Hoppa yfir valmynd
15. júní 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænt atvinnuleysistryggingamót á Akureyri

Heiðraða samkoma

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin til Íslands og hingað til Akureyrar til að eiga ykkar reglubundnu samræðu um atvinnuleysistryggingar og þróun vinnumarkaðarins á Norðurlöndum. Þessi samstarfsvettvangur hefur verið við líði um áratugaskeið, lengi vel án þátttöku Íslendinga, en ég get fullyrt að frá því að við hófum fulla þátttöku í norræna atvinnuleysistryggingamótinu höfum við haft af því mikið gagn og metum það mikils.

Akureyri þar sem þið eruð nú stödd er höfuðstaður Norðurlands og bæjarfélagið hér hefur gengið í gegnum margskonar þróunarskeið. Hér voru lengi vel öflugustu iðnfyrirtæki landsins þar sem framleidd var vefnaðarvara og margskonar úrvinnsla úr landbúnaðarafurðum, auk sjávarútvegs og þjónustu við hann. Alþjóðleg samkeppni og samfélagsmynstrið breytti þessari stöðu og um tíma barðist þetta bæjarfélag við talsvert atvinnuleysi.

Algerum stakkaskiptum olli þó þegar íslenska ríkisstjórnin ákvað að stofnsetja fyrsta háskólann utan Reykjavíkur, hér á Akureyri fyrir tæpum 20 árum. Það hefur hleypt miklu lífi í bæjarfélagið og haft margskonar jákvæð áhrif á atvinnulífið í heild. Er nú svo komið að hér á Akureyri er ekki meira atvinnuleysi en annars staðar á landinu þrátt fyrir hinar sársaukafullu breytingar sem hér urðu á sínum tíma.

Íslenski vinnumarkaðurinn er um margt nokkuð sérstakur, þó svo að vitaskuld séu alltaf svipuð viðfangsefni sem við okkur blasa hvort sem um stór eða lítil samfélög er að ræða.

Atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ávallt verið mikil og er nú með því mesta sem gerist í heiminum hjá báðum kynjum. Vinnan göfgar manninn segjum við hér og Íslendingar vinna að jafnaði langan vinnudag. Það dugir ekki til og um þessar mundir er mjög mikil eftirspurn eftir vinnuafli á vinnumarkaðnum og atvinnuleysi í lágmarki en það mældist um 2.3% nú í síðasta mánuði.

Ríkisvaldið hefur ávallt reynt að örva fjárfestingar í landinu til að viðhalda hagvexti og samkeppnishæfni þjóðarinnar. Um þessar mundir er verið að reisa stærstu vatnsaflsvirkjun á Austurlandi sem byggð hefur verið í landinu til þessa og verður hún jafnframt með þeim stærstu á Norðurlöndum. Einnig er verið að byggja álverksmiðju á Reyðarfirði sem nýta mun raforkuna frá virkjuninni. Þessar framkvæmdir kalla á mikið vinnuafl sem ekki hefur tekist að afla af innlendum vinnumarkaði og því verið þörf á að veita miklum fjölda erlendra starfsmanna atvinnuleyfi til að sinna þessu verkefni. Stór alþjóðleg verktakafyrirtæki standa að framkvæmdunum og við gerum kröfu um að þau virði íslensk launakjör og samskiptahætti á vinnumarkaði. Það hefur gengið á ýmsu í þeim efnum og málið vakið umræðu um þróun vinnumarkaðarins.

Á Norðurlöndum hafa aðstæður á vinnumarkaði og launakjör verið til fyrirmyndar í alþjóðlegum samanburði og það er ákaflega mikilvægt að halda þeirri stöðu. Þess vegna viljum við standa vörð um hið norræna módel. Flæði vinnuaflsins um heiminn gerir kröfu til að við höldum vel á spilunum í þeim efnum. Verkafólk býr víða í heiminum við hraksmánarleg kjör og aðstæður. Frjálst flæði vinnuaflsins á að verða til þess að bæta aðstæður fólks en ekki draga þær niður þar sem aðstæður hafa þótt góðar. Þetta er viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins í hverju hinna norrænu ríkja og ekki er verra að hafa um það samstarf á milli landa.

Síðastliðið ár hefur hér á Íslandi staðið yfir endurskoðun á lögunum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Markmiðið með endurskoðuninni er að bæta stöðu og öryggi fólks sem er atvinnulaust, fjölga úrræðum vinnumiðlunar til að gera atvinnuleitendum kleift að bæta starfshæfni eða skipta um starfsvettvang og auka skilvirkni almennt. Nefnd sem ég setti á laggirnar og skipuð er fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins hefur unnið að málinu og henni var einkum falið að fjalla um eftirfarandi þætti:

Stjórnsýslu og ábyrgð í málaflokknum, þ.m.t. að leita leiða til þess að samræma betur yfirstjórn þessara málaflokka í því skyni að tryggja betri yfirsýn yfir málaflokkinn og gera stjórnsýsluna skilvirkari.

Endurskoðun réttar til bóta, bótatíma og bótafjárhæðar, m.a. með tilliti til þróunar annarrar tryggingaverndar hér á landi, breytinga á samfélagsháttum, viðhorf og þróun á hinum Norðurlöndum og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Úrræði sem eru á færi Vinnumálastofnunar og vinnumiðlana til að aðstoða atvinnuleitendur og skipulag þeirra, þ.m.t. aðferðir og árangur, styrki og stuðning við starfstengda menntun.

Stefnt er að því að nefndin komi fram með tillögur sínar þannig að eg geti lagt fram frumvarp um efnið þegar þing kemur saman í haust. Of fljótt er því að segja til um hvers eðlis þær breytingar verða sem nýtt frumvarp mun fela í sér. Ég get þó upplýst að ég legg mikla áherslu á að viðhalda hvatanum til að fólk leiti sér að vinnu enda þótt ég sé jafnframt talsmaður þess að mönnum sé tryggð lágmarksframfærsla í tímabundnu atvinnuleysi.

Skipulag atvinnuleysistryggingakerfsins á Íslandi byggir um margt á sögulegri hefð og tekur mið af aðstæðum sem hafa tekið verulegum breytingum. Þessu þarf að breyta og því var nefndinni falið, eins og ég sagði áður, að skoða sérstaklega stjórnsýslu og yfirstjórnunarkerfið varðandi atvinnuleysistryggingarnar og vinnumiðlunina. Þessir tveir verkþættir þurfa að fara vel saman vegna þess að við leggjum mikla áherslu á skilduvirknina milli greiddra bóta og viljans til þess að leita sér að vinnu. Það að vera atvinnulaus er tímabundið ástand og atvinnuleysisbæturnar eru aðstoð við einstaklinginn meðan hann er að finna sér annað starf. Þessu má ekki gleyma.

Ég á von á tillögum frá nefndinni um talsvert einfaldað stjórnsýslukerfi og ég treysti á að aðilar vinnumarkaðarins verði mér samtaka um skynsamlegar breytingar í þeim efnum. Opinber þjónusta þarf að vera skilvirk, einföld og gegnsæ, það er krafa borgaranna að svo sé. Þá mega gömul sjónarmið um ætluð völd og áhrif ekki koma í veg fyrir að svo geti orðið.

Þriðji liðurinn í nýjum áherslum í vinnumarkaðsmálum hér á landi er að tengja betur saman starfsendurhæfingu öryrkja sem njóta bóta úr almannatryggingakerfinu við leitina að starfi. Eins og ég hef áður nefnt þá er mikil eftirspurn eftir vinnuafli hér á landi um þessar mundir. Það skýtur því skökku við að stór hópur fólks standi utan vinnumarkaðarins við slíkar aðstæður, en mikilvægt er að beina sjónum að því sem einstaklingar með skerta vinnufærni eru hæfir til. Það er trú mín að stærsti hluti þeirra sem heltst hafa úr lestinni kjósi að komast aftur á vinnumarkaðinn sem virkir þáttakendur. Í umræðunni er því nú mikilvægi þess að setja það sem skilyrði fyrir því að fá greiddar félagslegar bætur, af hvaða tagi sem þær nefnast, að skrá sig sem virkan vinnuleitanda hjá opinberu vinnumiðluninni. Það er þá okkar að búa þá starfsemi vel úr garði svo að hún geti betur ráðið við slíkt verkefni.

Að sama skapi þurfa fyrirtækin í landinu að koma sterkt inn í þetta samstarf. Við þurfum að hafa starfsþjálfunarúrræði inni í fyrirtækjunum til að koma þeim sem standa höllum fæti á vinnumarkaðnum aftur af stað. Skipulag fyrirtækjanna þarf að hafa sveigjanleika til að sýna samfélagslega ábyrgð vegna þess að þetta er sameiginlegt viðfangsefni okkar allra, ekki hvað síst atvinnulífsins vegna þess að það er verðmætasköpunin sem þar verður til, sem stendur undir okkar velferðarkerfi.

Viðfangsefni þessarar ráðstefnu er að skoða áhrif stækkunar Evrópusambandsins á norræna vinnumarkaðinn. Ég hef áður nefnt mikilvægi þess að standa vörð um þau kjör og aðstæður sem við höfum mótað hér á Norðurlöndum. Í ljósi mikils innflutnings á erlendu vinnuafli hingað til lands síðustu ár, og sérstaklega síðasta og yfirstandi ár, þá sjáum við þörf á að breyta löggjöf okkar um atvinnu og dvalarleyfi, til að mæta þessum aðstæðum. Við höfum búið svo um hnútana að tiltölulega auðvelt hefur verið að framlengja atvinnu og dvalarleyfi í landinu, þegar þau hafa einu sinni verið gefin út. Sú staða getur aukið mjög aðgengi að ýmsum félagslegum réttindum á Íslandi t.d. atvinnuleysistryggingum. Af þeirri ástæðu er í gangi um þessar mundir vinna við mótun nýrra leyfaflokka þar sem m.a. verður mögulegt að veita aðgengi að íslenska vinnumarkaðnum í takmarkaðan tíma, án möguleika á framlengingu. Þetta sjáum við sem úrræði þegar bregðast þarf við vinnuaflsskorti við stórar tímabundnar framkvæmdir eins og þær sem standa nú yfir á Austurlandi.

Með stækkun Evrópska efnahagssvæðisins sem tók gildi 1. maí 2004 fjölgaði ríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðisins um tíu og eru í dag 25. Íslensk stjórnvöld ákváðu að nýta sér heimild til sérstakrar aðlögunar á ákvæðum um frjálsa för launafólks og frestuðu gildistöku 1- 6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE til 1. maí 2006. Við stækkun ESB fjölgaði íbúum um rúmar 75 milljónir á Evrópska efnahagssvæðinu. Það mun eigi síðar en 1. maí 2011 njóta allra sömu réttinda um frjálsa för launafólks sem við á um rétt ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins til að ráða sig til vinnu í öðrum aðildarríkjum en sínu eigin. Þessi mikla fjölgun þeirra sem hafa leyfi til að starfa innan EES svæðisins, þar á meðal hér á landi, getur gefið tilefni til að íslensk stjórnvöld takmarki fjölda atvinnuleyfa til þriðja ríkis borgara samhliða því að aðlögunarákvæði í tengslum við innleiðingu framangreindrar reglugerðar verði rýmkuð.

Góðu heilli er atvinnuleysi meðal einstaklinga með erlent ríkisfang lítið hér á landi enn sem komið er og þannig á það líka að vera. Annað kann að vera forskrift af fordómum og neikvæðri umræðu sem við viljum ekki líða í samfélagi okkar.

Ágætu gestir

Því miður get ég ekki verið með ykkur hér á morgun til að fylgjast með þeirri gagnlegu umræðu sem hér mun fara fram. Ég hef þegar fengið gögn ráðstefnunnar í hendur og mun kynna mér þau. Eins og ég nefndi í upphafi þá er afar mikilvægt að skiptast á skoðunum og reynsludæmum um það sem vel hefur verið gert og annað sem betur má fara. Þannig erum við í stöðugu lærdómsferli sem seint mun taka enda.

Ég vona að þið munið eiga hér góða daga og farið heim reynslunni ríkari.

Með þessum orðum segi ég Norræna atvinnuleysistryggingamótið sett.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta