Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2015 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um veitingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 007/2015

 

Þriðjudaginn 7. júlí 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með bréfi, dags. 18. júní 2014, kærði A hdl., f.h. B (hér eftir nefnd kærandi), til velferðarráðuneytisins þá ákvörðun Embættis landlæknis frá 20. mars 2014 að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Jafnframt óskaði kærandi með bréfi, dags. 19. júní 2014, endurupptöku málsins og til vara afturköllun á úrskurði ráðuneytisins í máli kæranda, dags. 21. ágúst 2009.

 

I. Kröfur

Gerð er krafa um að málið verði endurskoðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna og að kæranda verði veitt starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins

Embætti landlæknis var með bréfi, dags. 19. júní 2014, send kæran og gefinn kostur á að koma að umsögn og gögnum. Embættið óskaði með tölvupósti, dags. 23. júní 2014, eftir frekari fresti til 31. júlí 2014 til að skila umsögn og var orðið við þeirri beiðni. Umsögn landlæknis ásamt gögnum barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 29. júlí 2014.

Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 18. júlí 2014, var óskað eftir frekari gögnum og svarað einstökum atriðum kæru einkum er varða tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi svo og atriðum varðandi innleiðingu tilskipunar 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB og gildistöku þeirrar breytingar. Með bréfi kæranda, dags. 25. júlí 2014, voru send viðbótargögn í málinu.

Kærandi óskaði með bréfi, dags. 19. júní 2014, eftir endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins, dags. 21. ágúst 2009. Á meðan það erindi var í vinnslu var stjórnsýslukæran, dags. 18. júní 2014, sett í bið. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. október 2014, var beiðni um endurupptöku málsins og til vara afturköllun úrskurðar frá 21. ágúst 2009 hafnað.

Kæranda var með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. október 2014, gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna, varðandi umsögn Embættis landlæknis, dags. 29. júlí 2014, en andmæli kæranda bárust ekki ráðuneytinu.

Þá var kæranda enn fremur tilkynnt í framangreindu bréfi, dags. 27. október 2014, að í ljósi þeirra nýju gagna sem lögð voru fram af kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2014, hafi ráðuneytið ákveðið að senda öll gögn kæranda til bærs stjórnvalds í Póllandi í gegnum svokallað IMI-kerfi og fá skýringar á þeim mismunandi upplýsingum í vottorðum sem kærandi lagði fram frá hinu bæra stjórnvaldi í Torun. Ráðuneytið myndi óska eftir því að staðfest yrði að kærandi uppfylli skilyrði b -liðar 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB hvað varðar nám, starfsheiti og hvort vottorð um starfsreynslu sé í samræmi við þau skilyrði.

Með bréfi kæranda, dags. 6. janúar 2015, var óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins og hvenær niðurstöðu væri að vænta. Ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 13. janúar 2015. Þar var upplýst að vegna erfiðleika við að tengjast IMI-kerfinu hafi ekki tekist að senda gögn kæranda til bærs stjórnvalds í Póllandi, en að líkur væru á að það tækist fljótlega og að niðurstöðu væri að vænta í febrúar eða mars 2015. Með bréfi kæranda, dags. 7. apríl 2015, var ítrekað að ráðuneytið leiti allra leiða til að afgreiða málið án frekari tafa.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 13. apríl 2015, var kærandi upplýst um að þann 24. mars 2015 hafi gögn málsins verið send gegnum IMI-kerfið til bærs stjórnvalds í Póllandi og að svar hafi borist þann 31. mars 2015. Var svar IMI sent kæranda til kynningar og upplýst að málið væri til efnislegrar meðferðar í ráðuneytinu, en vegna anna og væntanlegra sumarleyfa starfsmanna gæti afgreiðsla þess tafist fram í ágúst 2015. Ráðuneytinu bárust með bréfi kæranda, dags. 22. apríl 2015, viðbótarsjónarmið í málinu.

III. Málsatvik

Þann 16. nóvember 2006 sótti kærandi um starfsleyfi sem sjúkraliði og var umsóknin byggð á menntun hennar í Póllandi sem hjúkrunarfræðingur. Starfsleyfi sem sjúkraliði var gefið út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu þann 30. janúar 2007. Með bréfi, dags. 18. september 2007, sótti kærandi um starfsleyfi til ráðuneytisins sem hjúkrunarfræðingur. Umsóknin var byggð á sömu gögnum og fyrri umsókn um starfsleyfi sem sjúkraliði. Umsóknin var send hjúkrunarráði til umsagnar og barst svar þann 4. janúar 2008. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt framlögðum gögnum vantaði upplýsingar um tímafjölda í fræðilegu og verklegu námi ásamt ítarlegri upplýsingum um innihald náms. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. janúar 2008, var kæranda send umsögn hjúkrunarráðs og veittur andmælafrestur til 25. janúar 2008. Móttekin voru í ráðuneytinu viðbótargögn varðandi umsókn kæranda þann 7. mars 2008.

Með lögum nr. 12/2008 var útgáfa starfsleyfa flutt frá ráðuneytinu til Landlæknisembættisins  (nú Embætti landlæknis) og kom breytingin til framkvæmda þann 1. apríl 2008. Þar með fluttist umsókn kæranda, sem var óafgreidd í ráðuneytinu, til embættisins. Þau viðbótargögn sem borist höfðu ráðuneytinu frá kæranda þann 7. mars 2008 voru send af embættinu til hjúkrunarráðs til umsagnar. Í umsögn hjúkrunarráðs, dags. 8. maí 2009, kom fram að kærandi uppfyllti ekki tilskilin viðmið hjúkrunarráðs varðandi menntunarstig til að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi. Með bréfi embættisins, dags. 21. maí 2008, var kæranda gefinn frestur til að koma að andmælum varðandi umsögn hjúkrunarráðs til 21. júní 2008. Með bréfi kæranda til embættisins, dags. 19. nóvember 2008, var kærð sú niðurstaða hjúkrunarráðs að veita kæranda ekki leyfi til að starfa sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi. Framsendi embættið erindi kæranda til ráðuneytisins með bréfi, dags. 1. desember 2008. Þar sem niðurstaða hjúkrunarráðs var ekki bindandi niðurstaða í málinu endursendi ráðuneytið erindið þann 11. desember 2008 til embættisins til ákvörðunar varðandi umsókn kæranda um hjúkrunarleyfi.

Landlæknisembættið sendi kæranda bréf, dags. 17. desember 2008, þar sem kæranda var tilkynnt að embættið myndi að nýju taka umsóknina um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur til afgreiðslu. Kæranda var gefinn kostur á að gera grein fyrir því hvort hún teldi sig uppfylla ákvæði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Með bréfi, dags. 5. janúar 2009, sendi kærandi rökstuðning í máli sínu. Landlæknir synjaði kæranda um hjúkrunarleyfi á Íslandi með bréfi, dags. 19. mars 2009. Ákvörðun landlæknis var staðfest með úrskurði ráðuneytisins, dags. 21. ágúst 2009.

Kærandi sendi nýja umsókn um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur til Embættis landlæknis þann 7. janúar 2014. Með bréfi embættisins, dags. 14. janúar 2014, til kæranda var óskað eftir rökstuðningi frá kæranda um hvað hún teldi hafa breyst frá því að embættið sendi fyrri niðurstöðu sína. Embættinu barst ljósrit af tilskipun 2013/55/EB og bréf lögmanns, dags. 24. mars 2014. Embættið synjaði kæranda um starfsleyfi með ákvörðun, dags. 20. mars 2014.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda

Í bréfi til velferðarráðuneytisins, dags. 18. júní 2014, er kærð ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 20. mars 2014, um að synja kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Í kæru kemur fram að kærandi sé fædd í Póllandi og hafi lokið námi sem hjúkrunarfræðingur þar árið 1985 og starfað sem slíkur í 20 ár í Póllandi. Kærandi hafi flutt til Íslands árið 2005 og fengið starfsleyfi sem sjúkraliði árið 2007 og starfi sem slíkur á Landspítalanum. Kærandi hafi gilt hjúkrunarleyfi í Póllandi.

Lagagrundvöllur málsins sé lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, reglugerð nr. 461/2011, tilskipun 2005/36/EB og tilskipun 2013/55/EB. Þá kemur fram að kærandi telji sig hafa tilskilda menntun og starfsreynslu samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar og reglugerðarinnar til að hljóta starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi. Þá eigi kærandi rétt á sjálfkrafa viðurkenningu starfsleyfis á grundvelli tilskipunar 2013/55/EB.

Í kæru er vísað til tilskipunar 2005/36/EB, en þar sé að finna sérákvæði um pólska hjúkrunarfræðinga. Þar komi fram sú „almenna regla“ að pólskir hjúkrunarfræðingar sem lokið hafi námi eftir 1. maí 2004 eigi rétt á sjálfkrafa viðurkenningu á EES-svæðinu, en þeir sem luku námi fyrir framangreinda dagsetningu geti átt rétt á starfsleyfi skv. 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB, en þar segi:

2. Að því er varðar vitnisburð um menntun og hæfi hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun frá Póllandi gilda einungis eftirfarandi ákvæði um áunnin réttindi: Aðildarríkin skulu, að því er varðar ríkisborgara aðildarríkjanna, sem hafa undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem var gefinn út í Póllandi eða ef námið hófst þar fyrir 1. maí 2004 og viðkomandi fullnægir ekki lágmarkskröfum um menntun sem mælt er fyrir um í 31. gr., viðurkenna eftirfarandi vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem fullnægjandi sönnun ef honum fylgir vottorð þar sem fram kemur að þessir ríkisborgarar aðildarríkis hafi í reynd og með lögmætum hætti gegnt starfi sem hjúkrunarfræðingar í almennri hjúkrun í Póllandi í þann tíma sem er tilgreindur hér á eftir:

a) vitnisburður um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings á háskólastigi (dyplom licencjata pielęgniarstwa), a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfudag vottorðsins,

b) vitnisburður um formlega menntun og hæf hjúkrunarfræðings sem vottar að námi eftir framhaldsskólastigið hafi verið lokið frá fagskóla á sviði læknavísinda (dyplom pielęgniarki albo pielęgniarki dyplomowanej), a.m.k. fimm ár samfellt á næstliðnum sjö árum fyrir útgáfudag vottorðsins.

Kærandi hafi prófskírteini sem hjúkrunarfræðingur (pielegniarki dyplomowanej) og falli undir b-lið framangreindrar 33. gr. Þetta komi fram í vottorði sem fylgi kæru og staðfesti prófgráðu og starfsréttindi kæranda. Kærandi hafi lokið fimm ára námi í hjúkrun. Í ákvæðinu standi dyplom pielęgniarki albo pielęgniarki dyplomowanej, en albo þýði „eða“. Þá uppfylli kærandi enn fremur skilyrði um starfsreynslu, en kærandi hafi starfað í 20 ár sem hjúkrunarfræðingur í Póllandi eða þar til hún flutti til Íslands árið 2005. Þá hafi kærandi gilt starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur þar í landi. Kæranda sé ekki ljóst hvernig stjórnvöld á Íslandi hafi komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki, sbr. úrskurð, dags. 21. ágúst 2009. Kærandi telji því að skilyrði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB séu uppfyllt.

Þá eru í kæru reifuð ákvæði tilskipunar 2013/55/EB, en vísað er til umfjöllunar í kæru hvað það varðar.

Í bréfi kæranda, dags. 22. apríl 2015, koma fram viðbótarsjónarmið og gerðar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð málsins m.t.t. málshraðareglu stjórnsýsluréttar, einkum hvað varðar tafir varðandi sendingu gagna til yfirvalda í Póllandi og að með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. apríl 2015, hafi verið boðaðar frekari tafir.

Þá er vísað til svara pólskra yfirvalda er fylgdu bréfi ráðuneytisins, en þar komi skýrt fram að kærandi uppfylli kröfur tilskipunar 2005/36/EB. Viðbrögð ráðuneytisins við svari pólskra yfirvalda um að eitthvað vanti upp á að kærandi uppfylli kröfur 33. gr. tilskipunarinnar, þ.e. að litið verði svo á að 20 ára starfsreynsla kæranda sem hjúkrunarfræðingur í Póllandi falli ekki innan fimm ára á næstliðnum sjö árum miðað við daginn í dag. Kærandi telji að taka verði tillit til þess að þegar sótt var fyrst um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur árið 2007 hafi öll skilyrði um starfsreynslu verið uppfyllt, en umsókninni hafi verið hafnað á þeim grundvelli að menntun kæranda uppfyllti ekki skilyrði tilskipunarinnar. Nú liggi aftur á móti staðfest fyrir að sú niðurstaða hafi verið röng. Grundvallarreglan um impossibilium nullla obligatio est komi til skoðunar einkum í því sambandi að starfsréttindi falli innan gildissviðs stjórnarskrárákvæða um atvinnufrelsi og eignarréttindi. Vísar kærandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (mál nr. 53080/13) því til stuðnings. Kærandi telji að sömu sjónarmið og fram komi í framangreindu máli eigi við í máli sínu. Ekki fáist staðist að kæranda sé refsað fyrir að uppfylla ekki skilyrði um fimm ára starfsreynslu af síðustu sjö, þar sem kærandi hafi árið 2007 uppfyllt skilyrðið.

Kærandi krefst þess að ákvörðun landlæknis verði felld brott og henni veitt leyfi sem hjúkrunarfræðingur hér á landi.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis

Í umsögn Embættis landlæknis um kæruna, dags. 29. júlí 2014, er málsmeðferð embættisins rakin. Þar kemur fram að kærandi hafi sótt um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur með bréfi, dags. 7. janúar 2014. Kærandi hafi áður sótt um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur með umsókn, dags. 18. september 2007. Umsókninni hafi verið synjað og sú synjun staðfest með úrskurði, dags. 21. ágúst 2009. Þá er rakið ákvæði 2. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi, nr. 512/2013.

Þá kemur fram að í tengslum við fyrri umsókn kæranda hafi embættið óskað eftir umsögn hjúkrunarráðs og hafi niðurstaða hjúkrunarráðs verið sú að samkvæmt gögnum málsins uppfyllti kærandi ekki viðmið um menntunarstig til að hljóta starfsleyfi á Íslandi. Synjun embættisins byggist á því að kærandi hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til menntunar hjúkrunarfræðinga og framlögð gögn breyti ekki forsendum úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins, þar sem kröfur hafi ekki breyst hér á landi til að fá starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur. Kærandi hafi ekki lagt fram nein ný gögn frá fyrri umsókn. Vísar embættið til bréfs, dags. 20. mars 2014, og úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins, dags. 21. ágúst 2009. Þá sé ekki talin þörf á að rekja ákvæði tilskipunar 2005/36/EB, en hún hafi verið innleidd með reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

Í bréfi embættisins, dags. 20. mars 2014, kemur meðal annars að kærandi hafi verið beðin um að koma með upplýsingar sem breytt gætu niðurstöðu úrskurðar heilbrigðisráðuneytisins. Hafi kærandi ekki lagt fram slíkar upplýsingar. Með þeim gögnum er fylgdu umsókn kæranda, dags. 7. janúar 2014, verði ekki séð að þau breyti forsendum úrskurðar, dags. 21. ágúst 2009, en kröfur til starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur hafi ekki breyst frá árinu 2009. Skýringar sem vísað sé til um breytingu samkvæmt tilskipun 2013/55/EB á tilskipun 2005/36/EB eigi ekki við, enda verði ekki séð hvernig þær breytingar, ef innleiddar væru í landsrétt hér á landi, gætu haft áhrif á niðurstöðu í máli kæranda.

Var umsókn kæranda um hjúkrunarleyfi því synjað með bréfi embættisins, dags. 20. mars 2014.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að synjun landlæknis um útgáfu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til handa kæranda. Í kæru er þess krafist að ráðuneytið veiti kæranda starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur þar sem uppfyllt séu skilyrði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB. Þá er og vísað til tilskipunar 2013/55/EB.

Um kæru gildir reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES ríkjum, nr. 461/2011, samanber og tilskipun 2005/36/EB sem var innleidd hér á landi með lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, og með framangreindri reglugerð nr. 461/2011. Tilskipun 2013/55/EB hefur ekki verið innleidd í landsrétt hér á landi og á því ekki við í máli kæranda.

Um umsókn kæranda um starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur fer skv. 7. gr. reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, samanber og fylgiskjal IV, um sérstök áunnin réttindi hjúkrunarfræðinga frá Póllandi og Rúmeníu.

Með ákvæðinu er 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB innleidd í íslenskan rétt. Tilskipun 2005/36/EB tekur á þeirri aðlögun sem sett var um nám pólskra hjúkrunarfræðinga við inngöngu Póllands í Evrópusambandið 1. maí 2004.

Við veitingu starfsleyfa til hjúkrunarfræðinga hér á landi ber að hafa til hliðsjónar þær kröfur sem settar eru fram í reglugerð nr. 461/2011 sem innleiðir tilskipun 2005/36/EB hér á landi. Í ljósi þess að kærandi lauk menntun sinni í Póllandi fyrir árið 2004 gilda ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 461/2011 og fylgiskjal IV, sbr. og 2. lið 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á menntun hennar.

Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 461/2011 segir:

Umsækjandi með vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem hjúkrunarfræðingur frá Póllandi og Rúmeníu sem annaðhvort er útgefið fyrir þau tímamörk sem koma fram í lið 5.2.2 V. viðauka tilskipunarinnar eða varðar menntun sem hefur hafist fyrir þau tímamörk, á aðeins rétt á starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur ef uppfyllt eru þau skilyrði sem fram koma í fylgiskjali IV.

Í fylgiskjali IV segir meðal annars í 1., 2. og 4. gr. um sérstök áunnin réttindi hjúkrunarfræðinga frá Póllandi:

1. gr.

Landlæknir skal viðurkenna, að því er varðar ríkisborgara í EES-ríki sem hafa undir höndum vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem var gefin út í Póllandi eða ef námið hófst þar fyrir 1. maí 2004 og viðkomandi uppfyllir ekki lágmarkskröfur um menntun sem mælt er fyrir um í 31. gr. tilskipunarinnar, eftirfarandi vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun ef vitnisburðinum fylgir vottorð þar sem fram kemur að umsækjandi hafi í reynd og með lögmætum hætti gegnt starfi sem hjúkrunarfræðingur í almennri hjúkrun í Póllandi í þann tíma sem tilgreindur er hér á eftir:

a. vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings á háskólastigi (diplom licencjata pielęgniarstwa), a.m.k. þrjú ár samfellt á næstliðnum fimm árum fyrir útgáfu vottorðsins og

b. vitnisburð um formlega menntun og hæfi hjúkrunarfræðings í almennri hjúkrun sem vottar að námi eftir framhaldsskólastigið hafi verið lokið frá fagskóla á sviði læknavísinda (diplom pielęgniarki albo pielęgniarki dyplomowanej), a.m.k. fimm ár samfellt á næstliðnum sjö árum fyrir útgáfu vottorðsins.

2. gr.

Landlæknir skal viðurkenna vitnisburð um formlega menntun og hæfi í hjúkrunarfræði, gefið út í Póllandi til handa hjúkrunarfræðingum sem hafa lokið námi fyrir 1. maí 2004 sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um menntun sem mælt er fyrir um í 31. gr. tilskipunarinnar, að því tilskildu að umsækjandi leggi fram prófskírteini fyrir nám sem samsvarar BS-prófi og að það hafi verið gefið út eftir að umsækjandi lauk sérstakri endurmenntun sem er að finna í 11. gr. pólskra laga frá 20. apríl 2004 um breytingu á lögum um starfsgreinar hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og öðrum pólskum lagagerningum, og reglugerð pólska heilbrigðisráðherrans frá 11. maí 2004 um nákvæm skilyrði varðandi menntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem hafa lokið prófi á framhaldsskólastigi (lokapróf – „matura“) og námi við læknaskóla og fagskóla á sviði hjúkrunarfræða og ljósmóðurfræða, með það að markmiði að staðfesta að umsækjandi búi yfir sambærilegri þekkingu og hæfni og hjúkrunarfræðingar sem hafa öðlast þá menntun og hæfi sem eru, að því er Pólland varðar skilgreind í lið 5.2.2 í V. viðauka tilskipunarinnar.

4. gr.

Fyrrgreind störf skv. 1. og 2. gr. skulu hafa falið í sér fulla ábyrgð á áætlanagerð, skipulagningu og stjórnun hjúkrunar sjúklinga.

Í ljósi nýrra gagna sem kærandi lagði fram  ákvað ráðuneytið að senda þau til bærs stjórnvalds í Póllandi í gegnum svokallað IMI-kerfi og fá skýringar á mismunandi upplýsingum sem fram koma í framlögðum vottorðum frá hinu bæra stjórnvaldi í Torun. Ráðuneytið óskaði eftir því að staðfest yrði að kærandi uppfylli skilyrði b-liðar 33. gr. tilskipunarinnar hvað varðar nám, starfsheiti og hvort vottorð um starfsreynslu sé í samræmi við kröfur 33. gr. tilskipunarinnar.

Sökum erfiðleika við tengingu við IMI-kerfið voru gögn málsins ekki send bæru stjórnvaldi í Póllandi gegnum IMI fyrr en 24. mars sl. og barst svar þann 31. mars sl. Reynt var að senda gögnin með tölvupósti, dags. 29. september 2014, en í svari bærs yfirvalds í Póllandi var bent á að senda bæri slíkar fyrirspurnir með formlegum hætti gegnum IMI. Í svari, dags. 31. mars 2015, frá bæru yfirvaldi í Póllandi, kemur fram að fyrirspurnin hafi farið til Chamber of Nurses and Midwifes í Turin. Í svörunum kemur fram að kærandi uppfylli vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem heimili henni að starfa í Póllandi. Þá á kærandi samkvæmt svarinu að hafa vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem um getur í viðauka 5.2.2 tilskipunar 2005/36/EB. Þá er enn fremur í svarinu staðfest að vitnisburður kæranda uppfylli kröfur 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB um áunnin réttindi og sé hann metinn á sama hátt og prófskírteini sem talin séu upp í viðauka tilskipunarinnar. Kæranda sé heimilt að starfa í Póllandi án krafna um áunnin réttindi.

Ráðuneytið telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að kærandi hafi lagt fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi skv. b -lið 1. gr. fylgiskjals IV reglugerðar nr. 461/2011, sbr. og b- lið 2. mgr. 33. gr. tilskipunarinnar. Vottorð, dags. 24. júlí 2014, svo og svör við fyrirspurn ráðuneytisins gegnum IMI-kerfið frá bæru yfirvaldi í Póllandi staðfesta að nám kæranda uppfylli ákvæði 33. gr. tilskipunar 2005/36/EB.

Vottorð um starfsreynslu sem fylgja skal vitnisburði um formlega menntun og hæfi gefið út af bæru stjórnvaldi í Póllandi sem kveðið er á um í 7. gr., sbr. fylgiskjal IV með reglugerð nr. 461/2011, og fylgdu kæru, eru dagsett 20. desember 2006, 30. júní 2010 og 10. desember 2013. Samkvæmt vottorði, dags. 20. desember 2006, kemur fram að kærandi hafi verið ráðin sem hjúkrunarfræðingur og starfað sem slíkur í Póllandi frá 15. júlí 1985 fram að útgáfu vottorðsins. Kærandi hafi þó verið í ólaunuðu leyfi frá 17. júlí 2005 til 31. júlí 2007. Í vottorði, dags. 30. júlí 2010, kemur fram að kærandi hafi verið ráðin til starfa frá 15. júlí 1985 til 31. desember 1993 og frá 1. janúar 1994 til útgáfu vottorðsins. Kærandi hafi verið í ólaunuðu leyfi frá 15. júlí 2005 til 30. apríl 2010 og verði í ólaunuðu leyfi frá 1. ágúst 2010 til 31. júlí 2011. Þá kemur fram í vottorði, dags. 10. desember 2013, til viðbótar við framangreint að kærandi sé í ólaunuðu leyfi til 31. júlí 2014. Öll framangreind vottorð eru gefin út af District Chamber of Nurses and Midwivesí Turin.

Vottorð, dags. 20. desember 2006, staðfestir að kærandi hafi starfað sem hjúkrunarfræðingur frá 15. júlí 1985 til 15. júlí 2005, eða í tuttugu ár fyrir útgáfu vottorðsins. Vottorð það er fylgja skal vitnisburði um formlega menntun og hæfi skv. b -lið 1. gr. fylgiskjals, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 461/2011, skal votta að hjúkrunarfræðingur hafi a.m.k. starfað í fimm ár samfellt á næstliðnum sjö árum fyrir útgáfu vottorðsins. Ekki er miðað við næstliðin sjö ár fyrir umsókn um starfsleyfi í hjúkrun.

Með vísan til framanritaðs er synjun landlæknis, dags. 20. mars 2014, felld brott og lagt fyrir Embætti landlæknis að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar að nýju með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma hér að framan og gefa út starfsleyfi til handa kæranda sem hjúkrunarfræðingur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun landlæknis um synjun á staðfestingu starfsleyfis sem hjúkrunarfræðingur til B er hér með felld brott og lagt fyrir Embætti landlæknis að gefa út starfsleyfi til handa kæranda sem hjúkrunarfræðingur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta