Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt samstarfsverkefni á sviði mennta- og vinnumarkaðsmála

Guðbjartur Hannesson og Katrín Jakobsdóttir
Guðbjartur Hannesson og Katrín Jakobsdóttir

Ráðist verður í tilraunaverkefni til eins árs til að þróa leiðir í samræmi við markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aukið menntunarstig fólks á vinnumarkaði. Þetta er niðurstaða fundar mennta- og menningarmálaráðherra og velferðarráðherra með aðilum vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í dag.  

Tillögur um markmið, fyrirkomulag og framkvæmd verkefnisins voru ræddar á fundinum. Fundarmenn voru sammála um að þau samstarfsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem ráðist hefur verið í á undanförnum misserum hafi tekist vel og skilað miklum árangri. Voru þar meðal annarra nefnd verkefnin Vinnandi vegur, Nám er vinnandi vegur og verkefnið Liðsstyrkur sem er nýhafið.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 5. maí 2011 sem gefin var í tengslum við kjarasamninga, voru sett markmið og gefin fyrirheit um framkvæmd samstarfsverkefna vegna aðgerða gegn atvinnuleysi og því að hækka menntastig á vinnumarkaði. Sett voru markmið í tengslum við stefnumörkunina Ísland 2020 í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um að ná þessum hlutfalli niður í 10% fyrir þann tíma en fyrirséð er að þau markmið munu ekki nást.

Um tilraunaverkefnið

  • Tilraunaverkefnið sem fyrirhugað er að ráðast í byggist á greiningu þar sem þessar niðurstöður eru helstar:
  • Rúm 30% einstaklinga á vinnumarkaði eru einungis með grunnskólapróf.
  • Beint samhengi er milli atvinnuleysis og menntunar.
  • Skortur er í atvinnulífinu á starfsmenntuðu fólki, einkum í verk- og tæknigreinum.
  • Gera þarf þessum stóra hópi fólks kleift að efla menntun sína til að auðvelda því aðgang að nýjum störfum.

Í meðfylgjandi minnisblaði eru dregin fram eftirfarandi markmið tilraunaverkefnisins:

  • Að kanna eftirspurn meðal einstaklinga á vinnumarkaði fyrir endurmenntun.
  • Að þróa samstarf símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla og háskóla varðandi
  • endurmenntun á vinnumarkaði.
  • Að innleiða og þróa matskerfi hjá símenntunarmiðstöðvum á fyrra námi og raunfærni sem viðurkennd er af öðrum skólastigum.
  • Að meta kostnað.
  • Að þróa nýjar námsleiðir í samstarfi menntakerfis og atvinnulífs á einstökum svæðum út frá þörfum þar.
  • Að kanna þörf fyrir námsstyrki, þróa og prófa útfærslur á slíku kerfi í framhaldi af þeirri vinnu sem unnin var innan Náms er vinnandi vegur fyrir atvinnuleitendur.

Til að fá reynslu af framangreindum atriðum er miðað við að verkefnið sé þróað annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni og er lagt til að það verði annars vegar bundið við Norðvesturkjördæmi og hins vegar Breiðholt í Reykjavík.

Á fundinum í dag var ákveðið að fela stýrihópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að útfæra nánar fyrirkomulag tilraunaverkefnisins sem lagt er til að hefjist haustið 2013 og standi í eitt ár. Stýrihópurinn mun vinna kostnaðar- og framkvæmdaáætlun og sjá um framkvæmd verkefnisins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta