Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 7/2010

Þriðjudaginn 12. apríl 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru dags. 5. janúar 2010 kærir X hdl. f.h. A endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins sem til stofnaðist vegna lífeyrisgreiðslna frá X í X og fer fram á ógildingu kröfunnar. Þá fer kærandi fram á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem Tryggingastofnun ríkisins hélt eftir af lífeyrisgreiðslum kæranda frá X í X til skuldajöfnunar á endurkröfunni.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hafði öðlast rétt til lífeyrisgreiðslna frá X í X frá og með 1. júní 2008. Eftir að Tryggingastofnun ríkisins varð kunnugt um þann rétt endurreiknaði stofnunin bótagreiðslur til kæranda frá þeim tíma. Með bréfi dags. 6. október 2009 tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um að vegna tilurðar á rétti hennar til hinna erlendu lífeyrisgreiðslna hafi hún fengið ofgreiddar bætur frá þeim tíma sem til réttarins stofnaðist. Endurgreiðsla lífeyrisgreiðslnanna frá X barst inn á reikning Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hélt eftir hluta endurgreiðslunnar til skuldajöfnuðar á endurkröfu stofnunarinnar sem myndaðist á hendur kæranda vegna hinna ofgreiddu bóta.

Kærandi telur kröfuna ólögmæta þar sem skilyrði 55. gr. laga um almannatryggingar hafi ekki verið uppfyllt. Þá telur kærandi að burtséð frá lögmæti kröfunnar hafi innheimta Tryggingastofnunar ríkisins verið ólögmæt þar sem hún hafi ekki farið fram samkvæmt lögum um almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins telur kröfuna réttmæta þar sem forsenda þess að endurreikningur hafi farið fram hafi verið breyting á grundvelli bótanna. Kærandi hafi fengið lífeyrisgreiðslur frá X í X á grundvelli EBE reglugerðar nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingarreglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja EES samningsins. Þá telur stofnunin skuldajöfnuðinn lögmætan samkvæmt ákvæðum reglugerðar EBE nr. 547/72 um framkvæmd reglugerðar EBE nr. 1408/71.   

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

Skilyrði endurkröfu Tryggingastofnunar eru ekki til staðar. Tryggingastofnun ríkisins (hér eftir einnig nefnt TR) á enga kröfu á A. Stofnunin hefur ekki vísað til þeirrar heimildar sem hún byggir endurreikning og endurskoðun sína á. Væntanlega byggir stofnunin á 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, en skilyrði ákvæðisins eru þó ekki til staðar. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna eru skilyrði fyrir frádrætti á tekjutengdum bótum ef tekjur á ársgrundvelli „eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna“. Þannig þurfa tvö skilyrði að vera til staðar til þess að endurgreiðslukrafa stofnist. Það eitt er ekki nægjanlegt að tekjur séu hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta. Hitt skilyrði ákvæðisins þarf einnig að vera til staðar, þ.e. að ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna. Hin meinta ofgreiðsla TR til A er ekki til komin vegna þess að A hafi vanrækt að tilkynna tekjuaukningu til Tryggingastofnunar. Þannig vantar seinna skilyrði lagaákvæðisins og því er ekki heimild til endurkröfu. Ólögmæt innheimta Tryggingastofnunar ríkisins. Burtséð frá því hvort heimild er til endurkröfunnar hefur Tryggingastofnun ríkisins enga lagastoð til að innheimta kröfu sína með þeim hætti sem hún gerði. Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er heimild fyrir TR til að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til. Í 2. málsl. greinarinnar segir að TR eigi einnig endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum. Af samræmisskýringu við fyrri málslið greinarinnar, önnur ákvæði laganna sem mæla fyrir um endurkröfur og tilgang þessara ákvæða er þó ljóst að „endurkröfuréttur samkvæmt almennum reglum” á einungis við þegar bótaþegi skuldar ofgreiðslur en ekki er hægt að endurkrefja hann með frádrætti af því hann hefur ekki lengur rétt til bóta. Þegar af þessari ástæðu er óheimilt að innheimta ofgreiddar bætur hjá þeim sem enn njóta bóta með öðrum hætti en mánaðarlegum frádrætti. Í öllu falli er ljóst að það felst ekki í endurkröfurrétti „samkvæmt almennum reglum“ að leggja hald á greiðslur frá utanaðkomandi aðila og ráðstafa henni inn á kröfu sem kröfuhafi telur sig eiga. Tryggingastofnun ríkisins hefur þannig enga heimild, hvorki í almannatryggingalögum né samkvæmt almennum reglum, til þess að taka til sín greiðslur annars aðila, sem eru stofnuninni alveg óviðkomandi. Stofnunin getur ekki gert einhliða aðför í greiðslum X til A. Þær greiðslur er tilkomnar vegna réttarsambands milli X og A og TR á enga aðild að því réttarsambandi og því síður rétt til þeirra greiðslna. Í 2. mgr. 55. gr. segir að ofgreiddar tekjutengdar bætur skuli dregnar frá öðrum tekjutengdum bótum. Orðið „skal“ vísar hér til skilyrðislausrar skyldu TR til að framkvæma innheimtuna með þessum hætti en veitir um leið ekki heimild til annarrar tegundar innheimtu. Til að taka svo af allan vafa segir í 3. mgr. 55. gr. að ekki sé heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega. Er TR þannig beinlínis bannað að innheimta meira en 20% af mánaðarlegum bótum í hverjum mánuði. Ákvæðið gildir um alla innheimtu á ofgreiddum bótum enda væri til lítils að setja hámark á frádrátt bóta ef komast mætti framhjá því með því að innheimta auk þess með öðrum hætti. Áréttað er að Tryggingastofnun hélt eftir 48,5% af heildargreiðslu X til A. Innheimtuúrræði TR eru bundin í lög og af þeim lagaákvæðum er ljóst, sérstaklega með hliðsjón af tilgangi þeirra, að ákvæðin ber að skýra þröngt þannig að TR er ekki heimilt að haga innheimtunni á annan veg en fram kemur í lögunum, sérstaklega ekki ef það er íþyngjandi fyrir bótaþega. Hafi réttilega stofnast endurkrafa ber TR að innheimta hana eins og aðrar endurkröfur, þ.e. með frádrætti af mánaðarlegum greiðslum til bótaþegar, þó aldrei meira en 20%. Innheimtuaðgerðin sem TR beitti gagnvart A er hvorki í samræmi við meginreglur kröfuréttar né sérstakar heimildir í lögum heldur þvert á móti í andstöðu við bæði meginreglur kröfuréttar og skýrar óundanþægar skyldur og heimildir stofnunarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 55. gr. má aðeins gera undantekningu frá meginreglunni um innheimtu með hámarks mánaðafrádrætti ef samið er um annað. Innheimta TR var aftur á móti einhliða ákvörðun stofnunarinnar. Dráttarvaxtakrafa A miðast við það að TR hafi tekið til sín greiðslur sem stofnunin átti engan rétt til. Ekki er um að ræða vangreiðslu eða rangan útreikning og því eiga sérreglur almannatryggingalaganna um vexti ekki við. Stofnunin hélt eftir peningum A með ólögmætum hætti og ber því að endurgreiða henni með dráttarvöxtum í samræmi við almennar reglur kröfuréttar frá og með þeim degi sem ákvörðunin var tekin.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 11. janúar 2010. Greinargerð dags. 24. júní 2010 barst nefndinni þar sem segir:

„A hefur verið örorkulífeyrisþegi hér á landi frá 1. apríl 1998. Fyrir upphaf örorkunnar hafði hún verið búsett í X á tímabilinu 29. júlí 1977 – 19. desember 1986.

