Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hátt í 5000 nemendur í 6. bekk fá afhentar nýjar Microbit smátölvur

Mennta- og menningarmálaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins afhentu fyrstu Microbit smátölvurnar til nemenda í 6. bekk Hólabrekkuskóla og Austurbæjarskóla fyrr í dag en tölvurnar eru notaðar til að kenna krökkum að forrita. Þetta er annað árið sem Microbit smátölvunum er dreift til nemenda og að þessu sinni fá allir 6. bekkingar í grunnskólum landsins tölvur eða hátt í 5.000 nemendur.

Microbit er verkefni sem hleypt var af stokkunum haustið 2016 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Samtökum iðnaðarins, Menntamálastofnun, KrakkaRúv og fjölda fyrirtækja á Íslandi. Markmið verkefnisins er að efla þekkingu og áhuga ungs fólks á Íslandi á forritun og tækni, enda ljóst að á næstu árum verður þekking á forritun og tækni forsenda flestra starfa hér á landi eins og annars staðar. Í tengslum við verkefnið verður áfram efnt til forritunarleikanna, Kóðinn 1.0, sem er hýst á vefsvæði RÚV þar sem nemendur geta glímt við vikulegar áskoranir, sent inn lausnir og sótt fræðsluefni.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra segir samstarfsverkefnið um forritunarkennsluna hafa tekist vel og vera mikilvægt innlegg í þróun grunnskólanáms. „Það má vel setja mikilvægi forritunarfærni í samhengi við annað tungumálanám og segja að allir þurfi að kunna þrjú tungumál; móðurmálið, annað tungumál og síðan forritunarmál. Nú þegar er forritunarfærni orðin mikilvæg víða í atvinnulífinu og stutt í að hún verði enn mikilvægari. Líkt og með önnur tungumál þá tekur langan tíma að læra þau til hlítar og því mikilvægt að byrja strax á unga aldri að forrita.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir dreifinguna á Microbit smátölvunni hafa farið fram úr björtustu vonum. „Það er verið að mennta starfsmenn framtíðarinnar í dag og fjórða iðnbyltingin mun hafa mikil áhrif á störf okkar á komandi árum. Við náðum í fyrra til 97% barna í 6. og 7. bekk og voru því afhentar hátt í 10 þúsund smátölvur. Það er von okkar að áhuginn verði síst minni núna enda sýna viðtökurnar að nemendur eru tilbúnir að takast á við tæknileg viðfangsefni eins og forritun. Það er eitt af áherslumálum okkar að forritun verði gerð að skyldufagi í grunnskólum landsins og er verkefnið liður í því að efla forritunarkennslu á Íslandi. Þetta verkefni sýnir glöggt hvað hægt er að ná miklum árangri þegar stjórnvöld og atvinnulífið taka höndum saman.“

Nánari upplýsingar um Microbit og forritunarleikana Kóðann 1.0 má nálgast á vefsíðu verkefnisins hjá KrakkaRúv.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta