Hoppa yfir valmynd
30. september 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp velferðarráðherra á þingi Læknafélags Íslands um tóbaksvarnir

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, ávarpaði fyrir hans hönd þing Læknafélags Íslands um tóbaksvarnir sem var sett um hádegisbil í dag, og ræddi meðal annars um tengsl tóbaksnotkunar við útbreiðslu langvinnra sjúkdóma:

„Við höfum margt að vinna takist okkur áfram að draga úr tóbaksnotkun landsmanna. Um skaðsemina þarf ekki að fjölyrða. Sameinuðu þjóðirnar héldu fyrr í þessum mánuði fund með fulltrúum æðstu stjórnvalda aðildarríkjanna þar sem til umfjöllunar voru svokallaðir ósmitnæmir sjúkdómar eða langvinnir sjúkdómar. Vaxandi athygli beinist að langvinnum sjúkdómum sem vaxandi heilsufarsvanda enda er nú fjallað um þá sem faraldur vegna þess hve mjög þeir eru í sókn og herja á þjóðir heims eins og faraldur.

Reykingar og önnur tóbaksnotkun á ríkan þátt í mikilli og ört vaxandi útbreiðslu langvinnra sjúkdóma um allan heim á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, lungna- og öndunarfærasjúkdóma og krabbamein. Um þetta er fjallað í yfirlýsingu sem samþykkt var á fundi Sameinuðu þjóðanna sem ég nefndi áðan og er rík ástæða til að halda á lofti sem áminningu, aðvörun og leiðbeiningum til þjóða heims um að berjast gegn þessu risavaxna vandamáli.“

Í ávarpinu rakti aðstoðarmaður ráðherra helstu aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi til þess að draga úr neyslu tóbaks og fyrirhugaðar lagabreytingar í því skyni sem lagðar verða til á Alþingi á komandi þingi.

„Það hefur sýnt sig að með fjölbreyttum tóbaksvörnum og markvissum aðgerðum næst árangur. Fræðsla og áróður duga ekki ein sér, heldur þarf líka að setja sem mestar skorður við notkun tóbaks og markaðssetningu þess og eins að veita fólki hjálp til þess að venja sig af tóbaki. Síðast en ekki síst hefur verðlagning mikil áhrif og sömuleiðis aðgengi að tóbaki og sýnileiki þess.

Stjórnvöld hafa beitt aðgerðum á öllum þeim sviðum sem ég nefndi og munu halda ótrauð áfram á þeirri braut. Það er allra hagur.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta