Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2009 Innviðaráðuneytið

Samkomulag um undirbúning samgöngumiðstöðvar

Samgönguráðherra og borgarstjóri undirrituðu í dag minnisblað vegna framkvæmda við samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og vegna skipunar samráðsnefndar um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar.
Skrifað undir samkomulag um samgöngumiðstöð og Reykjavíkurflugvöll
Skrifað undir samkomulag um samgöngumiðstöð og Reykjavíkurflugvöll.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Kristján Möller samgönguráðherra undirrituðu samkomulagið og fögnuðu þau bæði að hafa náð þeim áfanga að hefja nú undirbúning samgöngumiðstöðvar. Verður hún löguð að breyttum efnahagsaðstæðum og er stefnt að því að Flugstoðir geti hafið framkvæmdir á árinu.

Fyrsti áfangi samgöngumiðstöðvar

Í minnisblaðinu kemur fram að framkvæmdir við samgöngumiðstöð eru mikilvægt innlegg opinberra aðila til að skapa atvinnu við núverandi efnahagsaðstæður. Hlutverk samgöngumiðstöðvar er mikilvægt, hvort sem innanlandsflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni eða ekki, enda er samgöngumiðstöð ætlað að hýsa alla samgöngustarfsemi í Vatnsmýrinni til framtíðar. Gerðar hafa verið breytingar á samgöngumiðstöðinni og hún aðlöguð að breyttum efnahagsaðstæðum og færri farþegum en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun.

Flugstoðir ohf. munu reisa fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar. Staðsetning hennar verður í samræmi við svokallaðan austurvalkost, en unnið hefur verið að skipulagsmálum og fleiri þáttum honum tengdum í nokkurn tíma. Ríkið og Reykjavíkurborg munu hafa með sér makaskipti á lóðum þannig að ríkið afhendir Reykjavíkurborg jafn verðmætt land í eigu ríkisins gegn lóð Reykjavíkurborgar þar sem samgöngumiðstöð rís. Stefnt er að því að niðurstaða varðandi alla þætti liggi fyrir svo fljótt sem verða má þannig að framkvæmdir við fyrsta áfanga samgöngumiðstöðvar geti hafist á þessu ári.

Í samræmi við minnisblað borgarstjóra og samgönguráðherra dags. 11. febrúar 2005 munu samgönguyfirvöld loka NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli en við það skapast svæði til annarra nota, meðal annars fyrir samgöngumiðstöð. Í samræmi við sama minnisblað er ítrekað að samgönguráðherra og borgarstjóri eru sammála um að með byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni sé ekki verið að taka afstöðu til framtíðar Reykjavíkurflugvallar.

Samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar

Borgarstjóri og samgönguráðherra skrifuðu einnig undir samkomulag um samráðsnefnd um málefni Reykjavíkurflugvallar. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að vera samráðsvettvangur ríkis og borgar um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nefndinni er sérstaklega ætlað að fylgja eftir þeim aðgerðum sem lagðar voru til af samráðsnefnd um skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar undir stjórn Helga Hallgrímssonar.

Helstu verkefni samráðsnefndarinnar eru:

  • Að sjá til þess að gerðar séu áætlanir um þær athuganir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru vegna mögulegrar staðsetningar Reykjavíkurflugvallar á Hólmsheiði og Lönguskerjum og fylgjast með framgangi þeirra.
  • Að gera tillögur um framhald flugvallarmálsins með hliðsjón af niðurstöðum úr rannsóknum.
  • Að vinna að samstarfi og samkomulagi milli ríkis og borgar vegna byggingar samgöngumiðstöðvar og annarra mannvirkja á flugvellinum og í nágrenni hans, þar með talið að skipulagi og frágangi bygginga við núverandi flugstöð.
  • Vera vettvangur fyrir umræðu milli aðila um skipulagsmál flugvallarsvæðisins, umhverfismál og önnur málefni í rekstri Reykjavíkurflugvallar sem hafa áhrif á borgarbúa og starfsemi flugvallarins.

Í samráðsnefndinni verða sjö fulltrúar. Þrír verða tilnefndir af samgönguráðherra og þrír tilnefndir af borgarstjóranum í Reykjavík. Borgarstjóri og samgönguráðherra sammælast um sjöunda fulltrúann sem jafnframt verður formaður nefndarinnar. Starfstími samráðsnefndarinnar er til 1. september 2010.

 


 Skrifað undir samkomulag um samgöngumiðstöð og Reykjavíkurflugvöll      
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Kristján L. Möller samgönguráðherra skrifa undir samkomulag um samgöngumiðstöð í Reykjavík og um skipan samráðsnefndar um framtíðarskipan Reykjavíkurflugvallar.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta