Tvær nýjar samgöngustofnanir taka til starfa
Tvær nýjar samgöngustofnanir sem verða til við sameiningu fjögurra eldri stofnana taka til starfa í dag: Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun á sviði samgöngumála og Vegagerðin framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti ávarp á blaðamannafundi þegar stofnanirnar voru kynntar og sagði þetta nýja skipulag meðal annars hafa það markmið að bæta þjónustu við almenning.
Í ávarpi sínu sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir að markmiðið með breytingunum væri fyrst og fremst bætt þjónusta en einnig faglegur ávinningur og að verkaskipting yrði skýrari. Sérhæfing væri aukin, yfirstjórn yrði styrkari og auðveldara væri að ná fram markmiðum samgönguáætlunar. Um leið og faglegur ávinningur næðist fengist einnig aukin hagkvæmni, skilvirkni og bætt nýting fjármuna.
Hermann Guðjónsson, forstjóri Samgöngustofu, og Gunnar Gunnarsson, staðgengill Hreins Haraldssonar, forstjóra Vegagerðarinnar, fluttu einnig ávörp við athöfnina. Kom fram í máli þeirra að stofnununum er ætlað að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum.
Vegagerðin annast uppbyggingu, viðhald og rekstur samgöngukerfis ríkisins að flugvöllum undanskildum og sinnir stofnunin framkvæmdaeftirliti með uppbyggingu vega og hafna auk þess að hafa eftirlit með umferð, færð og ástandi vega. Enn fremur sinnir stofnunin rekstri og viðhaldi vita, sjómerkja og eftirlitskerfa sem og rekstri Landeyjarhafnar og ferjubryggja. Starfstöðvar Vegagerðarinnar eru 19 talsins og munu um 280 manns starfa hjá stofnuninni víðs vegar um landið.
Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast þau og eftirlit er lýtur að flugmálum, hafnamálum og málum er varða sjóvarnir, siglingamál, umferðarmál og vegamál. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Meðal helstu verkefna Samgöngustofu er skráning skipa, flugvéla og bifreiða, leyfisveitingar og eftirlit á sviði siglinga, flugs og umferðar, menntunarmál áhafna og einstaklinga er varða samgöngur, skírteinisútgáfa, öryggisáætlanir er varða loft, láð og lög, rannsóknir, skráning og greining slysa og fræðslumál. Stofnunin ákveður kröfur til samgöngumannvirkja og hefur eftirlit með að þeim sé fylgt. Þá annast stofnunin samskipti við alþjóðastofnanir á sviði samgangna og gætir þar íslenskra hagsmuna. Hjá Samgöngustofu munu starfa um 160 manns.
Stofnanirnar munu fyrst um sinn starfa í sama húsnæði og áður og hefur öllum starfsmönnum verið boðið áframhaldandi starf hjá nýju stofnunum.
Sjá má frekari upplýsingar um hinar nýju stofnanir á vefsíðum þeirra: