Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 472/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 472/2019

Þriðjudaginn 11. febrúar 2020

A

gegn

Ísafjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Ísafjarðarbæjar, dags. 31. október 2019, á umsókn hans um námsstyrk til framfærslu haustið 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um námsstyrk til framfærslu haustið 2019 vegna náms við B. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 31. október 2019, með vísan til reglna Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 12. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Ísafjarðarbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 13. desember 2019. Greinargerð Ísafjarðarbæjar barst úrskurðarnefndinni 20. janúar 2020 og var hún send kæranda til kynningar sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og vísar til þess að hann hafi sótt um styrk til aðstoðar við ólánshæft nám við B. Þar sé hann að stunda svipað nám og það sem hann hafi lokið við C. Kærandi sé búsettur á D og styrkurinn myndi hjálpa honum mikið við að lifa þar, borga leigu sem og að kaupa ýmis skólagögn og forrit sem honum þætti gaman að versla. Kærandi eigi ekki neitt bakland til að sækja í og hafi ekki vinnu yfir veturinn. Honum þyki vænt um námið og finnist hann vera að læra það sem hann þurfi til að finna sig á vinnumarkaði. Kæranda þætti hræðilegt að þurfa að hætta náminu og voni innilega að hann fái aðstoð.

III. Sjónarmið Ísafjarðarbæjar

Í greinargerð Ísafjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um námsstyrk hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins þann 9. september 2019. Kæranda hafi þá þegar verið bent á að í 19. gr. reglna Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð kæmi fram að heimilt væri að veita lán/styrki til einstaklinga, 18-24 ára, sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður og hafi ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla. Kærandi hafi lokið bæði grunn- og framhaldsskólaprófi og að auki falli B ekki undir skilgreininguna grunn- eða framhaldsskóli.

Ísafjarðarbær vísar til þess að samskipti ráðgjafa félagsþjónustunnar og kæranda hafi aðallega verið í gegnum tölvupóst í formi ráðgjafar. Kærandi hafi ekki nýtt sér sem skyldi viðtöl sem hafi staðið til boða hjá ráðgjafa. Hann segist ekki hafa komist og ekki látið vita af forföllum. Í þeirri viðleitni að veita kæranda ráðgjöf sem gæti létt á greiðslubyrði hafi honum einnig verið ráðlagt að leigja frekar húsnæði þar sem leigan væri talin fram. Þá væri hægt að sækja um húsnæðisbætur og sérstakar húsnæðisbætur. Kærandi hafi ekki nýtt sér þær ráðleggingar. Þá hafi ráðgjafi bent honum á þann möguleika að leita að vinnu með skóla til að fá einhverjar tekjur, rétt eins og margir nemar geri. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem hún uppfylli ekki tilgreind ákvæði í reglum Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Ísafjarðarbæjar á umsókn kæranda um námsstyrk til framfærslu haustið 2019.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Fjárhagsaðstoð sveitarfélags getur hvort heldur sem er verið lán eða styrkur. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. reglna Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um námsstyrki. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að veita lán/styrki til einstaklinga, 18 til 24 ára, sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður og hafi ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla, sem stuðning við markmið í vinnu með félagsráðgjafa sem miði meðal annars að efnahagslega sjálfstæðu lífi viðkomandi. Umsóknir varðandi námskostnað skuli teknar fyrir hverja önn, þannig að aðstoð greiðist áfram þegar umsækjandi sýni eðlilega námsframvindu. Aðstoðin miðist við fjárhagsaðstoð til framfærslu ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði. Í 2. mgr. 19. gr. segir að leggja skuli inn umsókn um námsstyrki fjórum vikum áður en nám hefjist. Þá segir meðal annars í 3. mgr. ákvæðisins að námsstyrkir séu háðir samkomulagi um félagslega ráðgjöf. Námsmaður þurfi að standa skil á skólasókn, námsframvindu og einkunnum. Miða skuli við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að hann hafi lokið bæði grunn- og framhaldsskólaprófi og að B sé ekki grunn- eða framhaldsskóli. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 19. gr. reglna Ísafjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags. 31. október 2019, um synjun á umsókn A um námsstyrk til framfærslu haustið 2019 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta