Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Greiðslur fyrir búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimilum

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Greiðslur fyrir búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimilum árið 2012

Ef mánaðartekjur íbúa eru yfir 65.005 kr. á mánuði eftir skatta, tekur hann þátt í dvalarkostnaði fyrir búsetu í dvalar- eða hjúkrunarrými með þeim tekjum sem umfram eru. Greiðsluþátttakan verður þó aldrei hærri en 311.741 kr. á mánuði, allur kostnaður umfram það greiðist af ríkinu.

Munur á innheimtu greiðslna fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými

Einstaklingur í hjúkrunarrými: Tryggingastofnun ríkisins greiðir öldrunarstofnun fullt daggjald fyrir hvern íbúa í hjúkrunarrými (að meðaltali um 680.000 kr. á mánuði). Einstaklingi sem hefur engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga eru tryggðar 46.873 kr. á mánuði sem renna beint til hans frá Tryggingastofnun.

Ef samanlagðar tekjur heimilismanns eftir skatta eru umfram 65.005 kr. á mánuði tekur hann þátt í kostnaði daggjaldsins. Viðkomandi stofnun annast innheimtu á hans hlut í kostnaðinum og endurgreiðir Tryggingastofnun.

Einstaklingur í dvalarrými: Sömu reglur gilda um greiðslur daggjalds fyrir einstakling í dvalarrými og hjúkrunarrými að öðru leyti en því að Tryggingastofnun greiðir beint til stofnunarinnar þann hluta daggjaldsins sem íbúinn á ekki að greiða. Það sem uppá vantar innheimtir stofnunin frá íbúanum sjálfum.

Þrátt fyrir þennan mun er það ávallt stofnunarinnar að innheimta hlut íbúa í daggjaldi þegar uppi er staðið, hvort sem um er að ræða dvalarrými eða hjúkrunarrými.

Greint á milli heilbrigðiskostnaðar og búsetukostnaðar

Við flutning málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis 1. janúar 2008 var miðað við að daggjaldi vegna kostnaðar einstaklinga á öldrunarstofnunum yrði skipt upp, annars vegar yrði kostnaður fyrir heilbrigðisþáttinn, hins vegar kostnaður vegna búsetu og annarrar þjónustu. Þetta hefur ekki verið gert en stefnt er að því að ljúka þessari vinnu áður en málaflokkurinn flyst frá ríki til sveitarfélaga, líkt og unnið er að á vegum nefndar um tilfærsluna. Í stefnu í málefnum aldraðra sem þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra kynnti í júní 2008 segir: „Greiðsluþátttöku aldraðra í hjúkrunar- og dvalarrýmum verði breytt þannig að aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði og greiðslur vasapeninga lagðar af.“ Við yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaga er miðað við að áður en flutningurinn á sér stað hafi verið gerðir þjónustusamningar við allar öldrunarstofnanir um greiðslu kostnaðar og þjónustu sem þeim er ætlað að veita.  

Innheimta kostnaðar á öldrunarstofnunum

Þrátt fyrir áform um að greina á milli þess kostnaðar sem ríkinu ber að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu fólks á öldrunarheimilum annars vegar og hins vegar þátt íbúanna fyrir búsetu og aðra þjónustu hefur ekki verið rætt um að ríkið annist innheimtu á greiðsluþátttöku íbúanna fyrir hönd öldrunarheimilanna. Víðast á Norðurlöndunum er greiðslufyrirkomulaginu háttað þannig að íbúarnir greiða sjálfir fyrir húsnæði, mat og ýmsa þjónustu aðra en þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Öldrunarheimilin innheimta einmitt þennan kostnað hjá íbúunum sem hafa jafnframt ákveðið val um hvaða þjónustu þeir kaupa inni á heimilinu og í hve miklum mæli.

Þess má geta að sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir annast innheimtu á hlut sjúklinga fyrir þeirra þátttöku í kostnaði fyrir heilbrigðisþjónustu. Sama máli gegnir um einkarekna heilbrigðisþjónustu þar sem sjúkratryggingar greiða kostnað að hluta en sjúklingurinn tekur jafnframt þátt í kostnaðinum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta