Mál nr. 32/2015
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 32/2015
Hljóðeinangrun: Gólfefni, hljóðmæling.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, beindu A og B , hér eftir nefndir álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C og D, hér eftir nefndir gagnaðilar.
Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, en þau hafa ekki látið málið til sín taka.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 3. desember 2015.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða E sem er fjöleignarhús á alls fjórum hæðum, byggt árið x. Álitsbeiðendur eru eigendur íbúðar x sem staðsett er fyrir neðan íbúð gagnaðila, númer y. Ágreiningur er um hljóðeinangrun á gólfefni.
Krafa álitsbeiðanda er
Að viðurkennt verði að gagnaðilum beri að endurbæta frágang gólfefna í íbúð sinni svo að hljóðeinangrun á milli íbúðanna uppfylli kröfur byggingarreglugerðar.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðendur hafi keypt nýja íbúð í fjöleignarhúsinu við E árið 2006. Samkvæmt skilalýsingu fyrir eignina miðaðist frágangur hennar við að hver og ein íbúð væri fullkláruð við afhendingu án hluta gólfefna og áttu kaupendur að leggja það á sjálfir eða láta leggja það á fyrir sig. Þá var þar einnig tekið fram að gólf yrðu staðsteypt með hljóðeinangrandi dúk og ílögn til að tryggja góða hljóðeinangrun á milli íbúða. Fljótlega eftir að álitsbeiðendur fluttu inn íbúð sína hafi þau orðið vör við að óeðlilega mikill hávaði bærist inn í íbúð þeirra frá íbúð gagnaðila, sem sé staðsett fyrir neðan íbúð gagnaðila, og að hafi þetta valdið þeim miklu ónæði síðustu ár.
Vegna þessa hafi álitsbeiðendur látið gera fyrir sig dómskvadda matsgerð. Í matsgerðinni, dags. 21. júní 2014, staðfestu matsmenn að mælingar á hljóðeinangrun sýni að högghljóðeinangrun á milli íbúðanna væri ófullnægjandi og lakari en kröfur byggingarreglugerðar gera ráð fyrir. Niðurstaða matsmanna hafi verið sú að ef notuð hefði verið rétt gerð af fljótandi hljóðdeyfigólfi hefði það átt að tryggja að högghljóðeinangrun væri innan marka byggingarreglugerðar. Það hefði þó að öllum líkindum orðið misbrestur á framkvæmd við lagningu í sumum íbúðum, m.a. íbúð gagnaðila, sem væri þess valdandi að mörkum byggingarreglugerðar væri ekki náð. Álitsbeiðendur telja að gagnaðilum beri að endurbæta frágang gólfefna í íbúð sinni svo að viðeigandi hljóðeinangrun verði á milli íbúðanna. Því til stuðning vísa álitsbeiðendur til 26. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þar sem kemur fram að eiganda sé á sinn kostnað skylt að halda allri séreign sinni vel við og haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur og afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum. Þar sem gólfefni eru séreign gagnaðila, sbr. 5. gr. fyrrgreindra laga, telja álitsbeiðendur að gagnaðilum beri að koma í veg fyrir það ónæði sem núverandi ástand veldur álitsbeiðendum.
III. Forsendur
Í máli þessu er deilt um hvort gagnaðila beri að endurbæta frágang gólfefna í íbúð sinni til að tryggja að hljóðeingrun sé í samræmi við ákvæði þar um í byggingarreglugerð.
Samkvæmt 2. tölul. 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eru gólf, þar með talið einangrun þeirra, séreign. Eigandi hefur einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greinir í þeim lögum eða öðrum lögum sem leiðir af óskráðum grenndarreglum eða eðli máls eða byggjast á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélagsins, sbr. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga er eiganda skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum.
Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, dagsett 21. júní 2014, um fjöleignarhúsið að E. Þar kemur meðal annars fram að mæld hljóðeinangrun í húsinu sé í sumum tilvikum lakari en kröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998 segja til um, en í þeim hluta fjöleignarhússins telst húsið vera gallað. Í matsgerðinni segir að ef frágangur á fljótandi hljóðdeyfigólfum, eins og voru notuð í fasteignina, hefði verið réttur þá hefði það tryggt högghljóðeinangrun innan marka byggingarreglugerðar. Í matsgerðinni er lagt til að yfirfara frágang gólfefna í íbúðum fyrir ofan þær íbúðir þar sem högghljóðstig hafi verið yfir mörkum byggingarreglugerðar, en það hafi m.a. átt við um íbúð gagnaðila. Þyrfti þar að rjúfa tengingu högghljóðs og útbúa þess í stað raufar með fjaðrandi kítti. Telja matsmennirnir að íbúðareigendur, sem lögðu eða létu leggja gólfið í íbúð sinni, skuli bera kostnað við framkvæmdirnar. Það sé í samræmi við það sem almennt tíðkast þegar frágangur í fjöleignarhúsi veldur því að kröfur byggingarreglugerðar um högghljóðeinangrun eru ekki uppfylltar. Samkvæmt 174 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem var í gildi þegar fjöleignarhúsið var byggt, er hámarks högghljóðstigsgildi (L'n,w-gildi) 58 dB 63 dB 63 dB, í fjöleignarhúsum, en samkvæmt umræddri matsgerð hefur högghljóðstigið verið umfram hámarks högghljóðsgildi milli íbúða x og y.
Með vísan til framangreindrar matsgerðar og 2. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga er það mat kærunefndar að gagnaðila beri að endurbæta frágang gólfefna í íbúð sinni til að tryggja fullnægjandi hljóðeinangrun samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurbæta frágang gólfefna í íbúð sinni til að tryggja fullnægjandi hljóðeinangrun samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998.
Reykjavík, 3. desember 2015
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir