Tilraunaverkefni á Hrafnistu um sameiginlegt búsetuform fyrir hjón
Í kjölfar umræðu um aðskilnað hjóna þegar annað þeirra þarf á dvöl á hjúkrunarheimili að halda en hitt ekki hefur Hrafnista kynnt fyrir velferðarráðuneytinu tilraunaverkefni sem fyrirhugað er að ráðast í til að mæta slíkum aðstæðum fólks.
Í viðræðum velferðarráðuneytisins og Hrafnistu síðustu daga hefur verið rætt um leiðir til að koma til móts við aðstæður eins og hér hefur verið lýst þannig að hjón sem helst kjósa að dvelja saman þótt aðeins annað þeirra sé í þörf fyrir hjúkrunarrými. Hrafnista hefur gert tillögu að slíkri leið sem felur í sér að tengja saman leiguíbúðir við hjúkrunardeil á Hrafnistu. Er þá miðað við að hjón geti dvalið í íbúð þar sem greitt aðgengi er að hjúkrunarálmunni og nauðsynlegri umönnun og aðstoð. Það hjónanna sem er með gilt mat færni- og heilsumatsnefndar myndi þá njóta allrar þeirrar þjónustu sem fylgir dvöl í hjúkrunarrými á sömu forsendum og aðrir íbúar hjúkrunarheimilis. Hinn aðilinn myndi búa í sömu íbúð en greiða leigu og kaupa þjónustu að eigin vali. Velferðarráðuneytið hefur fallist á að Hrafnista geri tilraun með þetta fyrirkomulag.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segist ánægður með frumkvæði Hrafnistu um að finna leiðir til að mæta þörfum fólks við þessar aðstæður og að velferðarráðuneytið styðji frumkvæði að þessu tagi: „Ég tel afar æskilegt að hjúkrunarheimili sem hafa aðstæður til að sýna þennan sveigjanleika og bæta þannig lífsgæði aldraðra geri það ef tryggt er að það skerði á engan hátt þjónustu við þá aldraða sem eru með gilt mat færni- og heilsumatsnefnda um þörf fyrir hjúkrunarrými. Eins og dæmin sanna geta aðstæður fólks verið mjög mismunandi og því er mikilvægt að þróuð séu fjölbreytt búsetuform svo fólk hafi val sem mætir þörfum hvers og eins.“