Við upphaf örorku A var ákvæði um örorkulífeyri að finna í 12. gr. laga um almannatryggingar nr. 67/1971 en 1. og 5. mgr. ákvæðisins voru svohljóðandi:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir menn sem lögheimili eiga á Íslandi, eru á aldrinum 16-67 ára og:

1. hafa átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða haft óskerta starfsorku er þeir tóku hér lögheimili,

2.eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1 / 4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa.

....

Fullur árlegur örorkulífeyrir skal vera 21.660 kr. og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, eftir því sem við getur átt. Við ákvörðun lögheimilistíma, sbr. 2. mgr. 11. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

....

Í 2. mgr. 11. gr. (sem vísar var til í 5. mgr. 12. gr.) sagði um ákvörðun lögheimilistíma:

Fullur ellilífeyrir greiðist þeim einstaklingum sem átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við lögheimilistímann.

Þá var einnig í gildi Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 5. mars 1981, sbr. lög um fullgildingu hans nr. 66/1981. Í 18. – 20. gr. samningsins var kveðið á um að til þess að örorkulífeyrisgreiðslur við flutning milli Norðurlandanna.

Í 1. og 2. mgr. 18. gr. samningsins sagði:

1.Meðan ríkisborgari norræns lands er búsettur í öðru norrænu landi, á hann rétt til grunnlífeyris frá búsetulandinu á sömu forsendum og gilda fyrir ríkisborgara landsins og með þeim skilyrðum, sem annars eru tilgreind í þessari grein.

2. Í þeim tilvikum sem nefnd eru í 1. málsgrein, greiðist grunnlífeyrir

1)að því er varðar ellilífeyri, þegar sá sem um lífeyri sækir, hefur dvalist í landinu að minnsta kosti þrjú síðustu árin samfleytt.

2)að því er varðar örorkulífeyri, þegar sá sem um lífeyri sækir,

a)hefur dvalist í landinu samfleytt að minnsta kosti þrjú síðustu árin, eða

b)hefur dvalist í landinu samfleytt að minnsta kosti síðasta árið og hefur á þeim dvalartíma verið samfellt í að minnsta kosti eitt ár líkamlega og andlega fær um að inna af hendi almenn arðbær störf.

Í 1., 2., og 4. mgr. 19. gr. samningsins sagði:

1.Grunnlífeyrir samkvæmt 18. gr. miðast við samanlagðan búsetutíma lífeyrisþegans í einu eða fleiri hinna norrænu landa.

2.Ef búsetutími samkvæmt 1. mgr. er að minnsta kosti 40 ár, greiðist grunnlífeyrir án skerðingar vegna búsetutíma. Í öðrum tilvikum er grunnlífeyririnn að minnsta kosti einn fertugasti hluti fyrir hvert búsetuár. Í þessu útreikningi er sleppt tímanum fyrir fullnaðan 16 ára aldur og tímanum eftir að almennum lífeyrisaldri í búetulandinu er náð. Ef lífeyrisgreiðslur hefjast áður en lífeyrisþegi nær hinum almenna lífeyrisaldri reiknast honum einnig til góða tíminn, sem á vantar að hann nái lífeyrisaldri.

4.Ef grunnlífeyrir er samkvæmt löggjöf norræns lands miðaður við búsetutíma í landinu, skal búsetutími borgarara þess lands í öðru norrænu landi teljast sem búsetutími í heimalandinu.

Við upphaf örorku A átti hún skv. 12. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og þágildandi Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi rétt á óskertum örorkulífeyrisgreiðslum vegna þess að þó hún hefði verið búsett erlendis fyrir upphaf örorkulífeyrisgreiðslanna þá var sú búseta í öðru norrænu landi og Norðurlandasamningurinn kvað á um að lífeyrir miðaðist við samanlagðan búsetutíma lífeyrisþegans í einu eða fleiri hinna norrænu landa.

EES-samningurinn tók gildi hér á landi frá 1. janúar 1994, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Jafnframt tók þá gildi reglugerð ESB nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja og reglugerð ESB nr. 574/72 um framkvæmd hennar.

Um leið og EES-samningurinn tók gildi breyttust lög um almannatryggingar hér á landi þannig við lög nr. 117/1993 tóku við af lögum nr. 67/1971. Lögin voru síðan endurútgefin með lögum nr. 100/2007.

Í núgildandi almannatryggingalögum nr. 100/2007 er kveðið á um örorkulífeyri í 18. gr. en 1. og 4. mgr. ákvæðisins eru svohljóðandi:

Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, eru á aldrinum 18 til 67 ára og:

a.      hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b.      eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

...

Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.

Í almannatryggingalögum nr. 100/2007 er kveðið á um áhrif milliríkjasamninga á réttindi skv. lögunum í 1. mgr. 68. gr. sem er svohljóðandi:

Heimilt er ríkisstjórninni að semja við erlend ríki og hlutaðeigandi ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 17. og 58. gr.

Eftir að EES-samningurinn tók gildi hafa ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 tekið við af Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi varðandi þá einstaklinga sem höfðu verið á vinnumarkaði, þ.e. tryggðir sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar. Samkvæmt reglugerðinni fara lífeyrisgreiðslur nú þannig fram að um greiðslur er að ræða í hverju landi í hlutfalli við þann tíma sem viðkomandi var búsettur í því landi fyrir upphaf greiðslna. Tryggingastofnun í búsetulandi viðkomandi einstaklings annast milligöngu um umsókn um lífeyrisgreiðslur í öðrum EES-löndum sem hann hefur verið búsettur í.

Þeir sem höfðu verið búsettir í öðrum norrænum löndum og verið að fá lífeyrisgreiðslur á grundvelli reglna Norðurlandasamningsins hafa getað óskað eftir því að greiðslur þeirra væru endurreiknaðar skv. reglugerð ESB 1408/71, þ.e. að sækja um lífeyrisgreiðslur í þeim EES-löndum sem þeir höfðu verið búsettir í í hlutfalli við búsetulengd í hverju landi fyrir sig.

Við endurreikning á lífeyrisgreiðslum með þeim hætti getur komið til þess að greiðslur í búsetulandinu hafi verið hærri en ákvæði reglugerðar ESB 1408/71 kveða á um að viðkomandi land eigi að greiða. A hafði þannig verið að fá óskertar greiðslur hér á landi á grundvelli Norðurlandasamnings en við endurreikninginn breyttist greiðsluréttur hennar hér á landi þannig að í stað þess að eiga rétt á 100% greiðslum á hún rétt á 75,1% greiðslum frá sama tíma og greiðslur til hennar frá X hófust, þ.e. frá 1. júní 2008.

Þar sem ljóst var að leiðrétta þyrfti lífeyrisgreiðslur A hér á landi aftur í tímann í tengslum við upphaf greiðslna til hennar frá X var óskað eftir því þegar umsókn var send til X að fyrsta greiðsla bærist Tryggingastofnun ríkisins til uppgjörs á lífeyrisgreiðslum hér á landi í samræmi við 1. mgr. 111. gr. framkvæmdareglugerðar ESB nr. 574/72 en í þeirri reglugerð er að finna nánari reglur um framkvæmdaratriði varðandi reglugerð ESB nr. 1408/71.

Í 111. gr. ESB framkvæmdareglugerðar nr. 574/72 segir m.a.:

Almannatryggingabætur sem bótaþegar áttu ekki rétt á endurheimtar og kröfur aðstoðarstofnana.

1. Ef stofnun aðildarríkis hefur greitt viðtakanda hærri upphæð en hann átti rétt á þegar bætur (lífeyri) vegna örorku, elli eða dauða voru veittar eða endurskoðaðar samkvæmt ákvæðum í 3. kafla III. bálks reglugerðarinnar, getur hún farið fram á það við stofnun í öðru aðildarríki sem er ábyrg fyrir greiðslu samsvarandi bóta til viðtakandans að hún dragi umframgreiðsluna frá þeim bótum sem hann á ógreiddar hjá henni. Sú stofnun skal yfirfæra frádregna upphæð til inneignarstofnunarinnar. Sé ekki hægt að fá umrædda upphæð dregna frá ógreiddum bótum skulu ákvæði 2. mgr. gilda.

Sá endurreikningur sem hér um ræðir byggist þannig ekki á því að um rangar tekjuupplýsingar hafi verið að ræða, sbr. ákvæði 55. gr. almannatryggingalaga , heldur það að grundvöllur greiðslna var reiknaður að nýju og uppgjöri skv. 1. mgr. 111. gr. ESB reglugerðar nr. 574/72.

Vakin skal athygli á því að með því að fá lífeyrisgreiðslur að hluta til hér á landi og að hluta til í X á grundvelli ESB reglugerðar nr. 1408/71 í stað þess að fá eingöngu greiðslur hér á landi hafa lífeyrisgreiðslur A í raun hækkað þó sá hlutur sem hún fær hér á landi hafi lækkað, sbr. það að innan við helmingur af greiðslunni sem barst frá X greiddist upp í leiðréttingu á greiðslum hennar hér á landi.

Tryggingastofnun telur því að sá endurreikningur og leiðrétting sem fram fór á greiðslum A hér á landi hafi átt fullan rétt á sér.“

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt lögmanni kæranda með bréfi dags. 28. júní 2010 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ágreining um endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda. Tilurð kröfunnar má rekja til erlendra lífeyrisgreiðslna sem kærandi hafði öðlast rétt til frá og með 1. júní 2008. Eftir að Tryggingastofnun ríkisins var upplýst um rétt kæranda til þeirra greiðslna endurreiknaði stofnunin bótarétt kæranda frá þeim tíma, þ.e. 1. júní 2008. Endurreikningurinn leiddi í ljós að kærandi hafði fengið hærri bótagreiðslur hér á landi en hún átti rétt til vegna tilurðar á rétti til erlendu lífeyrisgreiðslnanna. Hinar erlendu lífeyrissjóðsgreiðslur voru greiddar til Tryggingastofnunar ríkisins frá X og hélt stofnunin eftir hluta þeirra greiðslna til skuldajöfnuðar á endurkröfu sem til stofnaðist á hendur kæranda vegna hinna ofgreiddu bóta. Kærandi taldi Tryggingastofnun ríkisins ekki hafa heimild til þess.

Kærandi bar fyrir sig að endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins væri ólögmætur þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þá taldi kærandi að butséð frá lögmæti endurkröfunnar hafi innheimta hennar verið ólögmæt þar sem lagastoð skorti samkvæmt lögum um almannatryggingar til að standa að henni með þeim hætti sem stofnunin gerði.

Tryggingastofnun ríkisins taldi endurkröfuna réttmæta. Réttur kæranda til lífeyrisgreiðslnanna frá X í X hafi verið byggður á grundvelli reglugerðar EBE nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja EES samningsins. Þá vísaði stofnunin til reglugerðar EBE nr. 547/72 um framkvæmd reglugerðar nr. 1408/71 sem lagastoð fyrir skuldajöfnuðinum.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda sé lögmæt. Sé kæran lögmæt lýtur ágreiningur að því hvort aðferð Tryggingstofnunar ríkisins við innheimtu á endurkröfunni hafi verið lögmæt.

Samkvæmt gögnum málsins öðlaðist kærandi rétt til lífeyrisgreiðslna frá X í X frá 1. júní 2008 samkvæmt endurreikningi sem framkvæmdur var á grundvelli heimildar í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Sú reglugerð var sett með stoð í EES samningnum sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 2/1993. Tilurð þeirrar réttar kæranda hafði þær afleiðingar að hlutfall bótaréttar hennar hér á landi minnkaði frá 1. júní 2008 sem nam þeim bótarétti sem hún öðlaðist í X. Tryggingastofnun ríkisins endurreiknaði þar af leiðandi bótagreiðslur kæranda frá 1. júní 2008 og komst að þeirri niðurstöðu að bótagreiðslur hér á landi hefðu verið ofgreiddar frá þeim tíma af fyrrnefndum sökum. Grundvallarbreyting varð á bótarétti kæranda frá 1. júní 2008 og þar af leiðandi er endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins lögmæt enda hefði bótaréttur kæranda að öðrum kosti verið tvöfaldur á tímabilinu 1. júní 2008 fram til þess sem tíma sem bótahlutfallið var leiðrétt.

Tryggingastofnun ríkisins móttók þær greiðslur sem kærandi hafði öðlast rétt til frá X sem samanstóðu af leiðréttri inneign kæranda frá stofnuninni frá 1. júní 2008. Tryggingastofnun ríkisins hélt eftir hluta þeirra greiðslna til uppgreiðslu á þeirri endurkröfu sem til hafði stofnast á hendur kæranda vegna tilurðar á bótarétti kæranda í X. Í kæru gerir kærandi athugasemdir við að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki staðið með löglegum hætti að innheimtu endurkröfunnar. Kærandi telur að stofnunin hafi ekki fylgt ákvæðum 55. gr. laga um almannatryggingar sem kveði á um innheimtu ofgreidda bóta.

Innheimta Tryggingastofnunar ríkisins fór ekki fram samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar heldur var hún framkvæmd samkvæmt ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 574/72 þar sem kveðið er á um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71. Ákvæði framkvæmdarreglugerðarinnar lúta meðal annars að innheimtu þegar endurreikningur á grundvelli heimildar í reglugerð nr. 1408/71 leiðir til þess að bætur hafi verið ofgreiddar. Í 111. gr. reglugerðar nr. 574/71 er fjallað um endurheimtu almannatryggingabóta sem bótaþegar áttu ekki rétt á. Þar kemur eftirfarandi fram í 1. mgr.:

„Ef stofnun aðildarríkis hefur greitt viðtakanda hærri upphæð en hann átti rétt á þegar bætur (lífeyri) vegna örorku, elli eða dauða voru veittar eða endurskoðaðar samkvæmt ákvæðum 3. kafla III. bálks reglugerðarinnar, getur hún farið fram á það við stofnun í öðru aðildarríki sem er ábyrg fyrir greiðslu samsvarandi bóta til viðtakandans að hún dragi umframgreiðsluna frá þeim bótum sem hann á ógreiddar hjá henni. Sú stofnun skal yfirfæra frádregna upphæð til inneignarstofnunarinnar.“

Tilvitnað reglugerðarákvæði kveður á um að komi í ljós við endurreikning skv. reglugerð nr. 1408/71 að stofnun aðildarríkis hafi ofgreitt bætur geti sú stofnun farið fram á við þá stofnun sem réttilega átti að greiða bæturnar að síðarnefnda stofnunin dragi umframgreiðsluna frá þeim bótum sem bótaþegi á ógreiddar hjá henni. Frádregna upphæðin skal síðan yfirfærð til þeirrar stofnunar sem ofgreitt hefur bætur. Þar sem tilurð endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda verður rakin til endurreiknings á grundvelli reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1408/71 hafði stofnunin heimild til að skuldajafna kröfuna með þeim hætti sem stofnunin gerði samkvæmt tilvitnaðri heimild framkvæmdarreglugerðar nr. 574/72.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins hafi verið lögmætur. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að Tryggingastofnun ríkisins hafi haft lagastoð til að innheimta kröfuna með þeim hætti sem stofnunin gerði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á bótarétti A er staðfestur. Þá er innheimta stofnunarinnar á endurkröfu samkvæmt endurreikningnum staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta