Hoppa yfir valmynd
19. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland aðili að netvarnarsetri Atlantshafsbandalagsins

Ísland varð fyrr í þessari viku formlegur aðili að netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins (NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence) í Tallin í Eistlandi. Fáni Íslands var dreginn að húni við hátíðlega athöfn 16. maí þar sem Harald Aspelund, sendiherra Íslands gagnvart Eistlandi, flutti ávarp.

Setrið vinnur að fræðslu, útgáfu, rannsóknum og greiningu á sviði netvarna og netöryggis. Lykilþættir í starfseminni er að þjálfa sérfræðinga á sviði netvarna og að stýra netvarnaræfingum á borð við Locked Shields sem íslenskir fulltrúar tóku nýlega þátt í og Cyber Coalition æfingunni sem haldin verður í haust.

„Með aðildinni styrkjum við samráð og samstarf um netöryggismál við okkar helstu samstarfsríki sem skilar sér í aukinni þekkingu og getu. Við höfum með markvissum hætti unnið að því að efla þátttöku í samstarfi um fjölþáttaógnir meðal annars með því að senda út íslenska sérfræðinga til starfa hjá Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal til netöryggissetursins í Tallinn og öndvegissetursins um fjölþáttaógnir í Helsinki. Nýleg dæmi sanna að góð þekking og öflugar varnir á þessu sviði skipta sköpum þegar á reynir. Þessi þátttaka okkar er hluti af þeirri viðleitni Íslands að leggja það sem við getum af mörkum til sameiginlegra verkefna Atlantshafsbandalagsins, ekki síst á þeim sviðum þar sem stærð eða hefðbundin hernaðargeta skipta ekki höfuðmáli,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Netöryggissetrið var sett á fót árið 2008 með það að markmiði að efla getu ríkja til að mæta áskorunum á sviði netvarna og netöryggis. Alls eiga 39 ríki aðild að setrinu, en auk aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins eiga náin samstarfsríki þess einnig aðild að setrinu og taka þátt í vinnu þess.

Hjá setrinu starfar íslenskur sérfræðingur við samstarfsverkefni og upplýsingamiðlun. Aðildin að setrinu er ein af aðgerðum í netaðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda sem gefin var út samhliða nýrri netöryggisstefnu Íslands sem kom út á síðasta ári. Frekari upplýsingar um starf öndvegisseturins í Tallinn er að finna á vefsíðu þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta