Nr. 683/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 22. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 683/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23060049
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 6. júní 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 1. apríl 2022 ásamt eiginkonu sinni (hér eftir K). Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun ásamt löglærðum talsmanni sínum 1. september 2022 og til framhaldsviðtals hjá stofnuninni 17. apríl 2023. Með ákvörðunum, dags. 24. maí 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 6. júní 2023. Hinn 20. júní 2023 barst kærunefnd sameiginleg greinargerð kæranda og K ásamt fylgiskjali. Frekari gögn bárust kærunefnd frá kæranda og K dagana 7., 11. og 18. júlí og 3., 10. og 29. ágúst og 11., 27. og 28. september 2023. Þá bárust frekari gögn og athugasemdir frá kæranda dagana 5., 10. og 26. október 2023 og 10. og 14. nóvember s.á. Þá bárust kærunefnd athugasemdir frá kæranda 20. nóvember 2023.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ofsókna af hálfu meðlima Al-Shabaab samtakanna.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í sameiginlegri greinargerð kæranda og K er vísað til greinargerðar, dags. 15. september 2022, sem lögð var fram til Útlendingastofnunar hvað varðar umfjöllun um mannréttinda- og öryggisástand í Sómalíu. Sérstök athygli er vakin á árásum Al-Shabaab í Mógadisjú í október og nóvember 2022 sem hafi verið mannskæðustu árásir gegn almennum borgurum í Sómalíu sem hafi átt sér stað um nokkurra ára skeið. Samkvæmt nýjustu heimildum fari öryggisástand í Mógadisjú versnandi. Hafi óbreyttir borgarar í borginni einnig látist eða slasast í árásum Al-Shabaab í janúar og febrúar á þessu ári. Að mati kæranda takist stjórnvöldum í Sómalíu hvorki að tryggja öryggi í höfuðborg landsins né í Beledweyne.
Í greinargerð kæranda og K eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun og rannsókn Útlendingastofnunar, einkum við trúverðugleikamat. Kærandi og K telja að niðurstaða Útlendingastofnunar byggi á ómálefnalegum grunni og röngum upplýsingum. Að mati kæranda og K hafi Útlendingastofnun brotið ýmsar málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins við meðferð mála þeirra. Þá telja kærandi og K að rökstuðningur Útlendingastofnunar fyrir niðurstöðum sínum hafi verið ófullnægjandi.
Kærandi og K gera athugasemdir við mat stofnunarinnar á auðkennum þeirra og því hvort þau séu skotmörk Al-Shabaab. Jafnframt telja kærandi og K að Útlendingastofnun hafi byggt niðurstöður sínar á röngum upplýsingum, stofnunin hafi vísað til heimilda með villandi hætti og litið fram hjá heimildum sem hafi stutt við málsástæður kæranda og K. Telja kærendur að Útlendingastofnun hafi virt að vettugi framlögð gögn um störf þeirra á þeim grundvelli að frásögn þeirra væri ótrúverðug. Kærandi og K hafi lagt fram fjölmörg skjöl sem staðfesti mannúðarstörf þeirra. Útlendingastofnun hafi haft tækifæri til að sannreyna gildi þeirra skjala með því til dæmis að senda skjölin í skjalarannsókn eða hafa samband við þá aðila eða stofnanir sem undirrituðu þau en stofnunin hafi kosið að gera það ekki. Kærandi og K telja því að mat Útlendingastofnunar sé óforsvaranlegt og ómálefnalegt. Að mati kæranda og K standist það ekki skoðun að benda á tiltekin atvik og meint misræmi og þar með virða að vettugi framlögð skjöl án teljandi rökstuðnings. Þar sem Útlendingastofnun hafi ekki hnekkt gildi framlagðra gagna sé ekki annað hægt en að leggja þau til grundvallar.
Þá telja kærandi og K enn fremur að með hinum kærðu ákvörðunum hafi Útlendingastofnun láðst að taka tillit til þess um hvers konar mannréttindastarfssemi hafi verið að ræða og hvernig það horfi við Al-Shabaab samtökunum. Þá mótmæla kærandi og K því mati Útlendingastofnunar að öryggisástand í borginni Beledweyne sé ásættanlegt. Kærandi og K telja að heimildir bendi þvert á móti til þess að almennir borgarar þar í borg eigi á hættu að verða fyrir ofbeldisárásum og að ástandið í borginni sé mjög óstöðugt.
Þá gagnrýna kærandi og K mat Útlendingastofnunar þess efnis að þau hafi ekki leitt líkur að því að hafa orðið fyrir hótunum af hálfu Al-Shabaab þar sem þau hafi ekki lagt fram gögn því til stuðnings. Kærandi og K vísa til bréfs sem þau hafi lagt fram frá samtökum er nefnist Coalition of Somali Human Rights Defenders (CSHRD), dags. 26. janúar 2023. Í bréfinu komi meðal annars fram að K sé skráð hjá samtökunum Frontline defenders sem baráttukona fyrir mannréttindum kvenna og að hún og kærandi hafi starfað í Luuq Jeelow, Beledweyne og nærliggjandi úthverfum. Þá hafi kærandi, til stuðnings frásögn sinni um að hafa orðið fyrir árás og hótunum í Sviss af hálfu meðlima Al-Shabaab samtakanna, lagt fram afrit af hótunum sem honum hafi borist frá meðlimum samtakanna í gegnum Facebook 31. ágúst 2012. Kærandi telur að þessar hótanir gefi til kynna að hann hafi verið skotmark Al-Shabaab í mörg ár. Þá hafi kærandi lagt fram önnur gögn sem hann telur staðfesta að hann hafi áður þurft að flýja heimaríki. Kærandi vísar til skjals frá samtökum er nefnist The Centre for Victims of Torture, dags. 10. mars 2023. Í bréfi samtakanna komi fram að einstaklingur að nafni [...] hafi unnið fyrir samtökin og hafi hann skráð og tilkynnt mannréttindabrot og talað fyrir hönd jaðarsettra hópa í og í kringum Beledweyne borg. Vegna starfa kæranda sem mannréttindasinni í Sómalíu hafi honum verið hótað og hann áreittur af uppreisnarhópum og hafi því þurft að yfirgefa landið og sækja um vernd erlendis. Þá er í greinargerð vísað til þess að kærandi og K hafi lagt fram bréf frá Alþjóðasamtökum gegn pyndingum (e. World Organization Against Torture), dags. 15. júní 2023, þar sem vottað sé að samtökin hafi starfað með kæranda og K og vísað til þess að þau hafi orðið fyrir árásum og hótunum árið 2020 og yfirgefið að lokum heimaríki í september 2021. Hafi áreitið leitt til þess að í samráði við Alþjóðasamtökin hafi verið tekin ákvörðun um að loka skrifstofum í Beledweyne borg og nærliggjandi úthverfum. Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki haft samband við framangreind samtök. Kærandi telur að þar sem stofnunin hafi ekki hnekkt gildi framangreindra gagna þá sé ekki annað hægt en að leggja þau til grundvallar.
Þá er í greinargerð vísað til þess að kærunefnd útlendingamála hafi með úrskurði sínum nr. 57/2023, uppkveðnum 2. febrúar 2023, komist að þeirra niðurstöðu að hægt sé að leggja til grundvallar að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi sætt afskiptum af hálfu meðlima Al-Shabaab þrátt fyrir að engin gögn hafi verið lög fram til stuðnings slíkri frásögn. Kærandi og K telja að atvik í þeirra málum séu í öllum meginatriðum sambærileg og í framangreindum úrskurði kærunefndar og beri að leysa sambærilega úr þeirra máli í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ekki annað hægt en að leggja til grundvallar að kærandi og K hafi starfað sem mannréttindasinnar í heimaríki og eigi á hættu ofsóknir vegna þeirra starfa. Kærandi og K telja enn fremur að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér stefnubreytingu frá þeim sjónarmiðum sem kærunefnd lagði til grundvallar í framangreindum úrskurði. Hafi Útlendingastofnun túlkað allan vafa kæranda og K í óhag þrátt fyrir að þau hafi lagt fram fjölmörg gögn sem þau telja að staðfesti frásögn þeirra. Kærandi og K telja að þau hafi lagt fram öll þau gögn sem þeim er kleift og þau sjái ekki hvaða gögn muni sanna að fullu þær ofsóknir sem þau hafi orðið fyrir í heimaríki enda hafi hótanir í þeirra garð yfirleitt verið munnlegar. Þá telja kærandi og K að frásögn þeirra hafi verið skýr og í samræmi við hlutlægar heimildir um stöðu mála í Sómalíu.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé utan heimaríkis af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur af Al-Shabaab, sbr. b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi og K gera athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að viðvera einstaklings í Beledweyne feli ekki ein og sér í sér raunverulega hættu á alvarlegum skaða sem kalli á viðbótarvernd. Í ákvörðunum í málum kæranda og K sé þó ekki greint með nánari hætti frá aðstæðum þeirra heldur látið duga að vísa með óljósum hætti til trúverðugleikamats og komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki raunhæf ástæða til þess að ætla að kærandi og K eigi á hættu að sæta meðferð í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi og K byggja á því að þau eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki þar sem þau komi frá svæði þar sem ítök Al-Shabaab séu mikil. Kærandi og K hafi orðið fyrir árásum og hótunum af hálfu Al-Shabaab samtakanna og vegna starfa sinna muni þau ávallt vera skotmark samtakanna og geti yfirvöld ekki veitt þeim vernd.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Er vísað til þess að ættbálkafyrirkomulag í Sómalíu feli í sér kerfisbundna mismunun, áreiti og ofbeldi sem teljist gróf mannréttindabrot. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að ekki sé hægt að treysta á vernd stjórnvalda í heimaríki og stjórni ættbálkar að miklu leyti hverjir fái vernd og hvenær. Þá sé ljóst að félagslegar aðstæður kæranda og K séu afar slæmar og ómannúðlegt sé að senda þau aftur til heimaríkis. Þá sé stuðningsnet kæranda og K afar takmarkað, atvinnuöryggi þeirra hafi verið ógnað verulega og þar með getu þeirra til að afla tekna til framfærslu.
Að lokum telur kærandi að með endursendingu hans til Sómalíu yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingum, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað sómölsku vegabréfi, með gildistíma frá 28. ágúst 2019 til 27. ágúst 2024, útgefnu í Brussel í Belgíu. Í skýrslu skilríkjadeildar lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 6. febrúar 2023, hafi komið fram að vegabréfið væri ófalsað en hins vegar tekið fram að rétt væri að setja almennan fyrirvara við trúverðugleika skilríkja og skjala frá Sómalíu vegna ástands almannaskráningar þar í landi. Þá var vakin athygli á því að áritunarmiði, útgefinn af ítalska sendiráðinu í Addis Ababa í Eþíópíu, hefði verið fjarlægður og að ekki lægi fyrir skráning í VIS-kerfinu um að gefin hafi verið áritun sem gildi fyrir Schengen-svæðið í vegabréf með þessu númeri. Þrátt fyrir framlagningu vegabréfs var það heildarmat Útlendingastofnunar að kæranda hefði ekki tekist að sanna hver hann væri með fullnægjandi hætti. Í tengslum við það mat benti Útlendingastofnun á að upplýsingar frá svissneskum yfirvöldum bæru með sér að kærandi hefði sótt um alþjóðlega vernd þar í landi árið 2010 undir öðru nafni og öðrum fæðingardegi en hann hefði greint íslenskum yfirvöldum frá. Þá bæru upplýsingar sem Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hefði borist frá Alþjóðalögreglunni í Sviss með sér að kærandi væri fæddur í Mógadisjú en ekki í Beledweyne líkt og hann hefði haldið fram í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Að mati Útlendingastofnunar benti ekkert í máli kæranda sérstaklega til annars en að hann væri sómalskur ríkisborgari. Við úrlausn málsins lagði Útlendingastofnun til grundvallar að upplýsingar frá svissneskum yfirvöldum væru réttar hvað varðaði nafn kæranda, fæðingardag og fæðingarár sem og fæðingarstað. Útlendingastofnun taldi ótækt að útiloka að kærandi kynni að hafa verið búsettur í Beledweyne umdæmi á einhverjum tímapunkti og yrði gengið út frá því við úrlausn málsins.
Í hælisbeiðni sem lögð var fram hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 1. apríl 2022 greindi kærandi frá því að hann hefði sótt um alþjóðlega vernd í Belgíu 2019. Í svari frá belgískum yfirvöldum til Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2022, kemur fram að kærandi hefði lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi 15. apríl 2019. Af gögnum frá Belgíu má ráða að þar í landi hafi kærandi gefið upp sömu persónuupplýsingar og hann gaf íslenskum stjórnvöldum. Belgísk stjórnvöld gáfu Útlendingastofnun þær upplýsingar að umsókn kæranda hefði verið synjað um málsmeðferðar þar sem hann hefði verið með alþjóðlega vernd í Sviss. Útlendingastofnun sendi upplýsingabeiðni til svissneskra yfirvalda 14. júní 2022. Í svari svissneskra yfirvalda, dags. 6. júlí 2022, kemur fram að kærandi hafi verið skráður þar í landi með nafnið [...] og fæðingardaginn [...]. Kærandi hefði sótt um alþjóðlega vernd í Sviss 25. ágúst 2010 og verið veitt vernd 16. febrúar 2011.
Í gögnum málsins liggja fyrir dómskjöl frá Sviss vegna refsidóms sem kærandi hlaut þar í landi. Um er að ræða annars vegar ákæruskjal útgefið af ríkissaksóknaranum í Bischofszell (þ. Anklageschrift gemäss Art. 324 ff. StPO) og dómur héraðsdómstólsins í Arbon, dags. 19. júní 2014. Eftir lauslega þýðingu kærunefndar á þeim gögnum taldi nefndin tilefni til að fá þýðingu túlkaþjónustunnar Language Line á nokkrum atriðum úr ákæruskjalinu og umræddum dómi. Í þýðingu Language Line dags. 8. nóvember 2023, á ákæruskjalinu kemur fram að hinn ákærði heiti [...], sé fæddur [...] í Mógadisjú, sé sonur [...] og [...]. Þá kemur fram í þýðingu á dómi héraðsdómstólsins í Arbon að samkvæmt gögnum málsins sé [...] fæddur í Sómalíu og hafi alist hjá foreldrum sínum í borginni Mógadisjú.
Í vegabréfi sem kærandi lagði fram hér á landi til stuðnings auðkenni sínu kemur fram að handhafi sé fæddur í Beledweyne [...] og heiti móðir hans [...]. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 22. september 2023, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram athugasemdir við misræmi á persónuupplýsingum sem skráðar voru um hann í Sviss og uppgefnum persónuupplýsingum til íslenskra stjórnvalda og í framlögðu vegabréfi. Með tölvubréfi til kærunefndar, dags. 29. september 2023, vísaði kærandi til þess að hann hefði í viðtali hjá Útlendingastofnun 17. apríl 2023 greint frá því að persónuupplýsingar hans hefðu ekki verið réttilega skráðar í Sviss. Þá árétti hann að vegabréf hans hafi verið metið ófalsað í skilríkjarannsókn lögreglunnar og að þar séu réttar upplýsingar um auðkenni hans. Líkt og að framan er rakið kom fram í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum að þrátt fyrir að framlagt vegabréf væri ófalsað væri rétt að setja almennan fyrirvara við trúverðugleika skilríkja og skjala frá Sómalíu vegna ástands almannaskráningar þar í landi. Trúverðugleiki skilríkja sem gefin hafa verið út af sómölskum stjórnvöldum er takmarkaður, einkum vegna þess að almannaskráningu þar í landi er verulega ábótavant og útgáfa falsaðra skjala er algeng, líkt og ítarlega var fjallað um í úrskurði kærunefndar nr. 297/2020, dags. 10. september 2020. Þannig getur framlagt vegabréf frá Sómalíu, sem aukinheldur er í misræmi við aðrar persónuupplýsingar sem liggja fyrir í málinu, ekki talist áreiðanlegur grundvöllur fyrir auðkenni kæranda.
Að undanskildu framangreindu vegabréfi hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu kæranda sem styðja þá fullyrðingu hans að persónuupplýsingar hans hafi ekki verið réttilega skráðar í Sviss. Í gögnum málsins liggur fyrir afrit af verndarviðtali svissneskra stjórnvalda við kæranda sem tekið var 21. október 2012. Í byrjun viðtals er kærandi tilgreindur með nafnið [...] og fæðingardaginn [...]. Af lauslegri þýðingu á viðtalinu, sem er á þýsku, má sjá að kærandi er upplýstur um að hann hafi lagt fram nafnskírteini og hann spurður hvort hann vilji bæta við frekari gögnum sem kærandi svarar neitandi. Í viðtalinu gerir kærandi hvergi athugasemd við skráð nafn og fæðingardag. Fram kemur að viðtalið hafi farið fram á sómölsku og undirritar kærandi að hann hafi engar athugasemdir við efni þess. Er því ljóst að kærandi hefur vísvitandi gefið upp rangar upplýsingar um auðkenni sitt, hvort heldur sem er hjá íslenskum stjórnvöldum eða svissneskum.
Hinn 15. nóvember 2023 lagði kærandi fram til kærunefndar afrit af skjali sem titlað er fæðingarvottorð, dags. 20. mars 2019, með sómalska sendiráðið í Addis Ababa í Eþíópíu í bréfshaus. Vegna hins framlagða vottorðs taldi kærunefnd tilefni til að óska eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda 17. nóvember 2023 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um hvernig kærandi hefði aflað vottorðsins, hvers vegna hann hefði ekki lagt það fram fyrr og hvar frumrit þess væri. Í svörum kæranda sem bárust kærunefnd 20. nóvember 2023 kom fram að hann hefði ferðast til Addis Ababa til að sækja ráðstefnu og sótt um fæðingarvottorð í leiðinni. Ástæða fyrir því að hann hafi ekki lagt vottorðið fram fyrr væri sú að hann hafi týnt frumritinu. Samstarfsmaður kæranda hafi svo greint honum frá því að hann væri með afrit af fæðingarvottorði hans í fartölvunni sinni.
Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda á skyndilegri tilurð fæðingarvottorðs hans ótrúverðugar. Þá eru opinber gögn frá Sómalíu almennt metin ótraust þar sem almannaskráningu þar í landi er verulega ábótavant og útgáfa falsaðra skjala er algeng. Hafa alþjóðleg stjórnvöld, svo sem kanadíska innflytjendaráðið, metið það svo að vegabréf útgefin af sómölskum yfirvöldum séu ekki áreiðanleg, meðal annars þar sem engir trúverðugir eða sannanlegir skráningaraðilar séu til útgáfu aðalskjala, svo sem fæðingarvottorða eða skrá yfir staðfestingu á ríkisborgararétti. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að framlagt afrit af skjali sem kærandi kveður vera fæðingarvottorð sitt sé ekki til þess fallið að staðfesta auðkenni kæranda eða styðja við framlagt vegabréf.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af persónuupplýsingum sem skráðar voru hjá svissneskum stjórnvöldum um kæranda er það mat kærunefndar að verulegur vafi sé uppi um auðkenni kæranda. Kærunefnd telur hins vegar ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Sómalíu. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óupplýst.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- ●2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
- ●2022 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
- ●2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
- ●Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
- ●BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
- ●Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
- ●Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
- ●Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
- ●Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
- ●Country Guidance: Somalia (EUAA, ágúst 2023);
- ●Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
- ●Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
- ●Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
- ●Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
- ●Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
- ●EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
- ●EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
- ●Freedom in the World 2023 – Somalia (Freedom House, 2023);
- ●Heightened Political Violence in Somalia (ACLED, 3. mars 2023);
- ●International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
- ●Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
- ●Query response on Somalia: Al-Shabaab (2021 - March 2023) (leadership, objectives, structure; recruitment; areas of operation and activities; financing; attacks; targets; capacity to track individuals; state response) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. mars 2023);
- ●Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
- ●Safety and Security in Mogadishu – A Research Note (Tana Copenhagen, 6. mars 2023);
- ●Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
- ●Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
- ●Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
- ●Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
- ●Somalia: Al-Shabaab Regains Lost Territories as Tax Dispute Halts Counter-Insurgency Operation (ACLED, 2. júní 2023);
- ●Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
- ●Somalia: Counter-Insurgency Operation Gains Regional Support in Phase Two as al-Shabaab Attacks and Political Differences Persist (ACLED, 21. apríl 2023);
- ●Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
- ●Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
- ●Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
- ●Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
- ●Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
- ●Somalia. Key crises to watch in 2023 (Acaps, 14. apríl 2023);
- ●Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
- ●Somalia – Rekruttering til al-Shabaab (Landinfo, 17. október 2022);
- ●Somalia – Reaksjoner mot personer mistankes for tilknytning til al-Shabaab (Landinfo, 2. desember 2022);
- ●Somalia – Reaksjoner mot al-Shabaab avhoppere (Landinfo, 20. júní 2023);
- ●Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
- ●Somalia – Security situation update (EUAA, 25. apríl 2023):
- ●Somalia Situation Update: April 2023 (ACLED, 21. apríl 2023);
- ●Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
- ●Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
- ●Somalia. COI Query. Security situation update, 1 December 2022 to 14 April 2023 (EUAA, 25. apríl 2023);
- ●South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
- ●South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
- ●The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 1. ágúst 2023);
- ●UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
- ●UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
- ●Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
- ●Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021);
- ●World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023);
- ●Somalia: Identification documents, including national identity cards, passports, driver´s licences, and any other document required to access government services; information on the issuing agencies and the requirements to obtain documents (2013-July 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 17. mars 2016);
- ●Somalia: Birth registration, including requirements and procedures: issuance of brith certificates and marriage certificates from the Benadir, Regional Administration (2021 – March 2023) (Immigration and Refugee Board of Canada, 2. mars 2023);
- ●Somalia – Folkbokföring, medborgarskap och identitetshandlingar (Lifos, 9. apríl 2019);
- ●The Swedish Migration Agency´s assessment of identity documents (Migrationsverket, https://www.migrationsverket.se/Privatpersoner/Bli-svensk-medborgare/Medborgarskap-for-vuxna/Styrkt-identitet/Migrationsverkets-bedomning-av-identitetsdokument.html sótt 2. september 2020);
- ●Temanotat – Somalia, Identitetsdokumenter, sivilregistering og offentlig forvaltning (Landinfo, 6. mars 2020) og
- ●The Somalia Civil Registration and Vital Statistics (CRVS) country profile (United Nation Fund for Population Activities (UNFPA), desember 2021).
Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum 1. júlí 1960. Hinn 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.
Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 bera hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hefur hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.
Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins geta hjúskaparbrot eða framhjáhöld varðað dauðarefsingu á yfirráðasvæðum Al-Shabaab. Einstaklingar sem grunaðir séu um slíkt séu almennt grýttir til dauða samkvæmt skýrslu kanadískra útlendingayfirvalda. Hver sá sem hafi einhvern tímann verið giftur, jafnvel fráskilinn, og eigi í ástarsambandi sé líklegur til að verða fundinn sekur um framhjáhald og vera grýttur til dauða af hálfu samtakanna.
Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 hafi Al-Shabaab borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.
Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt skýrslunni hafi mikilvægi aðildar að tilteknum ættbálki breyst á undanförnum árum í höfuðborginni Mógadisjú. Hlutverk ættbálksins hafi í auknum mæli færst frá því að verja stöðu ættbálksins yfir í hlutverk félagslegrar aðstoðar og stuðnings. Þá sé lítið um ættbálkaerjur í Mógadisjú og afkoma meðlima minnihlutaættbálka ráðist ekki af aðild þeirra að ættbálkinum. Í skýrslunni kemur fram að víðtækur alþjóðlegur styrkur og stuðningur hafi hjálpað ríkisstjórn Sómalíu að bæta líf borgara sinna og almennt hafi lífsskilyrði íbúa í Mógadisjú batnað.
Í framangreindum gögnum, m.a. skýrslu danskra útlendingayfirvalda frá árinu 2020, kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að í Mógadisjú hafi almennir borgarar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Í borginni sé aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og apótekum.
Í skýrslu UNFPA frá desember 2021 kemur fram að öll skjalasöfn og opinberar skrifstofur í Sómalíu hafi verið eyðilagðar í borgarastyrjöldinni 1991, sem hafi gert það að verkum að Sómalía átti engar skrár, afrit eða frumrit eftir sem hægt væri að nota til að bera saman eða vísa til skjala og vottorða. Eftir 16 ára hlé á skráningu og útgáfu opinberra skjala í Sómalíu, hóf bráðabrigðaríkisstjórn landsins árið 2007 að gefa út vegabréf á ný. Í skýrslu frá kanadíska innflytjenda- og flóttamannaráðinu (e. Immigration and Refugee Board of Canada) frá mars 2016 kemur fram að sækja þurfi um vegabréf í Sómalíu í eigin persónu. Þá segir að vegabréf sem sögð séu útgefin af sómölskum yfirvöldum séu ekki talin áreiðanleg og því sé ekki hægt að nota þau til að koma til Kanada. Þá viðurkenni ríkisstjórn Kanada ekki sómölsk vegabréf þar sem engir trúverðugir eða sannanlegir skráningaraðilar séu skráðir fyrir útgáfu aðalskjala, s.s. fæðingarvottorða. Í skýrslu Lifos frá apríl 2019 kemur fram að umsækjendur um vegabréf í Sómalíu þurfi að fara í viðtal, leggja fram gögn og gefa fingrafar. Þá segir að í ljósi þeirrar spillingar sem ríki í tengslum við útgáfu skjala sem séu grundvöllur vegabréfa sé ekki talið unnt að treysta skjölum sem þaðan komi. Á heimasíðu sænska innflytjendayfirvalda (s. Migrationsverket) kemur fram að sómölsk vegabréf sem gefin séu út eftir janúar 1991 uppfylli ekki öryggiskröfur. Sómalíu hafi skort lögbær yfirvöld síðan í janúar 1991 til að gefa út löggild skjöl. Þá sé einnig þekkt að mikil viðskipti séu með sómölsk vegabréf og aðrar tegundir skjala. Þá uppfylli önnur persónuskilríki sem gefin séu út í Sómalíu ekki öryggiskröfur sænskra innflytjendayfirvalda. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2020 kemur fram að yfirvöld í Sómalíu hafi hafið endurreisn stjórnsýslunnar frá árinu 2012. Þá hafi einhver ríki sambandsins komið á fót staðbundnum borgaraskrám og hafið útgáfu persónuskilríkja. Þar sem engin þjóðskrá eða miðlæg íbúaskrá sé til staðar sé ekki um samræmda starfshætti þessara stofnana að ræða og mismununandi geti verið á hverju slíkar skráningar byggist. Þá dragi skortur á viðeigandi skrásetningarbúnaði, víðtæk spilling og frændhygli ennfremur úr trúverðugleika og gildi almannaskráningar og útgefinna persónuskilríkja. Í skýrslu Landinfo kemur fram að þau gögn sem umsækjendur um sómölsk vegabréf þurfi að leggja fram séu; umsókn, passamyndir, sakavottorð (frá umsækjendum staðsettum í Sómalíu en aðrir séu teknir í viðtal í sendiráðum af aðilum með heimild frá öryggisþjónustu Sómalíu (e. National Intelligence and Security Agency, NISA)), staðfesting á fæðingu/fæðingarvottorð en krafa er um að slíkt stafi frá sómölskum stjórnvöldum, kenniskírteini eða staðfesting á ríkisfangi frá stjórnvöldum í Sómalíu eða næsta sómalska sendiráði. Þá eru teknar myndir og fingraför af viðkomandi, auk þess sem umsækjandi þarf að gefa undirskrift og greiða umsóknargjald. Umsækjandi þarf að koma sjálfur á staðinn annaðhvort til viðeigandi stjórnvalda í Sómalíu eða sendiráðs Sómalíu.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í heimaríki af hálfu meðlima Al-Shabaab samtakanna vegna starfa sinna sem baráttumaður fyrir mannréttindum þar í landi.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, gögnum frá svissneskum og belgískum stjórnvöldum, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 1. september 2022 kvaðst kærandi hafa barist fyrir mannréttindum í heimaríki. Aðspurður um hvað hefði leitt til flótta hans frá heimaríki greindi kærandi frá því að hann hafi búið í Beledweyne, starfað sem baráttumaður fyrir mannréttindum og hafi starfað fyrir staðbundin mannúðarsamtök að nafni Horn Afrik News Agency for Human Rights (HANAHR) í Sómalíu. Kærandi kvaðst hafa starfað í Beledweyne, Luuq Jelow og Shabeelow og í litlum þorpum þar sem Al-Shabaab samtökin væru að þvinga börn í hjónabönd og fá til sín sem nýliða. Þá hafi verið gerð árás á „þau“ og hafi tveir samstarfsmenn verið skotnir og særst vegna þess. Þá hafi kærandi og bílstjóri hans orðið fyrir árás hersveita á staðnum 3. ágúst 2020 en ekki særst. Sama mánuð hafi kærandi farið til Tyrklands til að athuga með læknismeðferð en komið aftur til baka til Sómalíu. Þegar kærandi hafi komið til baka hafi hótanir haldið áfram að berast honum og hann og K því ákveðið að fara til Eþíópíu 30. desember 2020. Aðspurður um hvort hann hafi klárað störf sín fyrir mannréttindasamtökin kvaðst kærandi hafa sinnt þeim með ráðgjöf í gegnum myndbandssímtöl. Aðspurður um hvernig Al-Shabaab hafi hótað honum kvað kærandi meðlimi samtakanna hafa hringt í hann og ásakað hann um að vinna gegn Sharia lögum og því yrði hann tekinn af lífi. Kærandi kvað þá hafa hótað sér reglulega en hann hafi ekki alltaf svarað símtölum frá þeim. Þá greindi kærandi í viðtalinu frá því að hafa verið með dvalarleyfi í Úkraínu árið 2010, í Eþíópíu og tímabundið í Belgíu.
Kærandi mætti í framhaldsviðtal hjá Útlendingastofnun 17. apríl 2023. Í upphafi viðtals leiðrétti kærandi að í viðtali við K hafi komið fram að þau hafi yfirgefið Sómalíu 30. september 2020 en rétt sé að þau hafi yfirgefið Sómalíu 30. september 2021. Í viðtalinu kvaðst kærandi hafa yfirgefið Sómalíu árið 2009, farið til Rússlands og þaðan til Úkraínu þar sem hann hafi starfað í smá tíma. Kærandi kvaðst hafa yfirgefið Úkraínu 2010 og haldið til Ítalíu og svo verið í einhvern tíma í Sviss. Kærandi hafi snúið aftur til Sómalíu eftir það. Kærandi kvaðst hafa sótt um vernd á Ítalíu og í Sviss. Kærandi hafi síðan afsalað sér vernd sinni og haldið heim til Sómalíu. Kærandi kvaðst þar að auki hafa sótt um vernd í Belgíu. Aðspurður um í hverju starf hans fyrir Horn Afrik News Agency for Human Rights hafi falist kvað kærandi það hafi verið samtvinnun af mannréttinda- og fjölmiðlastarfi og að hans hlutverk hafi verið að vera talsmaður. Starfið hafi falið í sér skráningu og tilkynningar á mannréttindabrotum gegn minnihlutahópum og frumbyggjasamfélögum og gegn viðkvæmum hópum svo sem konum, stúlkum og börnum. Kærandi kvaðst hafa hafið framangreint starf sem ráðgjafi árið 2014 og formlega byrjað að starfa árið 2017 við hagsmunagæslu. Spurður að því hvort hann hefði búið í Sómalíu frá árinu 2014 til 2017 kvaðst kærandi hafa ferðast fram og til baka frá landinu. Aðspurður um hvað hann hefði starfað við fyrir árið 2014 kvaðst kærandi hafa verið ráðgjafi fyrir mismunandi netfjölmiðla og ýmsar útvarpsstöðvar í landinu. Aðspurður um hótanir Al-Shabaab í sinn garð árið 2020 kvað kærandi það hafa aðallega átt sér stað um mitt ár 2020. Kærandi kvað hersveitir samtakanna hafa sent smáskilaboð og hringt í hann og ásakað hann um að breiða út boðskap um gildi sem ættu ekki heima í Sómalíu. Kærandi kvað hótanir hafa haldið áfram að berast honum þangað til hann hafi yfirgefið heimaríki í september 2021. Aðspurður um hvort hann hafi verið áreittur af Al-Shabaab með öðrum hætti en í gegnum síma vísaði kærandi til áðurgreindra atvika sem hafi átt sér stað í júlí 2020 og í ágúst sama ár þegar skotið hafi verið á bifreið sem hann hafi verið í. Þá kvaðst kærandi hafa verið áreittur af meðlimi Al-Shabaab árið 2019 þegar hann hafi verið í Belgíu. Aðspurður um hvað væri alvarlegasta atvik gagnvart honum sem Al-Shabaab bæri ábyrgð á vísaði kærandi til atviks sem hafi átt sér stað 2012 í Thurgue kantónu í Sviss. Þar hafi hópur manna með hnífa beðið eftir honum inni í lest og reynt að ráðast á hann. Þá vísaði kærandi til þess að Al-Shabaab hefði myrt föður hans árið 2008. Kærandi var spurður um ástæðu þess að hann hefði ekki flúið Sómalíu fyrr en í september 2021 í ljósi þess að hann hafi fengið reglulegar hótanir um mitt ár 2020. Kærandi svaraði því að hann hefði haldið að um tímabundið áreiti væri að ræða og að það gæti liðið hjá. Hótanirnar hafi hins vegar haldið áfram og í samráði við samtökin sem starfaði hjá hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að hann ætti á hættu að verða drepinn. Aðspurður um hvort hann gæti lagt fram gögn sem gætu varpað ljósi á eða sannað að hann hefði ástæðuríkan ótta við Al-Shabaab kvaðst kærandi geta lagt fram bréf rituð af öðrum mannúðarsamtökum sem segðu frá atvikum sem hafi þvingað hann og K til að yfirgefa Sómalíu og þá gæti hann einnig lagt fram gögn frá öðrum alþjóðlegum stofnunum.
Kærandi lagði við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun fram mikið magn af gögnum sem hann telur styðja málatilbúnað sinn. Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd hefur hann lagt fram fjölmörg gögn til viðbótar, einkum er um að ræða gögn frá ýmsum samtökum í Sómalíu og Afríku sem dagsett eru eftir að kærandi fékk niðurstöðu í máli sínu hjá Útlendingastofnun. Sjá má í bréfum þeirra að firmamerki og undirskriftir eru límd inn á bréfin. Að mati kærunefndar dregur það verulega úr trúverðugleika þeirra. Þá er ljóst að meirihluti gagnanna virðist vera byggður á einhliða frásögn kæranda og K en sé ekki sjálfstæð frásögn framangreindra samtaka og óljóst hvort og hvernig þessir meðmælendur hafi fengið vitneskju um meint störf kæranda og K fyrir mannúðarsamtök í Sómalíu eða hvort kannað hafi verið með einhverjum hætti hvort að kærandi og K væru þeir aðilar sem bréfunum er ætlað að styðja við. Enn fremur er það mat kærunefndar, í ljósi framangreinds mats á auðkenni kæranda, að ekki sé hægt að leggja til grundvallar að inntak bréfanna eigi við um kæranda. Þá hefur kærandi lagt fram gögn um þátttöku sína í ýmsum námskeiðum. Að mati kærunefndar hafa þau gögn takmarkaða þýðingu fyrir málatilbúnað kæranda.
Í hælisbeiðni sem kærandi lagði fram hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu greindi hann meðal annars frá því að vera ekki á sakaskrá í neinu landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 1. september 2022 neitaði kærandi því að hafa verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi og hafa verið ákærður eða stefnt fyrir dóm. Í framhaldsviðtali hjá Útlendingastofnun 17. apríl 2023 var kæranda tjáð að samkvæmt gögnum sem hefðu borist frá svissneskum stjórnvöldum hefði vernd hans í Sviss verið afturkölluð í febrúar 2016 eftir að héraðsdómstóll í Arbon hafi 19. júní 2014 dæmt hann til fimm og hálfs árs fangelsisvistar. Hafi kærandi verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps ásamt öðrum brotum. Var kæranda gefinn kostur á því að koma með athugasemdir við framangreindu. Kærandi kvað það ekki vera rétt að vernd hans hefði verið afturkölluð og þá hefði hann ekki vitneskju um það að einhver dómstóll hefði sakfellt hann. Kæranda var þá tjáð að stofnunin hefði undir höndum afrit af umræddum dómi sem hann hefði hlotið. Svaraði kærandi því að það væri ekki rétt og ítrekaði varðandi dóminn að hann ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Spurður að því hvort þetta væri í fyrsta skipti sem hann heyrði um þennan dóm svaraði kærandi játandi. Aðspurður hvort hann hefði einhvern tímann setið í fangelsi í Sviss svaraði kærandi því játandi og að það hefði verið af ýmsum mismunandi ástæðum, aðallega handahófskenndum. Spurður aftur að því hvort hann hefði ekki setið í fangelsi vegna framangreinds dóms svaraði kærandi því að hann hefði setið í fangelsi endrum og eins. Beðinn um að útskýra nánar kvaðst kærandi hafa setið í fangelsi í september 2012 og síðan verið látinn laus. Þá hafi hann setið í fangelsi í tvo mánuði 2013. Kærandi kvaðst hafa í tæplega 10 skipti setið í fangelsi í Sviss. Kærandi kvaðst hafa verið dæmdur fyrir afbrot sem annar einstaklingur hefði framið.
Hinn 22. september 2023 sendi kærunefnd tölvubréf til talsmanns kæranda með þeim upplýsingum að í ákæruskjali frá Sviss kæmi fram að hinn ákærði hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 12. september 2012 til 8. nóvember 2012. Þá hefði hann setið í gæsluvarðhaldi frá 6. febrúar 2013 til 19. september 2013. Kærunefnd vakti athygli á því að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hefðu kærandi og K greint frá því að hafa gengið í hjúskap í Sómalíu 3. október 2012 en þá hafi kærandi verið í gæsluvarðhaldi. Í athugasemdum kæranda sem bárust kærunefnd 27. september 2023 kemur fram að hann hafi ekki sætt gæsluvarðhaldi. Kærandi hafi átt vegabréf og pantað tíma hjá sendiráði Eþíópíu. Kærandi hafi fengið vegabréfsáritun 28. september 2012 og sama dag hafi hann yfirgefið Sviss. Kærandi vísaði til þess að samskipti á milli hans og sendiráðsins styddu framangreint.
Líkt og að framan er rakið bárust gögn frá svissneskum stjórnvöldum vegna refsidóms sem kærandi hlaut í Sviss 19. júní 2014. Kærunefnd lét þýða nokkur atriði úr þeim sérstaklega. Í þýðingu á dómi héraðsdóms Arbon kemur fram að hinn ákærði hafi gerst sekur um tilraun til manndráps, minniháttar líkamsárás, brottnám barna og fjölmargar líkamsárásir. Fram kemur að hann hafi verið dæmdur til fangelsisvistar í fimm og hálft ár, að meðtöldu 284 daga gæsluvarðhaldi, auk gæsluvarðhalds á meðan á réttarhöldum hafi staðið, frá 20. september 2013. Í þýðingu á ákæruskjali ríkissaksóknarans í Bischofszell, sem dagsett er 4. febrúar 2014, kemur fram að hinn ákærði [...] hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 12. september 2012 til 8. nóvember 2012 og frá 6. febrúar 2013 til 19. september 2013. Þá hefði kærandi setið í gæsluvarðhaldi (e. Pre-trial Custody) frá 20. september 2013. Kærandi greindi frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hafa kvænst K 3. október 2012 og að athöfnin hafi átt sér stað í Beledweyne en þau hafi fengið útgefið formlegt vottorð í Mógadisjú. Við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram afrit af sómölsku hjúskaparvottorði á ensku. Í vottorðinu kemur fram að undirritaður dómari votti að einstaklingur að nafni [...] hafi 3. október 2012 í Mógadisjú kvænst [...]. Samkvæmt framangreindu getur kærandi ekki hafa kvænst K í Sómalíu í október 2012 þar sem hann var þá í gæsluvarðhaldi. Verður því ekki annað hægt en að leggja til grundvallar að kærandi hafi lagt fram skjal til íslenskra stjórnvalda sem er annað hvort falsað eða tekur til annarra einstaklinga en kæranda og K. Þá er ljóst, af framangreindum dómi og ákvörðun stjórnvalda í Sviss um afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda þar í landi, að skjölin hafi verið birt kæranda þegar hann afplánaði fangelsisrefsingu sína í svissneskum fangelsum og honum því fullkunnugt um efni þeirra þegar hann mætti til viðtals hjá íslenskum stjórnvöldum. Að mati kærunefndar dregur misræmið og framlagning falsaðs skjals, sem og ósannsögli hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun um refsidóm sem hann hlaut í Sviss, verulega úr trúverðugleika kæranda.
Af frásögn kæranda mátti ráða að hann hefði starfað í Sómalíu fyrir umrædd mannréttindasamtök frá árinu 2014. Í gögnum málsins liggur fyrir bréf svissnesku útlendingastofnunarinnar, dags. 24. febrúar 2016, um afturköllun verndar, sem stílað er á [...], staðsettan í Pöschwies fangelsinu í Zürich kantónu í Sviss. Kærandi hlaut eins og áður segir fimm og á hálfs árs fangelsisdóm 19. júní 2014 og hafði þegar dómurinn var kveðinn upp setið í gæsluvarðhaldi frá 20. september 2013. Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi gat ekki hafa verið í heimaríki sínu á árunum 2014 til 2016. Með áðurnefndu tölvubréfi kærunefndar sem sent var til talsmanns kæranda vakti nefndin athygli á því að ekki yrði annað ráðið af gögnum frá Sviss en að kærandi hefði setið í fangelsi frá því að dómur hafi verið kveðinn upp af Arbon dómstóli 19. júní 2014 og hafi enn verið í fangelsi í febrúar 2016. Í athugasemdum kæranda við framangreint kom fram að hann hefði verið í umræddu fangelsi frá 9. júní 2014 til febrúar 2016. Þá vísaði kærandi til þess að hann hefði í viðtali hjá Útlendingastofnun sagt að hvenær sem hann hafi búið í Sómalíu hafi hann ferðast fram og til baka frá landinu. Þá vísaði kærandi til þess að hann hefði í viðtalinu ekki verið spurður nánar út í búsetu sína í Sómalíu á tímabilinu sem um ræddi. Í gögnum málsins liggur ekki fyrir hvenær kærandi lauk afplánun í Sviss. Kærunefnd telur þó ekki tilefni til að draga í efa að það hafi verið á árinu 2016. Kærandi hefur hins vegar engin haldbær gögn lagt fram um veru sína í heimaríki frá þeim tíma. Þá verður að mati kærunefndar að telja það afar ótrúverðugt að kærandi hafi getað unnið fyrir framangreind samtök á meðan hann afplánaði refsingu sína í fangelsi í Sviss.
Þá liggja fyrir upplýsingar frá belgískum stjórnvöldum þess efnis að kærandi hafi í apríl 2019 komið til landsins og sótt um vernd. Af framlagðri færslu á Facebook reikningi samtaka að nafninu [...] má ráða að kærandi hafi verið staddur í Belgíu í nóvember 2019. Þá má sjá í vegabréfi sem kærandi hefur notað til að ferðast að hann hafi 17. febrúar 2020 ferðast frá Belgíu og komið til Eþíópíu daginn eftir. Í vegabréfinu er jafnframt komustimpill inn í Sómalíland 16. júlí 2020, brottfarastimpill frá því landi 21. ágúst 2020, brottfarastimpill frá Mógadisjú 22. ágúst 2020 og komustimpill inn í Tyrkland 22. ágúst 2020. Þá lagði kærandi inn umsókn um alþjóðlega vernd á nýjan leik hjá belgískum stjórnvöldum 7. desember 2020. Þá liggja ekki fyrir frekari gögn um dvöl kæranda í Sómalíu eða ferðalög kæranda hans nema brottfarastimpill frá Tyrklandi 16. september 2021 og komustimpill frá Eþíópíu daginn eftir. Þá lagði kærandi fram upplýsingar um að hann hafi leitað sér læknisaðstoðar í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu 7. október 2021 og er að finna í vegabréfinu brottfarastimpil frá Eþíópíu 20. október 2021. Þá er brottfarastimpill frá spænskum yfirvöldum 30. mars 2022 og komustimpill frá Íslandi 31. mars 2022. Samkvæmt framangreindu er afar óljóst hvenær og hvort kærandi hafi dvalið í Sómalíu frá byrjun árs 2019, og árin 2020 og 2021. Að mati kærunefndar eru framangreindar upplýsingar ekki til þess fallnar að styðja við frásögn kæranda af því hlutverki sem hann kveðst hafa gegnt fyrir framangreind mannréttindasamtök í Beledweyne og hafi leitt til meintra hótana og áreitis af hálfu meðlima Al-Shabaab í garð kæranda árið 2020 og árið 2021.
Að mati kærunefndar hefur frásögn kæranda ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi gögn í málinu, einkum gögn frá yfirvöldum í Sviss og þá hefur frásögn kæranda tekið sífelldum breytingum þegar gengið hefur verið á hann með nýjar upplýsingar við við meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá hefur kærandi haldið upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum, lagt fram fölsuð gögn eða gögn sem eru í eigu annarra og lagt fram önnur gögn sem eru ótraust að efni til í þeim tilgangi að afvegaleiða íslensk stjórnvöld. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að frásögn kæranda um störf fyrir mannréttindasamtök í heimaríki og ofsóknir af hálfu Al-Shabaab sé í heild ótrúverðug og verður hún því ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt eða eiga á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Sómalíu eða öðrum aðilum í heimaríki af öðrum ástæðum er koma fram í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá verður ekki talið að gögn málsins bendi til þess að hann eigi slíkt á hættu.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lögð til grundvallar frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki vegna hættu á ofsóknum af hálfu meðlima Al-Shabaab. Þar sem að kærunefnd telur ekki tilefni til að draga í efa að kærandi kunni að hafa verið búsettur í Beledweyne á einhverjum tímapunkti þá hefur hann jafnframt greint frá því að hafa ferðast víða um landið og dvalið í Sómalílandi sem og Mógadisjú. Verður því horft til aðstæðna bæði í Beledweyne og Mógadisjú við mat á því hvort aðstæður kæranda geti fallið undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Af landaupplýsingum er ljóst að öryggisástand er óstöðugt í Mógadisjú. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í máli K.A.B. gegn Svíþjóð (mál nr. 886/11) frá 17. febrúar 2014 og R.H. gegn Svíþjóð (mál nr. 4601/14) frá 1. febrúar 2016 kemur fram að almennt öryggisástand í Mógadisjú hafi farið batnandi á undanförnum árum eftir að stjórnvöld höfðu náð yfirráðum í borginni. Þá var það afstaða dómsins að aðgengilegar landaupplýsingar bentu ekki til þess að aðstæður í borginni væru slíkar að íbúar í borginni væru almennt í hættu á að sæta meðferð sem færi gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Því myndi endursending einstaklinga til Sómalíu ekki brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þau gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins benda ekki til þess að aðstæður í Mógadisjú hafi breyst til hins verra frá uppkvaðningu dómsins eða séu slíkar að kærandi muni eiga á hættu meðferð sem brjóti gegn 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá má ráða af heimildum, s.s. skýrslu EUAA frá ágúst 2023 og upplýsingum af vefsíðu Political Geography Now, að staðan í Beledweyne sé sú að borgin sé undir stjórn AMISOM eða sómalskra stjórnvalda og hafi verið það síðustu ár. Þrátt fyrir óstöðugt ástand þá sé ekki ástæða til að ætla að hver sem þar sé staddur eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Með vísan til trúverðugleikamats er ekki tilefni til að ætla að sérstakar aðstæður kæranda leiði til þess að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð snúi hann til baka.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Er því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun 1. september 2022 kvaðst kærandi hafa verið með gallsteina og gengist undir aðgerð í júní sama ár og liði betur. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ekki í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa. Líkt og að framan er rakið kemur fram í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 að almennir borgarar hafi aðgengi að heilbrigðisþjónustu í Mógadisjú og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga og athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er jafnframt fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.
Í dómi Arbon héraðsdómsstólsins í Sviss kemur fram að kærandi hafi stundað nám við menntaskóla og háskóla í Mógadisjú og útskrifast með bakkalár gráðu í samskiptafræði og hagfræði, þá hafi kærandi starfað sem blaðamaður í Sómalíu áður en hann hafi flúið landið og síðan starfað sem túlkur í Úkraínu. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun 1. september 2022 kvaðst kærandi geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni í heimaríki og þá væri hann í samskiptum við nokkra ættingja þar í landi. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé vinnufær og fær um að framfleyta sjálfum sér.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau er að tekin hafin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 1. apríl 2022. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því kærandi sótti um alþjóðlega vernd þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, 22. nóvember 2023, eru liðnir rúmir 19 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er um í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi á við um:
- útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,
- útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,
- útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,
- útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Eins og að framan greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að auðkenni kæranda sé ekki upplýst. Leikur því vafi á hver kærandi sé. Þá er það mat kærunefndar í ljósi framangreinds trúverðugleikamats og skorts á samstarfsvilja kæranda að skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls sé ekki uppfyllt. Þá liggur fyrir í máli kæranda að hann hefur framvísað gögnum með það að markmiði að styrkja umsókn sína sem eru annað hvort fölsuð eða í eigu annarra einstaklinga, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Að mati kærunefndar er skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. og a-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt. Þar sem kærandi uppfyllir ekki framangreind skilyrði verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna. Þá verður ekki talið að ástæða sé til þess að falla frá framangreindum skilyrðum í samræmi við 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Kærandi gerði í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, svo sem við trúverðugleikamat stofnunarinnar. Líkt og framangreind niðurstaða ber með sér hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að frásögn kæranda um ofsóknir af hálfu Al-Shabaab sé ótrúverðug. Þá hefur kærunefnd yfirfarið öll gögn málsins, málsmeðferð Útlendingastofnunar og ákvörðun hennar í máli kæranda og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í máli hans. Kærunefnd hefur tekið afstöðu til athugasemda kæranda að því leyti sem þær kunna að hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli hans. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Brottvísun og endurkomubann
Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 1.4.2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
Hinn 30. janúar 2023 var kæranda tilkynnt að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri honum með endurkomubanni til tveggja ára. Var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í athugasemdum kæranda, dags. 2. febrúar 2023, kvaðst kærandi ekki hafa tengsl við Ísland. Kærandi kvað það ósanngjarnt að þurfa að fara þegar K fengi heilbrigðisaðstoð hér á landi og væri í meðferð vegna þess.
Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.
Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og tekið fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Valgerður María Sigurðardóttir