum.


Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins að synja kæranda, [...], um aðgang að skýrslu ríkisendurskoðunar um [B] hf. og önnur gögn er hana varða.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta