Ríkisreikningur 2009
Fréttatilkynning nr. 16/2010
Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2009 er nú lokið. Niðurstöður sýna að erfiðar en nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum á síðasta ári eru að bera árangur. Markmið voru sett í ríkisfjármálum og þeim fylgt eftir með stífum niðurskurðaraðgerðum, lækkun ríkisútgjalda, skipulagsbreytingum, hagræðingu og aukinni tekjuöflun í ríkissjóð. Ríkisreikningur er innan markmiðssetningar hins opinbera í fjármálum og skýr merki á lofti um að sígandi bati er að nást með betri afkomu ríkissjóðs en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir að um verulegan halla hafi verið að ræða.
Helstu niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 2009
Í milljónum króna
|
Reikningur 2009
|
Reikningur 2008
|
Breyting, fjárhæð
|
Breyting, %
|
Fjárlög / fjár-aukalög 2009
|
---|---|---|---|---|---|
Tekjur samtals |
439.516
|
471.883
|
-32.368
|
-6,9
|
417.286
|
Gjöld samtals |
578.780
|
687.862
|
-109.082
|
-15,9
|
568.620
|
Tekjur umfram gjöld |
-139.264
|
-215.979
|
76.714
|
.
|
-151.334
|
Handbært fé frá rekstri |
-141.796
|
15.745
|
-157.541
|
.
|
-143.422
|
Lánsfjárjöfnuður |
-157.384
|
-397.999
|
240.615
|
.
|
-367.732
|
Afkoma ríkissjóðs
Rekstrarreikningur sýnir 139 milljarða króna tekjuhalla eða 32% af tekjum ársins og 9,3% af landsframleiðslu. Áætlanir fyrir árið 2009 gerðu ráð fyrir að tekjujöfnuður yrði neikvæður um 173 milljarða króna og var því raunútkoman 34 milljörðum króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þessi munur skýrist með því að tekjurnar voru 22 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir, og gjöldin voru 12 milljörðum króna lægri.
Tekjur ríkissjóðs
Tekjur ársins urðu alls tæpir 440 milljarðar króna. Tekjuáætlun fyrir árið 2009 gerði hins vegar ráð fyrir tekjum að upphæð rúmum 417 milljörðum króna. Tekjur ríkissjóðs eru því mun hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Nánast allir tekjuþættir eru hærri en búist hafði verið við.
Gjöld ríkissjóðs
Gjöld ríkissjóðs reyndust um 579 milljarðar króna. Árið 2008 námu þau 688 milljörðum króna. Heildarútgjaldaheimildir hljóðuðu upp á 590 milljarða króna og raunútgjöld því tæpum 12 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir.
Stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs á árinu 2009 eru útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og velferðarmála og menntamála. Þessir þættir vega rúmlega 51%. Gjöld til almannatrygginga og velferðarmála námu 135 milljörðum króna eða 23% af gjöldum ríkissjóðs. Útgjöld til heilbrigðismála námu 117 milljörðum króna eða 20% af gjöldum ríkissjóðs og voru tæpum 3 miljörðum yfir fjárheimildum ársins. Gjöld til menntamála námu 46 milljörðum króna eða 8% af gjöldum ríkissjóðs.
Útgjöld til efnahags- og atvinnumála námu 69 milljörðum króna eða 12% af heildargjöldum ríkissjóðs en þar vega þyngst 26 milljarða króna framlög til vegasamgangna. Gjöld vegna óreglulegra útgjalda námu 36 milljörðum króna eða 6% af gjöldum ríkissjóðs. Gjöld til annarra málaflokka námu samtals 16% af gjöldum ríkissjóðs. Þar má veigamikil útgjöld framlög til menningar-, íþrótta og trúmála og löggæslu – og öryggsimála.
Fjármagnskostnaður ríkissjóðs nam 84 milljörðum króna á árinu 2009, eða um 14,5% af gjöldum ríkissjóðs, sem er veruleg aukning frá fyrra ári, en er rúmum 5 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum.
Fjármagnskostnaður
Lánsfjárþörf reyndist mun minni en lagt var upp með eða 11% af landsframleiðslu samanborið við 25% í áætlun. Það skýrist að hluta af samkomulagi ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands um kaup bankans á veðlána- og verðbréfakröfum fyrir 134 milljarða króna og mun minni fjármagnsþörf vegna endurfjármögnunar. Greiðslustaða ríkissjóðs er sterk og batnaði um 42 milljarða króna á árinu 2009. Í árslok var handbært fé ríkissjóðs 227 milljarðar króna.
Um Ríkisreikning 2009
Reikningur fyrir árið 2009 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélag sem eru að hálfu eða meiru í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2009 verður aðgengilegur á veraldarvefnum á heimasíðu Fjársýslu ríkisins;http://www.fjs.is/. þar sem hægt verður að á nánari upplýsingar.
Reykjavík, 19.júlí 2010
Nánari upplýsingar veitir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, [email protected]