Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2009 Innviðaráðuneytið

Greitt fyrir samgöngum í Reykjavík

Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samkomulag um ýmis verkefni í borginni sem stuðla að auknu umferðaröryggi og greitt geta fyrir umferð í borginni. Vegamálastjóri og borgarstjóri skrifuðu undir samkomulagið sem samgönguráðherra vottaði.
Samkomulag um framkvæmdir í Reykjavík
Samkomulag um framkvæmdir í Reykjavík

Reiknað er með að verkin verði unnin á þessu ári en þau snúast einkum um úrbætur á fjölförnum gatnamótum og aðgerðir til að greiða fyrir almenningssamgöngum, umferð gangandi og hjólandi vegfarenda og öryggisaðgerðir. Frumhönnun liggur fyrir og er kostnaðaráætlun kringum 460 milljónir króna. Hlutur Vegagerðarinnar er 320 milljónir króna og Reykjavíkurborgar 140 milljónir.

Verkefnin eru:

  • Bústaðavegur – Kringlumýrarbraut
    Tvöföldun rampa til suðurs í átt að Kringlumýrarbraut ásamt gerð undirganga fyrir gangandi og hjólandi.
  • Bústaðavegur – Flugvallarvegur                                         
    Tvöföldun vinstri beygju til suðurs inn á Flugvallarveg og breikkun Flugvallarvegar til að greiða fyrir umferð.
  • Hringbraut – Njarðargata
    Breyting umferðarljósastýringa úr þremur fösum í fjóra þannig að allar vinstri beygjur séu varðar.
  • Hringbraut – Sæmundargata                                                
    Lagfæring gatnamóta, lenging vinstri-beygjuvasa. Vinstri beygja af Sæmundargötu til vesturs verður bönnuð.
  • Kringlumýrarbraut – Laugavegur – Suðurlandsbraut         
    Breyting umferðarljósastýringa úr þremur fösum í fjóra þannig að allar vinstri beygjur séu varðar.
    Einnig verður gerð sérstök akrein á Suðurlandsbraut fyrir Strætó gegnum gatnamótin til vesturs.                                                                              
  • Kringlumýrarbraut – Borgartún                                           
    Breyting umferðarljósastýringa úr þremur fösum í fjóra þannig að allar vinstri beygjur séu varðar.
    Einnig verður gerð sérstök akrein fyrir Strætó á Kringlumýrarbraut til norðurs inná Borgartún.
  • Miklabraut – Kringlumýrarbraut                                         
    Miklabraut breikkuð frá strætóbiðstöð vestan gatnamótanna til að Strætó fái forgang á umferðarljósum til austurs.
  • Kringlumýrarbraut – Listabraut                                           
    Lenging strætó-biðstöðvar ásamt lagfæringum gönguleiðar yfir Kringlumýrarbraut á móts við Listabraut.
  • Höfðabakki - Vesturlandsvegur                                           
    Aukin afköst gatnamótanna á Höfðabakkabrú. Tilfærslur akreina til að greiða fyrir umferð til norðurs.
  • Breiðholtsbraut – Jaðarsel                                                   
    Breyting á stýringu umferðarljósa til að auka afköst gatnamótanna. Gerð framhjáhlaups til austurs framhjá umferðarljósum.
  • Bústaðavegur – Reykjanesbraut                                                     
    Lagfæring gatnamóta og lokun á vinstri beygju af Bústaðavegi inná Reykjanesbraut til norðurs á álagstímum. Sett verða upp sérstök upplýsingaskilti til að miðla upplýsingum um lokun.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta