Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2014 Innviðaráðuneytið

Nærri 200 manns sóttu rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar

Nærri 200 manns sóttu þrettándu rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin var í Reykjavík í gær og hlýddu á 20 fyrirlestra um margs konar rannsóknir og kannanir á sviði vega-, umferðar- og hafnamála. Samkvæmt vegalögum eiga 1,5% af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar að renna til rannsókna- og þróunarstarfs og eru mörg verkefna sem Vegagerðin styrkir kynnt á þessum árlegu ráðstefnum.

Fjölbreytt efni var til umræðu á rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar.
Fjölbreytt efni var til umræðu á rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar.

Ráðstefnuna sitja starfsmenn Vegagerðarinnar víða af landinu, fulltrúar ráðgjafa- og verkfræðifyrirtækja, fulltrúar samgönguyfirvalda, fræðasamfélagsins og fleiri. Þórir Ingason, sem fer fyrir þeim sem séð hafa um undirbúning ráðstefnunnar fyrir hönd Vegagerðarinnar, sagði að um 170 milljónir króna hefðu verið til ráðstöfunar til rannsóknastarfsins og vísaði hann í skýrslur um rannsóknirnar fyrir árin 2012 og 2013 sem finna má á vef Vegagerðarinnar.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði við ráðstefnulok að fagnaðarefni væri hversu fyrirlestrarnir endurspegluðu fjölbreytt verkefni sem tekin væru til rannsóknar. Hvatti hann sérfræðinga og háskólanema til að sækjast eftir styrkjum til rannsókna- og þróunarsviðs Vegagerðarinnar vegna verkefna sinna. Hann sagði ánægjulegt að eftir breytingu á samgöngustofnunum féllu nú hafnamál undir verksvið Vegagerðarinnar en í einum fyrirlestri var fjallað um sjávarborðsrannsóknir og strauma við Hornafjarðarós. Þá var til dæmis fjallað um síldardauðann í Kolgrafafirði og um könnun á legu útfalla og farvega fallvatna frá Síðujökli og hvernig þau geta breyst þegar jökull hopar. Sagði vegamálastjóri að eðlilegt væri að fylgjast með breytingum á jöklum og hvort þróun og breytingar á fallvötnum gætu haft áhrif á samgöngumannvirki.

Frá rannsóknarráðstefnunni sem haldin var í gær.

Af rannsóknum sem beinlínis tengjast vega- og samgöngumálum má nefna kynningu um loftræstingu jarðganga og reiknilíkan sem verkfræðistofan Mannvit hefur þróað á því sviði, kynntar voru aðferðir við að meta kostnað umferðarslysa og virði lífs, fjallað var um ávinning af stefnumótun fyrir hjólreiðar á landsvísu og um áhrif hraðatakmarkana við vinnusvæði. Einnig var fjallað um sértækari efni eins og malbiksrannsóknir, um handbók um vinnslu á steinefnum fyrir vegagerð og gæðastýringu á birgðum og innkaup Vegagerðarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta