Hátt í sex hundruð umsóknir um viðspyrnustyrki afgreiddar
Greiddar hafa verið 734 milljónir króna í viðspyrnustyrki en hátt í sex hundruð umsóknir um styrkina bárust á fyrstu tveimur vikunum eftir að Skatturinn opnaði fyrir þær.
Viðspyrnustyrkjum er ætlað að aðstoða rekstraraðila við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætir og gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá nóvember 2020 til og með maí 2021 og er sótt um styrkina fyrir einn mánuð í senn á vef Skattsins.
Frá því í janúar á þessu ári hafa verið greiddir um 9 milljarðar króna í tekjufallsstyrki en viðspyrnustyrkir eru beint framhald þeirra.
Yfir 1.900 sótt um tekjufallsstyrki
Síðustu mánuði hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. Á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt stuðninginn.
Meira en 1.900 rekstraraðilar hafa sótt um tekjufallsstyrki, sem ætlaðir eru rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli á tímabilinu frá apríl til október með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.
Þá hafa verið greiddir tæpir 2,2 milljarðar króna í lokunarstyrki.
Flest þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið eru með tíu launamenn eða færri. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.