Tillögur um framtíðarskipan líknarþjónustu
Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði til að gera tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi hefur skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Ráðherra tók við skýrslunni og fékk greinargóða kynningu hópsins á efni hennar og tillögum á fundi í ráðuneytinu í fyrir helgi.
Hlutverk starfshópsins var að taka saman yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur til boða sjúklingum á þessu svæði sem eru í þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð, greina núverandi þjónustuþörf, gera tillögur um skipulag og framkvæmd þjónustunnar til framtíðar og setja fram áætlun um kostnað við undirbúning og rekstur í samræmi við tillögurnar. Áður hafði annar starfshópur fjallað um skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á Akureyri og á starfssvæðum heilbrigðisstofnana Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands og má lesa um niðurstöður hans í skýrslunni Samþætting líknar- og lífslokameðferðar: Norðlenska líkanið sem birt var í desember 2017.
Hliðsjón af heilbrigðisstefnu og tilmælum WHO
Starfshópurinn sem nú hefur skilað skýrslu sinni byggði vinnu sína meðal annars á tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að líknarmeðferð verði hluti af heilbrigðisþjónustu þjóða. Sérstaklega var horft til heilbrigðisstefnu til ársins 2030 með hliðsjón af áherslum um veitingu réttrar þjónustu á réttum stað, mikilvægi þjónustustýringar og samspils fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu og einnig var byggt á þeim áherslum sem fram koma í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu heimahjúkrunar og áherslum gildandi fjármálaáætlunar þar sem sett er fram markmið um að bæta aðgengi sjúklinga að sérhæfðri líknar- og lífslokameðferð á heimilum sínum.
Tillögur starfshópsins eru nokkuð margar og settar fram skipulega með upplýsingum um skilgreind markmið einstakra verkefna, um framkvæmdaaðila, mælikvarða og áætlaðan kostnað. Fjallað er jöfnum höndum um líknarþjónustu í heimahúsum, á hjúkrunarheimilum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum. Tillögurnar snúa meðal annars að menntun fagstétta, aukinni þverfaglegri nálgun og meiri sérhæfingu, bættri miðlun gagna, bættri skráningu um líknarmferð, fræðslu til almennings og svo mætti áfram telja. Af einstökum tillögum má nefna tillögu um að Landspítali fái hlutverk sem miðlæg miðstöð líknarmeðferðar með vísan til þess að spítalinn starfræki fjölbreytta og sérhæfða líknarþjónustu og byggi á rúmlega tuttugu ára reynslu hvað það varðar.
Formaður starfshópsins var Berglind Víðsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Aðrir í hópnum voru Valgerður Sigurðardóttir læknir á Landspítala, Rún Halldórsdóttir læknir við Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Sigurður Árnason læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Starfsmaður hópsins var Helga Harðardóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Skýrsla starfshópsins verður nú tekin til umfjöllunar í ráðuneytinu þar sem lagt verður mat á tillögurnar og hvernig megi forgangsraða þeim með hliðsjón af ávinningi og fjármögnun einstakra verkefna.