Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nýr stýrihópur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Dómsmálaráðherra hefur skipað að nýju stýrihóp um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með fulltrúum fleiri aðila sem málið snertir. Hlutverk stýrihópsins er ráðgjöf og stefnumótun í aðgerðum á þessu sviði.

Stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka var fyrst skipaður 2015 og voru verkefni hans þá afmörkuð við umbætur í tengslum við tilmæli Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegs vinnuhóps á sviði varna gegn peningaþvætti. Þörf var talin á aðkomu fleiri aðila og því er gert ráð fyrir að í stýrihópnum eigi nú einnig sæti auk dómsmálaráðuneytisins: fjármála- og efnahagsráðuneytið, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, Peningaþvættisskrifstofa Héraðssaksóknara, miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, eftirlitsnefnd fasteignasala, endurskoðendaráð, Tollstjóri, Skattrannsóknarstjóri, Neytendastofa og greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Aðgerðir er lúta að vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru víðtækar og margir aðilar innan stjórnkerfisins bera ábyrgð á öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem að málflokknum snúa. Mikilvægt er að samstilla aðgerðir stjórnvalda og tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir málaflokkinn. Lögð er áhersla á að með skipan stýrihóps er ekki verið að taka yfir hlutverk og ábyrgð einstakra stjórnvalda í málaflokknum heldur að samstilla aðgerðir.

Hlutverk stýrihópsins er eftirfarandi:

1.   Að sinna stefnumótun, tryggja yfirsýn, samvinnu og samstilla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnunar hryðjuverka.

2.   Tryggja eftirfylgni og úrbætur vegna athugasemda FATF (Financial Action Task Force).

3.   Stuðla að samræmdu eftirliti á grundvelli viðeigandi lagaákvæða.

4.   Að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í afstöðu til mála hjá FATF.

5.   Taka þátt í innleiðingu og breytingum á regluverki sem snýr að vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gerð áhættumats.

6.   Stuðla að fræðslu og aukinni þekkingu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Stýrihópurinn er þannig skipaður:

Hildur Dungal, lögfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af dómsmálaráðherra,

Erna Hjaltested, lögfræðingur, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu,

Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,

Þorvaldur Hrafn Yngvason, sérfræðingur, tilnefndur af utanríkisráðuneytinu,

Áslaug Jósepsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Seðlabanka Íslands,

Hrannar Þór Arason, lögreglufulltrúi, tilnefndur af embætti Ríkislögreglustjóra,

Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar, tilnefndur af embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,

Guðrún Árnadóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, tilnefnd af Peningaþvættisskrifstofu Héraðssaksóknara,

Björn Þorvaldsson, saksóknari, tilnefndur af embætti Héraðssaksóknara,

Helga Rut Eysteinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu,

Theodóra Emilsdóttir, forstöðumaður lögfræðisviðs, tilnefnd af Skattrannsóknarstjóra,

Arnar Halldórsson, lögfræðingur, tilnefndur af Neytendastofu,

Gísli Rúnar Gíslason, deildarstjóri, tilnefndur af embætti Tollstjóra,

Hildur Árnadóttir, endurskoðandi, tilnefnd af Endurskoðendaráði,

Kristín Ólafsdóttir, héraðsdómslögmaður, tilnefnd af Eftirlitsnefnd fasteignasala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta