Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 58/2018 Beiðni um endurupptöku máls 22. ágúst 2018

Varðar beiðni um endurupptöku máls nr. 58/2018

 

 

Ákvæði um endurupptöku er að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 1. tölulið 1. mgr. ákvæðisins segir að aðili máls eigi rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

 

Í umsókn sem fylgdi beiðni viðtakanda um nafnið Aveline (kvk.) kom fram að gert væri ráð fyrir því að nafnið væri eins í öllum föllum, þ.m.t. í eignarfalli. Í 1. mgr. 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn segir að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku. Vegna þess að nafnið Aveline tekur ekki eignarfallsendingu og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku hafnaði mannanafnanefnd beiðni um nafnið. Nú fer viðtakandi fram á endurupptöku málsins á þeirri forsendu að nafnið geti tekið endingu í eignarfalli, Avelinear.

 

Almennt enda kvenmannsnöfn í íslensku ekki á –e. Til eru undantekningar frá þessu eins og nöfnin Salóme og Dóróthe. Þessi nöfn eru endingarlaus í eignarfalli en teljast hafa unnið sér hefð í íslensku og eru þess vegna á mannanafnaskrá. Ekki er hefð fyrir því í íslensku að eignarfallsendingunni –ar sé bætt við stofn sem endar á –e. Þess vegna verður mynd eins og Avelinear að teljast brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

 

Í ljósi framansagðs telur mannanafnanefnd ekki sýnt að ákvörðun hennar í máli 58/2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og getur þess vegna ekki fallist á að skilyrði fyrir endurupptöku málsins séu fyrir hendi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta