Ræða stjórnsýsluhindranir og framtíð erfðalindasamstarfs á Norðurlöndum
Katrín Jakobsdóttir samstarfsráðherra situr fund samstarfsráðherra Norðurlanda í Þórshöfn á Færeyjum á morgun, þriðjudaginn 7. september.
Á fundinum fer fram lokaumræða samstarfsráðherranna um tillögu að fjárhagsáætlun fyrir Norrænu ráðherranefndina 2011. Samkvæmt tillögunni yrði fjárhagsáætlun næsta árs 896,355 milljónir danskra króna og koma framlög til hennar beint frá norrænu ríkjunum.
Einnig mun fara fram umræða um aðgerðir til þess að ryðja úr vegi stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum, en vonir eru bundnar við að aukið lagasamstarf og lagasamræming innan landanna geti komið í veg fyrir að nýjar hindranir verði til. Meðal þess sem nú er til skoðunar hjá nefnd á vegum ráðherranefndarinnar er gjaldtaka bankanna við millifærslur milli landanna, notkun kennitalna í netviðskiptum og sérstakt færslugjald á erlend kreditkort sem tíðkast í Danmörku.
Á fundinum verða einnig rædd málefni norræna erfðalindabankans NordGen sem stofnaður var í byrjun árs 2008. NordGen fæst við rannsóknir á sjálfbærri notkun erfðalinda á Norðurlöndum en þær skipta miklu fyrir fæðuöryggi í framtíðinni. Rætt verður um framtíð þessa mikilvæga samstarfs og hvernig megi renna traustari stoðum undir það.
Loks má nefna að fyrirhugað þing Norðurlandaráðs sem að þessu sinni verður haldið í Reykjavík er á dagskrá fundarins. Danir fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár, en á þinginu munu Finnar kynna formennskuáætlun sína sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2011.
Nánari upplýsingar um fundinn veitir Katrín Jakobsdóttir, gsm: 896-3962 eftir kl. 10.00 að íslenskum tíma.